08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1791 í B-deild Alþingistíðinda. (1538)

141. mál, byggðaþróun í Árneshreppi

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir hans svar. Ég vil ennfremur þakka hv. 5. þm. Vestf. og 4. þm. Austurl. fyrir þeirra undirtektir og skilning á málinu.

Ég verð að segja að ræða hæstv. samgrh. fannst mér að nokkru leyti hálfgerð tímaskekkja. Allt sem hæstv. ráðh. var að tala um var á milli staða í Árneshreppi, um það, hvar þessi mannvirki ætti að byggja. Það fannst mér satt að segja gjörsamlega út í hött nú vegna þess að þegar við þm. Vestf., og hæstv. samgrh. þar meðtalinn, lögðum fram okkar þáltill., sem samþ. var í maí s. l., var alveg gert ráð fyrir hvar þetta hafnarmannvirki ætti að vera. Það var tekið fram í greinargerð með till. að það skyldi vera í Norðurfirði. Það var tekið fram. Við vissum það allir. Það var í okkar huga engin spurning um hvar þetta hafnarmannvirki ætti að vera. Þess vegna þurfti engar rannsóknir á því, hvar þetta ætti að ske. Það þurfti þegar í stað að hefjast handa um það sem samþ. var, þ. e. bara um undirbúning og hönnun að hafnarframkvæmdum á þessum stað. Það var það sem þurfti að gera. Mér sýnist, eftir því sem hæstv. ráðh. sagði, að það hefði verið eytt einhverjum tíma í athugun á því hvar ætti að byggja þess höfn og komin sé niðurstaða af athugunum hafnamálastjórnar, hún hafi komið 13. des. s. l. En við þm. Vestf. og hann sjálfur vissum alveg hvað við vorum að tala um í maí. Ég verð að harma að það skyldi ekki þegar beinast athyglin að því að gera það, sem þáltill. gerði ráð fyrir, hefja þegar undirbúning og hönnun hafnarframkvæmda í Norðurfirði. Það er alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að það er mikilvægt að hraða þessu verkefni og það er alveg óháð því hvaða breyting verður á flutningum Ríkisskips. Þm. Vestf. töldu að það þyrfti að hraða þessu verki svo að raunverulegar framkvæmdir hæfust á þessu sumri, 1983. Það var talað um það. Nú er hins vegar talað um að þetta sé ekki hægt.

Hæstv. ráðh. sagði að það hefði ekki verið hægt við afgreiðslu fjárlaga að ráðstafa fjármagni í nýjar hafnir. Ég skil það sjónarmið og þá hugsun sem felst í orðum hæstv. ráðh. En hér er ekki um venjulega framkvæmd að ræða í hafnamálum. Hér er um sérstakt byggðamál að ræða, sem er þess eðlis að það verður m. a. að fjármagna það öðruvísi en venjulegar hafnir. Það er ekki nægilegt að það komi ríkisframlag samkvæmt lögum, heldur verður að gera beinar ráðstafanir til þess að það framlag, sem sveitarfélagið á að leggja fram, komi annars staðar frá sem óafturkræft framlag. Þar höfum við haft í huga Byggðasjóð. Þetta er líka tekið fram í greinargerðinni með till. sem við fengum samþ.

Ég vildi leggja áherslu á þetta. Hryggir mig seinagangurinn á þessu máli vegna þess hve sérstakt það er. Það er alveg rétt, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði, að þetta er eitt mesta byggðamálið á Vestfjörðum í dag, ekki vegna fólksfjöldans sem þarna er, heldur vegna þess að þetta er jarðarbyggð og við óttumst afleiðingar af því ef þessi jaðarbyggð fer í eyði.

Hæstv. ráðh. sagði að hann mundi gera ráð fyrir að þetta mál hefði forgang 1984 og hann sagði að hann mundi fljótlega leggja þetta fyrir ríkisstjórnina. Það er nú betra að hæstv. ráðh. flýti sér að því meðan ríkisstjórnin heldur lífi. Sannleikurinn er sá, að þetta viðhorf og þessar fyrirætlanir minna á að of seint er að iðrast eftir dauðann.