09.02.1983
Efri deild: 39. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1800 í B-deild Alþingistíðinda. (1559)

187. mál, fólksflutningar með langferðabifreiðum

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um skipulag á fólksflutningum með langferðabifreiðum.

Lög þau, sem nú eru í gildi um skipulag á fólksflutningum með bifreiðum, eru að stofni til frá árinu 1935, en voru endurskoðuð allverulega 1966. Ég hygg að ljóst megi vera að á þessum tíma hafi orðið miklar breytingar, við getum jafnvel sagt gerbylting, á þessu sviði bifreiðasamgangna á Íslandi, og hefur því fyrir löngu sýnst aðkallandi að endurskoða þessi lög. Reyndar hafa verið gerðar tilraunir til þess, skipaðar nefndir til að endurskoða lögin, þótt ekki hafi slíkar breytingar náð fram að ganga.

Ein ástæðan fyrir því að mér þótti nauðsynlegt að ráðast í þessa endurskoðun enn á ný voru mjög háværar kvartanir hópferðaleyfishafa út af því að þeir hafa ekki átt mann í skipulagsnefnd fólksflutninga, sem þó úthlutar m. a. leyfum til hópferða. Mér sýndist réttlætismál að þessir aðilar fengju fulltrúa í nefndina. Því skipaði ég með bréfi dags. 16. okt. 1981 nefnd til að endurskoða lög um fólksflutninga. Í nefndinni áttu sæti Ólafur S. Valdimarsson skrifstofustjóri, og var hann formaður nefndarinnar, Ágúst Hafberg framkvæmdastjóri, Einar Ögmundsson forstöðumaður, Leifur Karlsson bifreiðastjóri, Skarphéðinn Eyþórsson framkvæmdastjóri og Ölvir Karlsson oddviti. Ritari nefndarinnar var Birgir Guðjónsson deildarstjóri. Þarna eru fulltrúar allra hagsmunaaðila, sem að þessu máli koma, a. m. k. þeirra helstu.

Megintilgangurinn með breytingunum, sem ég mun lýsa hér á eftir og eru reyndar saman dregnar í almennri greinargerð, er að sjálfsögðu að stuðla að sem bestum og hagkvæmustum fólksflutningum með almenningsbifreiðum, jafnt í dreifbýli sem þéttbýli. Enginn dregur í efa þýðingu þessarar flutningagreinar og þá ekki einungis fyrir íbúa landsins vegna ýmissa erinda sem þeir eiga í þéttbýli eða dreifbýli, heldur einnig fyrir almennt ferðafólk. Með lögum þessum var ætlað að skipuleggja þessa flutningagrein sem best, annars vegar með tilliti til þess að hagkvæmni ríki í rekstri og að sem minnst verði um árekstra að ræða á milli flutningaaðila og hins vegar til þess að þjónusta flutningsaðila við neytendur verði sem best.

Nefndin gerir ráð fyrir að sett verði ítarleg reglugerð til frekari skýringar og fyllingar á einstökum lagagreinum. Það yrði verkefni skipulagsnefndar fólksflutninga og umferðardeildar að semja tillögur að slíkri reglugerð, sem síðan yrði sett af samgrh. Nefndinni hefur þótt rétt að ætla fastákveðinn tíma til samningar á reglugerð eða sex mánuði, eins og kemur fram í 12. gr. frv.

Í reglugerðinni þurfa m. a. að vera ítarleg ákvæði um verksvið skipulagsnefndar fólksflutninga, verksvið umferðarmáladeildar svo og um samstarf þessara tveggja aðila og stöðu þeirra gagnvart samgrh.

Segja má að helstu breytingarnar, sem fram koma í frv., séu átta, og skal ég fara yfir þær.

1. Þær tegundir fólksflutninga, sem fjallað er um í lögunum, eru skilgreindar frekar en verið hefur, sbr. 1. og 2. gr. Sérstök skilgreining er gerð á sætaferðum og fjallað um þær sérstaklega í lögunum (9. gr.), en ekkert er fjallað um sætaferðir í gildandi lögum.

2. Úthlutun hópferðaleyfa er breytt á þann veg, að leyfin eru veitt til fimm ára í stað eins árs, eins og er í gildandi lögum, nema þau leyfi sem veitt eru í fyrsta sinn. Eðlilegt er að gildistími leyfanna sé lengdur verulega frá því sem nú er, þar sem hér er um dýr atvinnufyrirtæki að ræða og óeðlilegt að fá aðeins tryggingu fyrir starfrækslu fyrir svo skamman tíma í einu eins og nú er raunin.

3. Numin eru úr gildandi lögum ýmis skilyrði, sem sett eru fyrir veitingu sérleyfa og nefndin telur vera úrelt.

4. Felld er niður heimild samgrn. til þess að taka í sínar hendur afgreiðslu sérleyfisbifreiða.

5. Felld er niður heimild samgrh. til að fela póststjórninni eða annarri stofnun að hafa með höndum yfirumsjón og eftirlit með fólksflutningum með bifreiðum, er sérleyfi, undanþágu eða réttindi til hópferðaaksturs þarf til, en ákveðið er í frv. að umferðarmáladeild skuli hafa þessa umsjón og eftirlit með höndum. Þessi skipan hefur raunar gilt nú um hríð samkv. reglugerðarbreytingu, en verður með þessum tillögum lögfest.

6. Fjölgað er um tvo fulltrúa í skipulagsnefnd fólksflutninga. Annar þeirra skal vera frá Félagi hópferðaleyfishafa, en félagið er tilkomið eftir að gilandi lög voru sett og löngu orðið aðkallandi að það ætti fulltrúa í nefndinni. Sama gildir um hinn fulltrúann, sem skal vera frá Sambandi ísl. sveitarfélaga.

Það skal tekið fram í þessu sambandi, að nokkuð var um það rætt hvort ætti að fella úr nefndinni fulltrúa frá Búnaðarfélagi Íslands og Alþýðusambandi Íslands og þá gert ráð fyrir því að fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga kæmi þar í staðinn, en niðurstaðan varð sú, að þessir aðilar eiga báðir áfram fulltrúa í nefndinni.

7. Í stað þrenns konar gjalda, þ. e. farmiðagjalds á sérleyfisleiðum, hópferðaréttindagjalds og gjalds af hópferðaleyfum, leggur nefndin til að eitt gjald skuli lagt á leyfisskyldar bifreiðar. Gjald þetta skal greitt árlega af hverju farþegasæti. Þó þótti nefndinni rétt að heimilað yrði að gjaldstofninn yrði annar, ef skipulagsnefnd fólksflutninga legði það til. Um gjaldstofninn, innheimtu og önnur atriði varðandi gjaldið þurfa að koma nánari ákvæði í reglugerð.

8. Með tillögum sínum stefnir nefndin að því, að skipulagsnefnd fólksflutninga geti orðið virkari í störfum sínum en unnt er samkv. gildandi lögum.

Herra forseti. Ég hef nú rakið aðdraganda þessarar frv.-gerðar og sömuleiðis helstu breytingar, sem gert er ráð fyrir í frv., og sé ekki ástæðu til að fara ítarlegar orðum um málið. Ég vil leggja á það áherslu, að samstaða náðist með fulltrúum þessara hagsmunaaðila, sem hafa alloft deilt um úthlutun leyfa á undanförnum árum. Þetta tel ég ákaflega mikilvægt. Ég kaus því að leggja frv. fram óbreytt frá því samkomulagi sem varð í nefndinni. Ég geri mér vonir um að með þeim breytingum, sem hér er lagt til að gerðar verði, megi nást betri samstaða í viðkvæmu máli, þ. e. úthlutun sérleyfa og hópferðaleyfa.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. samgn.