01.11.1982
Efri deild: 6. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

41. mál, fóstureyðingar

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Því miður átti ég þess ekki kost að vera viðstaddur hér í deild þegar mælt var fyrir því frv. sem hér er til umr., 41. máli. Enda þótt umr. hafi verið haldið opinni, þá vonast ég til þess að menn ætlist ekki til að ég haldi hér einhverja tímamótaræðu í málinu. (Gripið fram í.) Það hefur ekki verið rétt með farið, það leiðréttist þá hér með í upphafi máls míns.

Eins og fram hefur komið hefur þetta mál verið flutt áður og oftsinnis raunar, en ekki fengið þann hljómgrunn sem til hefur verið ætlast vafalaust af hv. flm. Ég vil ekki draga neina dul á það, að mér þykja fóstureyðingar vera orðnar nokkuð margar á ári hverju. Hins vegar vil ég benda á að þeim hefur líklega ekki fjölgað frá 1979. Á því herrans ári hygg ég að þær hafi orðið 563 eða þar um bil, ég man þessar tölur ekki nákvæmlega, en ef ég veit rétt örlítið færri á síðasta ári. Þessar tölur segja kannske ekki mjög mikið og ég hef ætíð varað við of ríkum samanburði á þeim og fjölda fóstureyðinga fyrir árið 1975, ekki síst þegar hugað er að því að þá fór fjöldi kvenna utan til þess að láta framkvæma slíkar aðgerðir. Jafnframt geri ég ráð fyrir, og veit það raunar, að slíkar aðgerðir voru framkvæmdar hér bak við tjöldin, ef svo má að orði komast, þó að ég sé ekki að væna neinn um eitt eða annað. Þessar tölur, sem tíundaðar eru, eru því að mínum dómi ekki raunveruleg aukning.

Ég vil á þessu stigi vara fremur við því að fella einhliða niður umrætt ákvæði úr þeim lögum sem nú eru í gildi, þ.e. að fóstureyðingar séu heimilar af félagslegum ástæðum. Ég fer ekki í því sambandi að tína til hin fjölmörgu atriði sem þar getur þurft að vega og meta. Það er t.d. síðasti liðurinn í þeirri upptalningu sem tíunduð er í lögunum, 9. gr., „annarra ástæðna séu þær fyllilega sambærilegar við ofangreindar aðstæður“. Í lögunum er þetta ekki skilgreint nánar. Án þess að ég fari út í það sjálfur, þá held ég að allir menn viti það, að ýmsar aðstæður geta legið til grundvallar því að heppilegra sé að koma í veg fyrir lífmyndun, eins og ég vil að orði komast, því að eyðing fósturs fyrir 12. viku er að dómi læknisfræðinnar ekki morð, og ég vil í lengstu lög halda mig við það.

Erindi mitt í þennan ræðustól var fyrst og fremst að lýsa því yfir, að ég vil beita mér fyrir því sem formaður heilbr.- og trn. að nefndin reyni, eftir því sem tök eru á, að kynna sér í samtölum við ýmsar heilbrigðisstéttir, sem hafa haft með framkvæmd þessara mála að gera, eða þá með bréfaskriftum hvernig hin raunverulega framkvæmd er á grundvelli þessara laga, hvort það geti verið að í framkvæmdinni sé nokkuð frjálslega með efni farið, ef ég má svo að orði komast. Ég vil sem sagt leggja mitt af mörkum til þess að slík athugun geti farið fram. Nú er ekkert hægt að segja um það fyrir fram hvað út úr því kemur, en mér finnst nokkuð glannalegt að ganga til lagabreytingar án þess að slík athugun fari fram, svo sem hér er gert ráð fyrir með því frv. sem er til umr.

Ég held að ég hafi ekki um þetta fleiri orð. Ég veit að hv. 1. flm., 4. þm. Vestf., er mjög fús til að veita okkur í heilbr.- og trn. þær upplýsingar og þau ráð sem að gagni mega koma í þeirri vinnu sem ég hef heitið að hafa forgöngu fyrir í heilbr.- og trn.