08.02.1983
Sameinað þing: 49. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1794 í B-deild Alþingistíðinda. (1544)

165. mál, vegar- og brúargerð yfir Gilsfjörð

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. á þskj. 256 um vegar- og brúargerð yfir Gilsfjörð. Flm. auk mín eru fimm aðrir Vestfjarða- og Vesturlandsþm., þeir Alexander Stefánsson, Sighvatur Björgvinsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Skúli Alexandersson og Friðjón Þórðarson. Tillgr. felur í sér áskorun á Alþingi að hún hlutist til um að Vegagerð ríkisins láti fara fram rannsókn á hagkvæmni vegar- og brúargerðar yfir Gilsfjörð. Gert verði ráð fyrir þessu verkefni við afgreiðslu vegáætlunar í ár.

Það kostar að vísu nokkurn kjark að bera fram till. um svo fjárfreka framkvæmd sem brúargerð yfir Gilsfjörð er. Það er hart í búi hjá okkur um þessar mundir, en ég bendi á að í gildi er langtímaáætlun um vegagerð, þar sem sjálfkrafa renna 2.2% þjóðartekna til þessara mála í landinu. Við vonum að það hækki með árunum upp í 2.4%, þannig að enginn vafi er á að þarna er allmikið fjármagn úr að spila. Spurningin er, hvernig því er varið, hvað verður talið til forgangsverkefna.

Brú yfir Gilsfjörð er gömul hugmynd. Það er gömul hugmynd sem íbúar aðliggjandi héraða á sunnanverðum Vestfjörðum og í Dalasýslu hafa haft mikinn áhuga á um langan tíma. Eins og öllum er kunnugt sem til þekkja, hefur Gilsfjörðurinn löngum verið erfiður farartálmi. Þar er snjóþungt á vetrum og skriðuföll tíð. Umtalsverðar umbætur á vegi fyrir fjörðinn hafa ekki verið gerðar s. l. 15 ár utan lágmarksviðhalds. Vegurinn stenst því ekki þær kröfur sem gera verður til þjóðvega í dag. Á honum eru brýr sem eru orðnar lélegar og þarfnast endurnýjunar. Á fjörum fyrir botni fjarðarins að norðanverðu verða árlega skemmdir á veginum vegna sjávargangs. Þar þarf að byggja upp langa vegarkafla. Það er ljóst að þær umbætur, sem gera verður á vegi fyrir Gilsfjörð, verða mjög kostnaðarsamar.

Á s. l. ári fór fram undirskriftasöfnun meðal íbúa Dalasýslu og suðurhluta Vestfjarða, þar sem skorað er á stjórnvöld að þegar verði hafist handa við lagningu vegar og brúar milli Króksfjarðarness í Austur-Barðastrandarsýslu og Stórholtslands í Dalasýslu. Rúmlega 500 íbúar viðkomandi byggðarlaga skrifuðu nöfn sín undir þessa áskorun. Sýnir það ljóslega hinn mikla áhuga aðliggjandi héraða til þess að þetta verk nái fram að ganga.

Í greinargerð heimamanna, sem áður var vitnað til varðandi málið, komu fram ýmis veigamikil rök. Þar er m. a. bent á að Austur-Barðstrendingar fái sína læknisþjónustu frá heilsugæslustöðinni í Búðardal eftir að embætti héraðslæknis á Reykhólum var flutt þangað. Á meðan samgöngum milli þessara tveggja héraða, Dalasýslu og Austur-Barðastrandarsýslu, er svo háttað sem raun ber vitni getur neyðarástand skapast án fyrirvara og hefur raunar oft legið nærri. Á Reykhólum er fjölmennur vinnustaður, Þörungavinnslan hf. Þar er unnið með stórvirk tæki og vélar. Slíku fylgir að sjálfsögðu slysahætta. Auk heilbrigðisþjónustunnar má benda á fleiri samskipti Austur-Barðstrendinga og Dalamanna, svo sem mjólkurflutninga, verslun og margvísleg félagsleg samskipti.

Þessi brúargerð mundi stytta leið vegfarenda verulega, um að ég hygg um 20 km. Hún tekur af alla erfiðustu staðina í Gilsfirðinum og fjarlægðin milli landa er rúmir 2 km — milli Króksfjarðarness og Stórholtslands á norðurströnd Saurbæjarms. Auk þess liggja fyrir þær niðurstöður úr rannsóknum að sjávarbotn á þessu svæði er mjög harður. Þar skiptast á klappir og hörð setlög. Í annan stað má þess geta að þarna er mikið grunnsævi, svo að botn fer á þurrt á stórstraumsfjöru, utan einnar eða tveggja lítilla læna. Þetta staðarval virðist því hafa marga kosti til að bera umfram aðra. Frá náttúruverndarsjónarmiði virðist Gilsfjörðurinn vel fallinn til brúargerðar. Vegagerð ríkisins lét á síðasta áratug gera forkönnun á lífríki fjarðanna sunnanvert á Vestfjörðum, frá Gilsfirði að botni Vattarfjarðar. Könnun þessi var gerð af Líffræðistofnun Háskólans og árið 1976 voru birtar niðurstöður í skýrsluformi eftir Agnar Ingólfsson líffræðing. Þær niðurstöður benda ótvírætt til að lífríki Gilsfjarðar sé mun einhæfara en annarra fjarða er könnunin náði til og því líkur til að umrædd brúargerð mundi leiða til minni skaða eða röskunar á lífríki heldur en í hinum fjörðunum. Gerð mannvirkisins skiptir þó að sjálfsögðu miklu máli.

Það fer ekkert á milli mála að framkvæmd sú er þessi till. fjallar um felur í sér stórkostlega samgöngubót fyrir alla landsmenn. Hún hlýtur að skoðast sem hluti „hringvegarins“ svokallaða sem áhersla er lögð á að koma í viðunandi horf sem fyrst. Mér koma í hug ummæli, sem raunar voru sögð í spaugi einhvern tíma í þessum sal og í þessum ræðustól, að Vestfirðir, þessi útkjálki væri eins og hver önnur óþarfa slaufa á landinu sem mætti sníða af. Það var hægt að brosa að þessum ummælum sem ég man að hv. þm. Garðar Sigurðsson viðhafði hér um samgöngumál um jólaleytið. En satt best að segja hefur manni stundum virst, þegar talað er um hringveginn, að Vestfirðir hafi oft hreinlega viljað gleymast. Þeir gjalda þess hvernig þeir eru í laginu og hvernig tengingin er við meginhluta landsins. Það er greinilegt að hér er auk þess mjög brýnt hagsmunamál viðkomandi byggðarlaga sem búa á margan hátt við erfiðar aðstæður í atvinnulegu og félagslegu tilliti. Austur-Barðastrandarsýsla er nú fámennasta sýsla landsins. Þar stendur byggð mjög tæpt bæði í atvinnulegu og félagslegu tilliti. Þessi samgöngubót yrði ákaflega mikilvæg tenging Vestfjarða við aðra landshluta. Þetta verður vafalaust dýr framkvæmd, þó að ekki liggi fyrir enn kostnaðaráætlanir af neinu tagi, og hún hlýtur að eiga sér nokkuð langan aðdraganda og undirbúning.

Till. þessi beinist fyrst og fremst að því að hafist verði handa nú við nauðsynlegar rannsóknir er fé verði veitt til við afgreiðslu vegáætlunar í ár. Nú ríkir að vísu mikil óvissa um vegáætlun. Nær hún fram að ganga áður en þing verður hugsanlega rofið og þm. sendir heim? Þó að ég eigi ekki langt eftir af veru minni á þingi nú, þá vil ég vona að þingið sjái sér fært að láta ekki svo veigamikið mál óafgreitt eins og vegáætlun er. Hér er vakið máls á þessu verkefni og hálfnað er verk þá hafið er. Ég vona að þetta verði meira en orðin tóm. Hér er vakið máls á merku samgöngumáli sem ég vænti að verði framfylgt þannig að það nái fram að ganga eins skjótt og auðið er. Ég veit að það er stórt verkefni, en verði lagt til atlögu við það strax þá má vænta þess að ekki líði mjög mörg ár þangað til þessi draumur Austur-Barðstrendinga og Dalamanna og raunar allra landsmanna verði að veruleika.

Ég vil, herra forseti, mælast til þess að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. allshn.