09.02.1983
Neðri deild: 36. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1804 í B-deild Alþingistíðinda. (1569)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Misvægi er orð sem mikið er notað í þjóðfélaginu í dag. Að vísu hefur það verið og er á þessari stundu fyrst og fremst notað um misvægi atkvæða. En það er á fleiri sviðum sem misvægis gætir en að því er varðar atkvæðisrétt einstaklinga.

Ég hef kvatt mér hljóðs til að gera að umræðuefni einn þátt þess mikla misvægis, sem er að því er varðar búsetuskilyrði manna í þessu landi, og þar á ég við marggefin fyrirheit stjórnvalda um jöfnun orkuverðs. Það hefur ekki farið fram hjá neinum, ekki síst undangengnar vikur og mánuði, að þetta mikla mál er nú að verða þess valdandi, ef ekki þegar orðið, að búsetuflutningar eiga sér stað í ríkum mæli frá þeim svæðum, þar sem orkuokrið, ef svo má segja, er við lýði, á þau landssvæði, þar sem tiltölulega litlir fjármunir eru greiddir fyrir þá aðstöðu miðað við það sem er úti á landsbyggðinni.

Það er rétt að minna á í þessu sambandi, að með lögum frá 1980 um orkujöfnunargjald — lögum sem allir voru sammála um að setja og stóðu að til að reyna að létta byrðar þeirra einstaklinga sem úti á landi búa — var lagt 1.5% gjald á söluskattstofn. Þetta gjald, sem innheimt var, nam á árinu 1980 rösklega 190 millj. samkv. fjárlögum þess árs —190 millj. sem átti að verja til jöfnunar orkuverðs um landið. Einvörðungu um 30 millj., að ég best veit, voru notaðar til þessa verkefnis, sem lögin voru þó fyrst og fremst og einvörðungu sett til að þjóna. Um 160 millj. af þessu fé voru nýttar til einhverra annarra verkefna og ekki hefur fengist upplýst enn þann dag í dag, það ég best veit, til hvers þær voru notaðar.

Í fjárlögum yfirstandandi árs hefur hæstv. ríkisstj. kosið að hafa ekki þannig að sýnilegt sé þessa yfirskrift yfir þessari gjaldtöku, þ. e. orkujöfnunargjald. Það finnst ekki í fjárlagafrv. fyrir árið 1983, en eigi að síður er þessi gjaldtaka í fullu gildi og hún mun gefa samkv. fjárlögum ársins í ár um 315 millj. kr., sem teknar eru af skattþegnum þessa lands til að jafna orkuverð, en á einvörðungu að nota um 67 millj. af þessum 315 til þessa verkefnis. Um 35 millj. er ætlað að nota til jöfnunar á kostnaði við húshitun með rafmagni, 2.3 millj. til hitaveitna og svo 29.2 millj. í olíustyrki eða samtals um 67 millj. kr. af þeim 315 sem á að innheimta á þessu ári til þessa verkefnis. Það eru því 248 millj. sem standa eftir af þessari gjaldtöku af almenningi í landinu og virðist, að því er best verður séð, að hæstv. ríkisstj. ætli sér á þessu ári eins og hinu síðasta að nýta þessa fjármuni til allt annars en ætlað er samkv. lögum. Af þessu er ljóst, að fyrir hendi eru fjármunir til að stíga verulegt skref til jöfnunar orkuverðs og þar með jöfnunar á búsetuskilyrðum almennings í þessu landi á þessu ári vegna þeirrar skattheimtu sem við lýði hefur verið og er lögum samkv. og á að fara til þessa þáttar.

Það hlýtur að vera áhyggjuefni þeirra, sem á annað borð hugsa um þessi mál, þegar dæmið litur þannig út að allt að helmingur dagvinnutekna verkamanns fer til þess að standa straum af upphitunarkostnaði og rafmagni til heimilisnota á mánuði hverjum. En þannig snýr dæmið nú við a. m. k. æðimörgum á Vestfjörðum. Allt að helmingur dagvinnutekna verkamanns fer í þann þátt einan að sjá fyrir upphitun íbúðarhúsnæðis og raforku til heimilisnota. Það er fast að því jafnhá upphæð og — mig minnir að hæstv. iðnrh. hafi gert grein fyrir því ekki alls fyrir löngu í ræðu — færi á einu ári á því svæði sem við erum nú á í sams konar kostnað. Þessi kostnaður er þar sem ég þekki hvað best til á bilinu frá ca. 2300 kr. upp í um eða yfir 4000 á hverjum einasta mánuði til þessara þátta heimilishaldsins. Er að mínu viti ekki vansalaust að stjórnvöld horfi nær aðgerðalaus upp á þróun sem þessa vitandi að búseturöskun er þegar farin að fylgja í kjölfar þessa og á eftir, ef fram heldur sem horfir, að verða ríkari þáttur verði ekkert að gert.

Það hlýtur að vera kominn tími til þess að allir þeir sem á annað borð unna jafnrétti, mannréttindum á einu eða öðru sviði, í þessu landi sameinist um að krefja stjórnvöld þess, að til þessa málaflokks sé skilað þeim skattpeningum sem búið er að taka af skattborgurum landsins og eiga að nýtast til þessa verkefnis. Ég minni í þessu sambandi á eina meginkröfu Alþýðusambands Vestfjarða í samningsgerð á síðasta ári — kröfu til stjórnvalda um jöfnun orkuverðs sem einna raunhæfustu kjarabótina fyrir það fólk sem við þetta býr. Ég minni jafnframt á yfirlýsingu og vilyrði hæstv. forsrh. í lausn þeirrar deilu á Vestfjörðum — fyrirheit um að unnið skyldi að jöfnun orkuverðs frá því sem þá var. Ég minni einnig á að tvær nefndir hafa starfað í sambandi við þetta mál. Önnur mun hafa lokið störfum á s. l. vori og strax í kjölfar hennar mun hafa verið skipuð önnur nefnd til sama verkefnis, sem nú, fyrir nokkrum dögum líklega, hefur lokið verkefni sínu.

Ég ætla ekki hér að fara út í efnisumr. um álit eða niðurstöður þessara nefnda. Það kann að koma að því síðar, en eigi að síður ætti að vera orðið ljóst eftir það starf, sem unnið hefur verið, hversu brýn þessi þörf er og hversu miklar þær drápsklyfjar eru sem eru að sliga meginþorra fólks á þeim landsvæðum sem hér er átt við. Mér eru það eigi að síður mikil vonbrigði, að mér sýnist að niðurstaða seinni nefndarinnar sé sú, að það eigi enn að skattleggja almenning í landinu til þess að snúast með einhverjum hætti við þessu vandamáli, þrátt fyrir þá staðreynd að skatt er búið að innheimta til þess allt frá 1980, en hann ekki verið látinn renna til þessa verkefnis. Það hlýtur því að vera krafa allra þeirra sem hér eiga hlut að máli til hæstv. ríkisstj. að það sé skilað þeim fjármunum, sem innheimtir hafa verið með skattlagningu og ætlaðir voru beinlínis til að jafna þarna um, til réttra aðila áður en til nýrrar skattheimtu er gripið af almenningi í landinu. Það er meginkrafa — og ófrávíkjanleg að mínu viti — fólks í dreifbýlinu, sem við þetta býr, að öllu andvirði orkujöfnunargjaldsins sé skilað til þess að jafna þessar byrðar. Áður en það hefur verið gert er ástæðulaust og óraunhæft í alla staði að vera að tala um nýja skattlagningu.

Ég vil því spyrja hæstv. iðnrh. og raunar hæstv. forsrh. líka og ríkisstj. alla, hvort enn sé meiningin að svíkja gefin fyrirheit um jöfnun orkuverðs og hvort í ár eigi eins og á síðasta ári að draga undan langsamlega mestan hluta af þeim skattpeningum, sem í þetta verkefni eiga að fara, til annarra hluta innan ríkiskerfisins.

Ég vil einnig spyrja hæstv. iðnrh. um það, með hvaða hætti þeim 160 millj. af 190 rúmum, sem orkujöfnunargjaldið gaf á árinu 1982, var varið. Til hvers varði hæstv. ríkisstj. þeim peningum sem áttu að fara í jöfnun orkuverðs? Og ég vil enn spyrja hæstv. iðnrh. Í fyrsta lagi er kannske rétt að spyrja: Á ekki að verja þessum 315 millj., sem innheimtar eru í orkujöfnunargjaldi á árinu 1983, til jöfnunar orkuverðs í landinu? Ef ekki, ef einvörðungu á að verja hinum 67, sem ég hef hér gert að umræðuefni, til þessa þáttar, í hvað eiga hinar 248 millj. að fara? Það er full ástæða til þess að fá það upplýst á Alþingi í ljósi gangs þessa máls með hvaða hætti hæstv. ríkisstj. ætlar sér að halda á þessu máli. Ég er þeirrar skoðunar, að stórmál sem þetta, misvægið í orkuverðinu, verði að leysa. Misvægið í orkuverðinu er svo mikið að það leiðir áður en langt um líður til gífurlegar byggðaröskunar í þessu landi, verði ekkert að gert.

Ég minni einnig á í þessu sambandi, að á síðasta þingi var flutt frv. í hv. Ed. af hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni, Eiði Guðnasyni og Agli Jónssyni um þetta meginmál, þ. e. að orkujöfnunargjaldið verði allt nýtt til þess verkefnis sem því var ætlað að standa straum af. Afgreiðsla þess máls varð sú í hv. Ed. að því var vísað til hæstv. ríkisstj. með eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Með skírskotun til yfirlýsingar ríkisstj. í Ed. í gær og í trausti þess að þær aðgerðir til jöfnunar hitunarkostnaðar, sem lofað hefur verið fyrir 1. ágúst n. k., verði ákveðnar með sérstöku tilliti til efnisþátta frv., samþykkir deildin að vísa frv. til ríkisstj.

Hér er frv. vísað til ríkisstj. í trausti þess að efnisþættir frv., sem hér um getur, verði í meginatriðum framkvæmdir. Það skortir æðimikið á að slíkt hafi verið gert. Ég held því, að hvað sem ákvörðun ríkisstj. í þessu tilviki líður geti Alþingi ekki lengur skotið sér undan því að krefjast þess fyrir hönd þess fólks sem hér á hlut að máli að skilað sé öllu því fjármagni til þessa verkefnis sem búið er að skattleggja fólk fyrir í því augnamiði. Allt annað eru hrein svik við gefin fyrirheit, gefin loforð, — svik við þá löggjöf sem samþykkt var hér á Alþingi í maímánuði 1980.

Ég vænti þess að fá frá hæstv. iðnrh. viðhlítandi svör við því sem hér er um að ræða. Verði það ekki sé ég ekki annað en áfram verði að halda og knýja á hér á Alþingi að hæstv. ráðherrar standi skil á þessum peningum til réttra aðila.

Ég vil, herra forseti, þakka það að fá að ræða um þetta mál utan dagskrár. Mér er ljóst að miklar annir eru, að því er sagt er, hér á hv. Alþingi, þó að undangengna daga hafi ekki verið svo að sjá á fundahaldi, en eigi að síður þykir mér ástæða til að þakka hæstv. forseta fyrir að hafa gefið mér tækifæri til að reifa þetta mál utan dagskrár.