08.02.1983
Sameinað þing: 48. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1792 í B-deild Alþingistíðinda. (1539)

141. mál, byggðaþróun í Árneshreppi

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég taldi nú rétt að lesa greinargerðina eins og hún kom frá Hafnamálastofnun og taldi engan skaða í því að þeir þm. sem ekkert þekkja málið gerðu sér grein fyrir að búið var að vinna þarna að athugun á hafnarframkvæmdum lengi áður en þáltill. kom fram. Það má kannske segja að þáltill. hafi verið tímaskekkja, ef menn vilja tala um tímaskekkju. Staðreyndin er sú, að ég gaf Hafnamálastofnun fyrirmæli um það fyrir u. þ. b. einu og hálfu ári, þ. e. töluverðu áður en þáltill. kom fram, að ljúka sinni athugun. Þess vegna hélt ég að það sakaði ekki, því það hefur verið nokkuð umdeilt satt að segja, að hér kæmi fram að það hefur þó a. m. k. verið kannað hafnarstæði að Gjögri, en sumir halda því fram enn að þar ætti að byggja höfnina. Ég tel að ekki saki að það sé til hérna í þskj. að þar var borað og athugað hvort unnt væri að gera þar bryggju, en það reyndist bara ekki fært. Það getur vel verið að hv. þm. hafi vitað það, þó veit ég það ekki, en það sakar ekki þó það komi hér fram. Ég kaus því að lesa þessa greinargerð, þó mér væri ljóst að þm. Vestf. væri að sjálfsögðu margt kunnugt sem þar stendur.

Ég vil svo lýsa nokkurri furðu minni á deilum hv. þm. á það, að ekki var fjárveiting núna í fjárlögum til þessarar hafnar, ég man ekki eftir neinni till. frá honum um það í starfi okkar þm. Vestf. Ég man ekki betur en við værum sammála um að því miður væri miðað við þann þrönga ramma, sem hafnargerð var skorin núna, ekki hægt að koma inn þessari fjárveitingu eins og er. Ég hugsa að við höfum allir harmað það jafnmikið.

Mér þykir leitt þegar hv. þm. kemur í ræðustól til að slá sig til riddara af því að hann hafi borið þetta meira fyrir brjósti en aðrir. Af hverju heldur hv. þm. að farið hafi verið í grjótnám þarna í fyrra? Ætli ég hafi ekki eitthvað haft með það að gera? Það varð að fá m. a. úr því skorið hvort þarna væri til heppilegt grjót, sem margir efuðust um. Það fékkst sem betur fer. Varið var í það nokkru fjármagni — satt að segja fjármagni sem ekki var á hafnaáætlun til þess. Að þessu máli hefur því verið unnið af fullkominni samviskusemi og í fullkomnu samráði við heimamenn, og það er alveg óþarfi fyrir hv. þm. að reyna að gera sig að einhverjum riddara á þessu máli. Það hefur verið ágæt samstaða milli okkar þm. Vestf. í þessu máli, a. m. k. til þessa.

Ég vil fagna því sem kom fram hjá hv. þm. Sverri Hermannssyni. Ég er honum sammála um að hér er svo sannarlega um byggðamál að ræða og vissulega mál sem Byggðasjóður gæti veitt brautargengi. Hver veit nema hann fái það til nánari meðferðar.