01.11.1982
Efri deild: 6. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

41. mál, fóstureyðingar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég varð heldur fyrir vonbrigðum með þessa ræðu hv. 3. þm. Vesturl. og kannske þeim mun fremur þar sem ég mun hafa borið einhverja ábyrgð á því að hann gat komið með þetta framlag hér. Ég verð að segja að það vakti þá ekki fyrir mér að það skipti máli hvort hann mælti með frv. eða móti. Ég gerði það sem ég taldi skyldu mína, að una því ekki að umr. væri lokið án hans innleggs.

Hv. þm. sagði að fóstureyðingar væru nú orðnar „nokkuð margar“, eins og hann tók til orða. Það er ekki mikið sagt, þegar það liggur fyrir að fóstureyðingar hafa margfaldast frá því að núgildandi lög voru sett. Það fer eftir því hvað menn eru ánægðir með það ástand og þá þróun. Ef menn hafa lítið við þá þróun að athuga má kannske segja að þær séu „nokkuð margar“, en ef menn hafa mikið við þá þróun að athuga þykir mér þetta ekki nægilega sterkt kveðið að orði.

Hv. þm. varar við samanburði á fjölda fóstureyðinga eftir að lögin frá 1975 voru sett miðað við það sem var áður. Alltaf er varað við. Og hvers vegna? Áður en lögin 1975 voru sett voru framkvæmdar svo margar fóstureyðingar hjá íslenskum konum erlendis. Ég hef nú heyrt þetta. En hvernig stendur á því að menn eru að segja þetta ár eftir ár? Þó er vitað að þetta eru hreinustu ýkjur og staðleysur, að þetta hefur engin veruleg áhrif haft. Ég hef áður getið þess hér í umr., að samkv. heilbrigðisskýrslum Breta fyrir árið 1974 kemur fram að það hefur verið eytt fóstri fyrir 23 íslenskar konur á því ári. Og það er vitað að íslenskar konur fóru einkum til London í þessum tilgangi. Eru menn svo að segja að þetta hafi einhver afgerandi áhrif þegar fóstureyðingar eru komnar upp í 550 á ári? Ætli það sé ekki eitthvað um fóstureyðingar erlendis jafnvel eftir að lögin frá 1975 voru sett? Það segja mér kunnugir að muni vera. Ég segi ekki margar, en kannske áþekkar og áður, vegna þess að þó að þessi aðgerð, fóstureyðing, sé heimil á Íslandi er ekki víst að allar konur kæri sig um að láta framkvæma hana hér og þarf ekki að skýra það frekar.

Ég undrast að menn skuli hafa þá kokhreysti að halda því fram að það sé ekkert að marka þann samanburð sem gerður verður á fjölda fóstureyðinga eftir 1975 og fyrir 1975. Það er algerlega að skella skollaeyrunum við staðreyndum. Og að láta það út úr sér, eins og hv. 3. þm. Vesturl. gerði, að þessar tölur, sem liggja fyrir um fóstureyðingar, séu ekki raunveruleg aukning, eins og hann orðaði það, það getur ekki staðist. Ég veit að hv. 3. þm. Vesturl. athugar nánar þetta mál og þá hvarflar ekki að mér annað en hann vilji heldur hafa það sem sannara reynist.

Hv. þm. varar við því að fella niður félagslegar ástæður sem heimild fyrir fóstureyðingum. Það er einmitt um það sem ágreiningurinn stendur. Þeir sem vilja breyta um og vilja ekki sætta sig við það hörmulega ástand sem er í þessum málum gera sér grein fyrir að þetta hörmulega ástand, sem er í dag, og sú breyting, sem hefur orðið frá því að núgildandi lög voru sett, er eingöngu vegna þess ákvæðis laganna að heimila fóstureyðingar af félagslegum ástæðum. Ef mönnum er alvara um að gera eitthvað í þessu efni, hvers vegna á þá ekki að ráðast að vandanum þar sem hann er, að orsökunum fyrir vandanum, en það er einmitt það ákvæði laganna að heimila fóstureyðingar af félagslegum ástæðum?

Hv. 3. þm. Vesturl. var að tala um að það ætti að koma í veg fyrir lífmyndun og fóstureyðing væri ekki morð. Ég hef ekki notað það orð í þessu sambandi og ég veit ekki hvað kemur til að hv. þm. er að innleiða það hér. En til voru þó þau lög, að þegar barnaútburður var leyfður var hann löglegur því einungis að barnið hefði ekki neytt fæðu eftir fæðingu. En ef barnið hafði neytt fæðu, þá var útburður morð. Jafnvel í þá daga gat sá verknaður sem hér var um að ræða verið morð og varðað við lög sem morð. Ég skal ekkert fara frekar út í þetta mál, en það er kaldhæðnislegt að það skuli enn gilda sama regla og var samkv. Grágás, að það færi eftir því hvað líf væri langt fram gengið hvort um morð var að ræða eða ekki. Það verður að líta svo á að svo sé líka í dag, því að það fer eftir því hvað lífið er langt fram gengið hvort það er heimilt að tortíma því samkv. lögum eða ekki.

Hv. 3. þm. Vesturl. lagði mikla áherslu á að það þyrfti að kanna þessi mál og hann notaði þau orð, að það væri nokkuð glannalegt að breyta núgildandi lögum til þrengingar á heimild til fóstureyðinga nema málið væri kannað. Hvað er hægt lengi, þing eftir þing, að vera með tal um að það þurfi að kanna og tefja málið, jafnvel svo að það fái ekki þinglega afgreiðslu? Þó liggja fyrir allar helstu staðreyndir um þessi mál. Þær liggja fyrir í skýrslum, bæði hvað fóstureyðingar hafa verið margar, af hvaða orsökum þær hafa verið á hverju ári og líka hvernig framkvæmd laganna hefur verið. Ég lýsti því nokkuð hér fyrr í umr. og fullyrti það, sem ég geri nú, að fóstureyðingar á Íslandi væru í framkvæmd þannig að þær væru frjálsar eða nær frjálsar. Ég skýrði þetta nánar hér fyrr í umr. og skal ekki endurtaka það.

Hv. 3. þm. Vesturl. sagðist vita að ég væri mjög fús til að veita upplýsingar og ráð í þessu máli þegar til kasta heilbr.- og trn. kæmi, sem fær þetta mál til umfjöllunar og hann er formaður fyrir. Ég lít svo á, að formaður heilbr.- og trn. óski með þessum orðum eftir að ég fari að túlka málið fyrir n. Ég skal sannarlega gera það. Ég trúi því líka, að þessi mæti þm., hv. 3. þm. Vesturl., hafi þá víðsýni til að bera að hann muni taka til greina allar upplýsingar og ráð sem til bóta geta horft í því ófremdarástandi sem er í þessum málum og allir eru sammála um. Ég hef litið svo á, að þessi mæti þm., sem ég hef sérstaki traust á, hv. 3. þm. Vesturl., væri mér sammála um það. Ég vil því vænta þess, að svo fari að okkur takist öllum í sameiningu að afgreiða þetta mál svo að þessi hv. þd. h afi sóma af og svo að leitast sé við að bæta það hörmulega ástand sem við blasir í fóstureyðingarmálum.