09.02.1983
Neðri deild: 36. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1807 í B-deild Alþingistíðinda. (1570)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Húshitunarmál og upphitunarkostnaður hjá landsmönnum hafa oft verið til umr. hér á hv. Alþingi undanfarin misseri og ár og það ekki að ástæðulausu, og ég tel ekkert eftir mér að taka þau mál hér til umr. og standa fyrir svörum þar að lútandi, því að þessi mál eru mér hugleikin og það jafnt sem ráðh. og þm., því að ég tek alveg undir það með hv. 6. landsk. þm. að enginn er sá þáttur í okkar þjóðfélagi sem veldur meiri mismunun á kjörum manna en mismunandi kostnaður við þann undirstöðuþátt að hita upp híbýli sín. Það mætti kannske leiða líkur að því, að tilkostnaður við húsbyggingar og þær byrðar, sem á þá eru lagðar sem þurfa að koma þaki yfir höfuðið, nálgist það sem hér um ræðir, en málið er þó ekki hliðstætt.

Ég tel skylt að fara nokkrum orðum um þessi mál og upplýsa hv. alþm. um hvernig staða þeirra er og leitast við að svara því sem fram kom hjá hv. 6. landsk. þm. Til að sæmileg reiða sé á því yfirliti, sem ég flyt hér tel ég nauðsynlegt að lesa upp í fyrstu þann lagatexta sem hann vitnaði til, lög nr. 12 frá 1980, um orkujöfnunargjald, þannig að þar fari ekkert milli mála. Einnig held ég að þörf sé á að rifja upp annað sem þessu frv. fylgdi, með leyfi hæstv. forseta. Þetta er ekki mjög langur lagabálkur. Þar segir í 1. gr.:

„Leggja skal 11/2% orkujöfnunargjald á söluskattsstofn allra sömu aðila og lög nr. 10/1960 um söluskatt með síðari breytingum taka til. Gjaldið rennur óskipt til ríkissjóðs.

2. gr.: Ákvæði laga nr. 10/1960 um söluskatt með síðari breytingum og ákvæði reglugerða settra samkv. þeim lögum skulu gilda að fullu um álagningu, innheimtu og aðra framkvæmd orkujöfnunargjalds.

3. gr.: Lög þessi öðlast gildi frá og með 14. apríl 1980.“

Síðan eru ákvæði til bráðabirgða í fjórum tölusettum liðum, en þau varða fyrst og fremst tæknileg atriði við innheimtu gjaldsins og sé ég því ekki ástæðu til að lesa þau hér upp sérstaklega. Ég hygg að þessi lög hafi frá frv. litlum sem engum breytingum tekið, nema söluskattsprósenta var lækkuð um 1/2 prósentustig frá upphaflegu frv. En aths. með frv., sem flutt var hér á hv. Alþingi sem stjfrv. á þeim tíma, voru þessar:

„Sú geysilega hækkun olíuverðs sem átt hefur sér stað á undanförnum árum hefur víða valdið vanda og skapað mikla fjárhagserfiðleika. Við Íslendingar höfum brugðist við þessum vanda með átaki í orkumálum, m. a. með aukinni notkun innlendra orkugjafa til húshitunar. Þrátt fyrir það sem hefur áunnist í þessum efnum er enn alllangt í land með að allir landsmenn geti notað innlenda orku til húshitunar, og meðan svo er ber nauðsyn til að jafna þann aðstöðumun er af þessu leiðir.“ — Ég endurtek: „Þrátt fyrir það sem hefur áunnist í þessum efnum er enn alllangt í land með að allir landsmenn geti notað innienda orku til húshitunar, og meðan svo er ber nauðsyn til að jafna þann aðstöðumun er af þessu leiðir. Megintilgangur frv. þessa er að afla ríkissjóði fjár til að standa straum af kostnaði við greiðslu olíustyrks til húshitunar og til að styrkja orkusparandi aðgerðir. Skattur samkv. lögum þessum rennur óskiptur í ríkissjóð. Af þeim um 7000 millj. kr. sem ætla má að hann skili á árinu 1980 munu um 4500 millj. kr. ganga til framangreindra verkefna. Á árinu 1980 er gert ráð fyrir verulegum framlögum til Rafmagnsveitna ríkisins og til annarra verkefna á sviði orkumála. Hafa þessi útgjöld ásamt öðru átt þátt í að veikja stöðu ríkissjóðs verulega. Þykir ekki óeðlilegt að það sem eftir stendur af gjaldinu renni í ríkissjóð til að styrkja stöðu hans til mótvægis við fyrrgreind framlög til orkumála.“

Þannig var mál þetta fyrir þingið lagt, þannig voru lög þessi samþykkt. Hér er ekki, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, um að ræða markaðan tekjustofn einvörðungu til jöfnunar húshitunarkostnaðar og þá varðandi innlenda orku, eins og sjá má af því sem ég hér hef lesið, heldur um það að ræða að verið er að innheimta beint til ríkissjóðs ákveðna fjárhæð í formi viðbótarsöluskatts til þess m. a. að stuðla að jöfnun upphitunarkostnaðar og hraða því að koma innlendum orkugjöfum í gagnið í stað innfluttrar olíu, sem tekið hafði stórfelldum breytingum til hækkunar veturinn 1979–1980, eins og menn muna. Á þessum tíma var svonefndur olíustyrkur, sem enn er greiddur til þeirra sem kynda hús sín með olíu, sem fer sem betur fer verulega fækkandi og hefur farið það á undanförnum árum, hækkaður margfaldlega að raungildi, svo sem réttmætt og eðlilegt var.

En síðan þessi lög voru fest hér á hv. Alþingi og samþykkt hefur það gerst að ekki aðeins olíukostnaður er mjög hár, hefur þó sem betur fer ekki farið hækkandi í þeim mæli sem menn óttuðust um verðbreytingar á olíu að raungildi, heldur hefur það gerst að innlend orka, sem notuð er í vaxandi mæli til húshitunar, hefur reynst dýrari og vaxið að kostnaði langt umfram það sem menn höfðu vonast eftir að þyrfti að verða. Af þeim sökum hefur sú breyting orðið á, að ekki aðeins hefur verið talið óhjákvæmilegt að greiða niður hina innfluttu orku, olíuna, í formi olíustyrkja, heldur hafa stjórnvöld talið óumflýjanlegt að grípa einnig til jöfnunaraðgerða varðandi hina innlendu orku. Að þeim málum hefur verið unnið af stjórnvalda hálfu, svo sem ég tel sjálfsagt og skylt að víkja að hér á eftir.

En ég vil, til þess að koma að svari til hv. 6. landsk. þm. varðandi fjármunina sem í ríkissjóð renna af 1.5 söluskattsstigi, aðeins vísa til þess, sem þegar hefur fram komið í mínu máli, að hér er ekki um markaðan tekjustofn að ræða til jöfnunar á húshitunarkostnaði. Ég segi: Því miður var ekki þannig frá málum gengið, heldur er um að ræða að þessar tekjur renna í ríkissjóð og er skipt eins og öðrum tekjum ríkissjóðs til þarfa þjóðfélagsins með afgreiðslu fjárlaga. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hafðar eru uppi af hv. þm., sem sæti eiga í fjvn. og eiga að vita hvernig fjármagni er þar skipt, fsp. og rangtúlkanir um eðli þessarar tekjuöflunar ríkissjóðs. Ég man ekki betur en hv. 6. landsk. þm. eigi sæti í fjvn. Hann getur væntanlega svarað því með skýrari hætti en ég í hvað þeirri áætluðu tekjuöflun ríkissjóðs var á árinu 1983 varið í heild sinni, og inni í því dæmi er að finna það sem er umfram það sem sérstaklega er ráðstafað samkv. fjárlögum til jöfnunar húshitunarkostnaðar, bæði varðandi olíustyrki, styrki til jarðvarmaveitna svo og niðurgreiðslu vegna rafhitunarkostnaðar.

Þá ætla ég að víkja að því í örstuttu máli hvaða meginástæður eru fyrir því að hinn innlendi kostnaður orku til húshitunar hefur þróast með þeim hætti sem raun ber vitni og veldur því, að ef ekki væri um að ræða jöfnunaraðgerðir væri innlendi kostnaðurinn farinn að nálgast upphitunarkostnað með olíu mjög verulega. Ég vil þó, herra forseti, stytta mál mitt varðandi þennan þátt, vegna þess að í síðustu viku var þetta mál til sérstakrar umr. utan dagskrár og þar fór ég ítarlega út í þessa þætti. Umr. var þá hafin af hv. 5. þm. Vestf. um þróun raforkuverðs sérstaklega í landinu.

Það hefur sem sagt orðið á síðustu þremur árum, frá því að umrædd lög nr. 12/1980 voru samþykkt, að heildsöluverð frá aðalorkuframleiðslufyrirtæki landsins, Landsvirkjun, hefur hækkað frá ársbyrjun 1980 að telja um nálægt 800%, meira en tvöfalt umfram það sem byggingarvísitala og lánskjaravísitala hafa hækkað, með þeim afleiðingum að þeir sem kaupa þessa orku og dreifa henni til húshitunar þurfa að innheimta fyrir hana stórkostlega meira fjármagn að raunvirði en var fyrir þremur árum. Það er til að bregðast við þessum aðstæðum sem ákveðið var af ríkisstj. á s. l. vori að grípa einnig til niðurgreiðslu á hinni innlendu orku og þá sérstaklega rafhituninni, fyrir utan að bregðast við vanda þeirra jarðvarmaveitna sem við mesta örðugleika eiga að búa.

Sú stefna, sem lýst var yfir af mér við umr. um þessi mál í Ed. Alþingis í maíbyrjun s. l. og hafði að bakhjarli samþykkt ríkisstj. um þessi efni, var þess efnis, að stefnt verði að því samkv. áætlun sem gera skyldi að upphitunarkostnaður sambærilegs íbúðarhúsnæðis yrði yfirleitt ekki meiri en gerist hjá nýjum og hagkvæmum hitaveitum. Þar voru sérstaklega nefndar til Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar, sem tekin var í notkun að mig minnir á árinu 1981 eða hugsanlega var það 1982, og svo var einnig vísað til Hitaveitu Akureyrar í þessu efni. Að þessari áætlun, sem talað var um í yfirlýsingu ríkisstj. frá 5. maí s. l., var unnið og í ágústmánuði s. l. samþykkti ríkisstj. að hefja skyldi niðurgreiðslu á raforku til húshitunar frá og með 1. okt. 1982 að telja með framlagi úr ríkissjóði til bráðabirgða, en jafnframt skyldi skipuð nefnd í samráði við þingflokka til að fjalla um framtíðarfjáröflun til að jafna húshitunarkostnað. Þessa nefnd skipaði ég 30. sept. og í henni áttu sæti eftirtaldir heiðursmenn: Guðmundur Bjarnason alþm., Gunnar R. Pétursson rafvirki, búsettur á Patreksfirði ef ég man rétt, Þorv. Garðar Kristjánsson alþm. og Kjartan Ólafsson ritstjóri, og var sá síðast taldi formaður nefndarinnar.

Tillögur þessarar nefndar liggja nú fyrir, en hún skilaði áliti sínu 28. jan. s. l. Það var sent hv. alþm. í byrjun þessarar viku og vænti ég að allir hafi það handa á milli. Þar er að finna tillögur nefndarinnár um framtíðartekjuöflun til jöfnunar húshitunarkostnaðar ásamt fskj. sem nefndin byggir álit sitt á.

Ég tel rétt að fara hér nokkrum orðum um þetta álit, þannig að það komist örugglega á framfæri við hv. alþm. Þeir hafa mikið að lesa og álit nefndarinnar er ekki langt. Það skal aðeins vitnað hér til meginatriða, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin telur eðlilegt að raforkuverð til stóriðju verði hækkað verulega og að stjórnvöld beiti öllum tiltækum ráðum í því skyni og tryggi framgang þeirrar kröfu nú hið allra fyrsta. Nefndin leggur til að hluta þess fjármagns, sem þannig yrði aflað, verði varið til að tryggja lægra raforkuverð til húshitunar, þannig að kostnaður við rafhitun íbúðarhúsnæðis verði eigi hærri en sem nemur 60% af kyndingarkostnaði með óniðurgreiddri olíu. Til að ná því marki þarf um það bil 100 millj. kr. á ári miðað við verðlag í jan. 1983.

Nefndin telur að veruleg hækkun raforkuverðs til stóriðju sé æskilegasta leiðin í því skyni að tryggja fjármagn til jöfnunar húshitunarkostnaðar. Meðan ekki hefur náðst árangur í þeim efnum verður til bráðabirgða að grípa til annarra úrræða.

Nefndin minnir á lög nr. 12 frá 1980, um orkujöfnunargjald er nemur 1.5% á söluskattsstofn. Nefndin telur nauðsynlegt að vandlega verði athugaðir allir möguleikar á því að ríkissjóður greiði af núverandi tekjum sínum, þ. e. 106 millj. kr. á ári, sem hér er lagt til að gangi til jöfnunar á kostnaði við húshitun, meðan ekki hefur verið aflað tekna í þessu skyni með hækkun orkuverðs til stóriðju.

Reynist ekki unnt að tryggja þannig greiðslu úr ríkissjóði, þá leggur nefndin til að ríkissjóður greiði helming fjárins, þ. e. 53 millj. kr., yfir árið en jafnhárrar upphæðar verði aflað með sérstökum orkuskatti. Orkuskatturinn verði lagður á alla notorku. Undanþegin orkuskatti verði þó orka til fiskiskipa og sú raforka sem nú er verðjöfnunargjaldsskyld. Upphæð orkuskattsins verði sem svarar 0.75 aurar á kwst. miðað við verðlag í janúar 1983.

Nefndin bendir á þann möguleika, að í stað orkuskatts verði söluskattur hækkaður og samsvarandi fjárupphæðar aflað með þeim hætti í sama tilgangi. Verði sú leið valin þyrfti söluskattur að hækka um tæplega 0.3 prósentustig. Gert er ráð fyrir að öll skattheimta í þessu skyni og sérstakar greiðslur ríkissjóðs falli niður þegar framtíðarfjáröflun hefur verið tryggð með hækkun orkuverðs til stóriðju.“

Þetta voru nokkrar orðréttar tilvitnanir í þetta nál. Þess ber að geta, að nefndin er sammála um þetta álit, en hv. alþm. Þorv. Garðar Kristjánsson hefur þó fyrirvara um vissa þætti nál. varðandi tekjuöflun og ráðstöfun tekna af orkusölu til stóriðju. Er hans fyrirvara að finna í því áliti sem allir hv. alþm. hafa fengið.

Þetta taldi ég rétt að fram kæmi hér. Hér var um að ræða nefnd með tengslum við alla þingflokka til að fjalla um þetta þýðingarmikla efni. Tillögur þessarar nefndar, nýkomnar í mínar hendur, eru nú til athugunar hjá ríkisstj. og um þessi efni verður áfram haft samráð við þingflokka til þess að leita lausnar á þeim brýna vanda sem hér er við að fást og ég geri ekkert minna úr en hv. 6. landsk. þm. og þekki mætavel af eigin raun og frá því fólki sem ég er umbjóðandi fyrir sem alþm. af Austurlandi. Þeir landshlutar, sem þessi hái upphitunarkostnaður bitnar meira á en nokkrum öðrum, þótt enginn sé þar alveg undanskilinn nema kannske Faxaflóasvæðið, eru Austurland og Vestfirðir. En margir fleiri koma inn í þá mynd vissulega.

Ég vil rifja það aðeins hér upp, vegna þess að hv. 6. landsk. þm. talaði svo mjög um lög nr. 12 frá 1980, að áður en frv. til þeirra laga var flutt hér inn á Alþingi hafði á vegum iðnrn. verið lögð í það mikil vinna að undirbúa lög um orkuskatt til tekjuöflunar til jöfnunar húshitunarkostnaðar. Eins og þeirri vinnu var háttað var gert ráð fyrir að slíkur orkuskattur yrði markaður tekjustofn í þessu skyni. Minnihlutastjórn Alþfl., sem sat á stólum veturinn 1979/1980 um fimm mánaða skeið, hafði unnið að undirbúningi sama máls, og hæstv. þáv. iðnrh. Bragi Sigurjónsson flutti hér inn í þingið frv. um orkuskatt, þar sem gert var ráð fyrir skattlagningu sem einnig tæki til stóriðju í landinu. Athuganir mála af minni hálfu og iðnrn. í framhaldi af þessu í ársbyrjun 1980 lutu að því hinu sama. En það er skemmst frá því að segja, að um þetta frv., um sérstakan orkuskatt til tekjuöflunar í þessu skyni, varð ekki samkomulag í núverandi ríkisstj., og því var það mót mínu ráði að farið var í almenna tekjuöflun með viðbótarhækkun á söluskatti. Ég ætla hér ekki að fara að rifja upp á hverju strandaði eða á hverjum strandaði í ríkisstj. við undirbúning málsins, en minni á að gert var þarna ráð fyrir að þessi orkuskattur legðist á alla orku, einnig hitaveitur í landinu eins og þær legðu sig, svo og olíu og einnig olíu til fiskiskipa. Það var alls ekki við það komandi af hálfu aðila sem hlut áttu að máli að þessi orkuskattsleið yrði fyrir valinu. Því varð þessi almenna söluskattshækkun til tekjuöflunar í ríkissjóð að niðurstöðu, og liggur fyrir í þingtíðindum frá þessum tíma hvernig þeirri afgreiðslu máls var háttað.

Ég tel rétt að geta þess í sambandi við jöfnun húshitunarkostnaðar, að það hefur ekki aðeins verið litið til rafhitunarinnar, sem orðin er óbærilega dýr fyrir þá sem hana þurfa að nota, heldur einnig til þeirra hitaveitna í landinu sem við erfiðastar aðstæður búa og hafa lent í miklum fjárhagslegum erfiðleikum af tæknilegum ástæðum, ekki síst við vatnsöflun. Þar er um að ræða hitaveitur í þremur landshlutum, sem inn í það mál koma, á Vestfjörðum, á Norðurlandi og á Austurlandi, fyrirtæki eins og Hitaveitu Suðureyrar, eins og Hitaveitu Siglufjarðar, eins og Hitaveitu Fella og Egilsstaða, svo að dæmi séu tekin af slíkum veitum, sem sumar hverjar eru með óbærilega háa gjaldskrá og það af illri nauðsyn. Ég hef alveg nýlega staðfest reglugerð, sem undirbúin var af sérstökum starfshópi sem með málefni þessara hitaveitna fór, — reglugerð, sem brátt mun birtast í Stjórnartíðindum, sem kveður á um og rýmkar möguleika slíkra veitna til þess að fá styrk vegna fjármagnskostnaðar, eins konar stofnkostnaðarstyrk til þess að létta þeirra erfiða dæmi.

En það er rétt að það komi einnig fram varðandi niðurgreiðsluna á rafhitun, að nú þegar eða frá 1. okt. s. l. hafa komið til framkvæmda þrír áfangar í niðurgreiðslu raforku og fram undan er fjórði áfanginn, væntanlega tengdur næstu gjaldskrárákvörðun, sem taka mun gildi 1. maí n. k. Niðurgreiðslan á raforkunni nemur nú 17 aurum á hverja kwst., en það sem innheimt er af notendum — og þetta eru tölur sem varða Rafmagnsveitur ríkisins, þær eru svipaðar hjá öðrum veitum, kannske aðeins lægri hjá sumum sem selja raforku til húshitunar í einhverjum mæli, — eru 58 aurar. Heildarverðlagningin er þá 75 aurar á kwst. til upphitunar samkv. taxta C-1 og niðurgreiðsluhlutfallið nemur 23%. Hluttallið miðað við olíukyndingarkostnað miðað við óniðurgreidda olíu er núna — Herra forseti. Ég veit ekki hvort hv. alþm. hafa áhuga á að hlýða á mál mitt. (Forseti: Ég bið hv. þdm. að gefa hljóð.) — 23% af heildarkostnaði og kostnaðurinn við rafhitun samkv. gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins er nú 62% af óniðurgreiddri olíu, 62% af olíukyndingarkostnaði, en ráðgert er að hann verði færður niður í 60% við næstu gjaldskrárákvörðun. Til samanburðar er þess að geta, að hjá Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar er þetta hlutfall nú 55%, en hjá Hitaveitu Akureyrar, en þessar tvær veitur voru teknar sérstaklega til viðmiðunar í samþykkt ríkisstj. í maíbyrjun s. l., er hlutfallið 59% eða mjög nálægt þeim 60% sem gert er ráð fyrir að raforkukostnaðurinn verði frá 1. maí n. k. að telja.

Vegna þeirrar umr. sem verið hefur um tilkostnaðinn við upphitun, sem hv. 6. landsk. þm. vék að áðan og taldi að næmi um helmingnum af dagvinnulaunum verkamanns á mánuði og væntanlega þá á ári á heildina litið, og ýmsar tölur hafa verið nefndar í blöðum um þessi efni, þá tel ég nauðsynlegt að fram komi hér þær upplýsingar, sem ég veit réttastar í þessu efni, sem Orkustofnun hefur reiknað út varðandi upphitunarkostnað á meðalibúð, 400 rúmmetra íbúð, eftir síðustu gjaldskrárbreytingu 1. febr. s. l. Þá er miðað við sómasamlega einangrað húsnæði, þar sem olíunotkun, ef um hana væri að ræða, væri 13 lítrar á rúmmetra á ári — sagt eftir minni — sem er sá staðall sem eðlilegt er talið að miða við. Þá er kostnaðurinn sá sem hér greinir, og ég hef flokkað hann í fjóra þætti: í olíuhitunarkostnað, í rafhitunarkostnað, í kostnað hjá nýrri hitaveitu eða nýlegri, eins og á Akureyri, og hjá rótgróinni hitaveitu, eins og hér í Reykjavík, nálægt afskrifaðri hitaveitu:

Olíuhitunin niðurgreidd samkv. þessu væri á ári 28 450 kr. eða 2 371 kr. á mánuði, en án niðurgreiðslu 37 410 á ári eða 3 118 kr. á mánuði. Rafhitun — þar er miðað við taxta Rafmagnsveitna ríkisins, taxta C-1, — væri niðurgreidd 23 021 kr. á ári eða 1918 kr. á mánuði. Án niðurgreiðslu, eins og nú er, væri kostnaður við rafhitun 28 773 á ári eða 2 394 á mánuði. Hjá nýrri hitaveitu, og þar er það Hitaveita Akureyrar sem miðað er við, er þessi kostnaður 22 144 á ári eða 1845 kr. á mánuði. Og hjá rótgróinni hitaveitu, hitaveitu eins og Hitaveitu Reykjavíkur, þar sem kostnaðurinn er um 14% af olíukyndingarkostnaði, væri kostnaðurinn á ári 5 231 kr. eða 436 kr. á mánuði. Á milli þessara rótgrónu veitna, sem meiri hluti landsmanna, hér á Faxaflóasvæðinu sérstaklega, býr við, annars vegar og hins vegar þeirra sem búa við gjaldskrár nýrra hitaveitna eða við rafhitun, þótt niðurgreidd sé, svo ekki sé minnst á olíuhitun, er þessi munur óhóflega mikill, svo vægt sé til orða tekið, stórfelldur eða meira en fjórfaldur miðað við núverandi aðstæður og þær viðmiðanir sem hér eru viðhafðar við þennan samanburð, sem taka mið af meðalstórri sómasamlega einangraðri íbúð. Samkv. þessu er sem sagt verðmunurinn hjá nýjum hitaveitum með háa gjaldskrá og rafhitun nálægt 1000 kr. á ári eða raunar innan við 100 kr. á mánuði, en verðmunur á þessum veitufyrirtækjum, hvort sem um er að ræða jarðvarma eða raforku þessara veitna, og aftur ódýrustu hitaveitnanna er meira en fjórfaldur.

Nú veit ég að auðvelt er að benda á dæmi sem víkja verulega frá þessum meðaltalsaðstæðum af ýmsum ástæðum; vegna mjög mismunandi varmanotkunar hjá fólki, menn kjósa að hafa mismunandi hita á sér í híbýlum sínum og það leiðir til mismunandi útkomu á orkureikningnum, en ekki síður hins, að húsnæðið er mjög mismunandi úr garði gert og allt of mikið af íbúðarhúsnæði í landinu er vaneinangrað, er vanbúið, heldur illa hita og notkunin verður því til muna meiri en svarar til þeirra staðalaðstæðna sem vitnað er til og eðlilegt er að miða við. En einnig varðandi þetta hafa stjórnvöld reynt að bregðast við með fjáröflun og lánveitingum til að auðvelda orkusparandi aðgerðir á húsnæði. Það voru tekin upp frá árinu 1981 að telja svokölluð orkusparandi lán til breytinga á húsnæði, til einangrunar íbúðarhúsnæðis, og er það sérstakur lánaflokkur sem um er að ræða. Mig minnir að á árinu 1981 hafi verið úthlutað 190 slíkum lánum. Á árinu 1982 var úthlutað 104 slíkum lánum að upphæð samtals 5.4 millj. kr. En Húsnæðisstofnun hafði meira til umráða en þessa upphæð. Hún hafði reiknað með 7 millj. kr. í þessu skyni, en eftirspurnin eftir þessum lánum var ekki meiri en svo að hægt var að fullnægja eftirspurninni og ekki var ráðstafað öllu fjármagninu sem til ráðstöfunar var. Á yfirstandandi ári gerir Húsnæðisstofnun ráð fyrir að hafa til umráða 8 millj. kr. í þennan lánaflokk til orkusparandi aðgerða. Og svo ákveðið sem ég mæli með því að áfram verði unnið að því að jafna orkukostnað í landinu, þá hlýt ég að hvetja mjög eindregið til þess að menn leiti leiða, hver og einn sem býr við hinn háa orkukostnað, og það mega reyndar allir taka til sín, og reyni að bæta stöðu sína með því að ganga betur frá híbýlum sínum og hagnýta sér lán sem í boði eru í þessu skyni. Þau lán þarf að gera aðgengilegri en nú er. Það er mikil spurning hvort það er ekki þjóðhagslega skynsamlegt að taka upp beina styrki í því skyni að menn geti gengið betur frá húsnæði sínu til að lækka orkureikninginn og þar með upphitunarkostnað þjóðarheildinni til hagsbóta.

Herra forseti. Ég taldi nauðsynlegt, vegna þess að þessi mál koma hér til umr. utan dagskrár enn einu sinni, og er ég þó síður en svo að átelja að hv. alþm. hafi áhuga á að ræða þennan mikla vanda, að draga upp mynd af þessari stöðu og rekja þær tillögur sem nefnd fjögurra valinkunnra manna með tengsl við alla þingflokka hefur skilað af sér í sambandi við tekjuöflun til jöfnunar húshitunarkostnaðar til frambúðar. Megináhersla þessarar nefndar er að hækkað verði raforkuverð til stóriðju í landinu til þess að þannig sé hægt í senn að lækka gjaldskrár veitufyrirtækja sem selja raforku í smásölu þannig að hægt sé að lækka þeirra gjaldskrár og þannig að ekki þurfi að koma til þeirra gífurlegu verðhækkana sem Landsvirkjun telur að sínu mati nauðsynlegt að velta yfir á almenningsveitur í landinu áframhaldandi og nema samkv. áætlun stjórnar Landsvirkjunar á þessu ári 126%. Áform eru um að hækka gjaldskrá Landsvirkjunar samkv. hennar áætlun og raunar fremur vægum verðbólguforsendum miðað við núverandi horfur, sem þar eru lagðar til grundvallar, sem þessu nemur.

Ég tel mikinn feng að því að álit þessarar nefndar um tekjuöflun liggur fyrir, og ég tel mikla nauðsyn á því, að ekki verði látið við það mark sitja, sem horfur eru nú á að náist með niðurgreiðslu raforku 1. maí n. k., að munurinn verði ekki meiri en 60% miðað við olíukyndingarkostnað, heldur leiti menn áframhaldandi leiða til að draga úr þessu mikla misrétti, sem fólgið er í geysilega ólíkum tilkostnaði við upphitun, sem er milli fjórfaldur og fimmfaldur þar sem tilkostnaðurinn er lægstur og þar sem hann er hæstur, og finnast þó dæmi um að hann sé ennþá meiri þar sem húsnæði er vanbúið til þess að halda hita innan veggja.

Herra forseti. Ég læt máli mínu lokið um þetta.