09.02.1983
Neðri deild: 36. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1814 í B-deild Alþingistíðinda. (1572)

Umræður utan dagskrár

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Hv. 6. landsk. þm. hefur vakið máls hér á verðjöfnun á hitakostnaði húsa hér á landi og óskað eftir svörum frá hæstv. iðnrh. við ákveðnum spurningum. Hæstv. iðnrh. fór yfir þetta mál mjög ítarlega, en þó skortir enn nokkuð á að fullnægjandi svör hafi fengist. Ég vil þó, áður en ég vík að jöfnun húshitunarkostnaðar almennt, segja örfá orð um það sem fram kom hjá hv. 6. landsk. þm. og kemur reyndar oft fram í ræðum manna hér á Alþingi, en það er misvægi í búsetuskilyrðum.

Ég dreg ekkert úr þeim mikla mun sem er á hitunarkostnaði eftir landshlutum. Um það hefur ekki verið ágreiningur hér á hv. Alþingi að þennan mun ætti að jafna, að einhverju marki a. m. k. En mér finnst oft á tíðum í ræðum manna að menn geri of mikið úr því sem menn kalla misvægi í búsetuskilyrðum og einblíni þá á ákveðna afmarkaða hluti, og þá einkum húshitunarkostnaðinn. Sannleikurinn er sá, að þetta mál er alls ekki svona einfalt. Þó að hægt sé að benda á svo mikinn mun á kostnaði við upphitun húsa, þá er jafnframt hægt að benda á ýmiss konar annan mun á búsetuskilyrðum hér í landi, sem er þéttbýlissvæðinu í óhag en menn taka ekki tillit til. Ég held að það sé t. d. alveg ljóst að húsnæðiskostnaður er miklum mun meiri hér á Reykjavíkursvæðinu en á mörgum öðrum stöðum úti um land. Bæði á það við um verð á húseignum, jafnvel um byggingarkostnað og ég tala ekki um húsaleigu. Samgöngukostnaður innan sveitarfélags er og miklu meiri hér á Reykjavíkursvæðinu heldur en víða innan sveitarfélaga annars staðar.

Þetta bendi ég á til þess að undirstrika að það er nauðsynlegt að taka mun fleiri þætti inn í þetta mál þegar verið er að vega og meta búsetuskilyrði í hinum einstöku landshlutum. Með þessum orðum vil ég þó ekki draga úr því að sá munur, sem verið hefur á húshitunarkostnaði, er of mikill og það hefur ekki verið ágreiningur um það hér á hv. þingi að um hann ætti að fjalla sérstaklega og hann ætti að jafna. Og það var einkum með tilliti til þess að menn vildu að stigin yrðu röskleg skref í átt til jöfnunar, að lögin um orkujöfnunargjald voru samþykkt hér á Alþingi 10. apríl 1980. Þessi lög rifjaði hæstv. ráðh. upp og las texta þeirra og ég skal ekki gera það hér. Hann vitnaði jafnframt til grg. og vildi með því sanna að í raun hefði Alþingi ekki verið að taka ákvörðun um tekjuöflun til orkujöfnunar nema að litlu leyti. Þessum skilningi hæstv. ráðh. vil ég alfarið mótmæla.

Ég minnist vel þessara umr. hér á hv. Alþingi árið 1980 og umr. í þingflokki sjálfstæðismanna t. d.

Þá var skýrt tekið fram að nú ætti að stíga stór skref í átt til orkujöfnunar. Nafnið á þessu gjaldi, orkujöfnunargjald, það eitt út af fyrir sig bendir til þess hver var tilgangur með því, hvert þessi sérstaki skattur, þetta 11/2% af söluskattsstofni ætti að ganga. En ríkisstj. hefur farið aðrar leiðir. Hæstv. ríkisstj. með hæstv. iðnrh. og hæstv. fjmrh. í broddi fylkingar hefur brugðist trausti og trúnaði Alþingis í þessu efni með því að taka þær tekjur sem ætlaðar voru til þessara nota til annarra alls óskyldra hluta.

Með því að lesa grg. má sjá að það var að vísu ætlunin, a. m. k. á þessu fyrsta ári, að einhver hluti gjaldsins gæti orðið afgangs. Þess er getið eftir að rakið hefur verið í grg. að ríkissjóður hafi lagt í ýmis útgjöld vegna rafmagns- og orkumála og þessi útgjöld hafi átt þátt í að veikja stöðu ríkissjóðs verulega. En síðar segir: „Þykir ekki óeðlilegt að það sem eftir stendur af gjaldinu renni í ríkissjóð til að styrkja stöðu hans til mótvægis við fyrrgreind framlög til orkumála.“ Þarna er látið að því liggja að um einhvern óverulegan afgang sé að ræða, það sem eftir standi af þessu gjaldi. Reynslan hefur hins vegar orðið sú, að þetta gjald hefur í vaxandi mæli farið til almennrar eyðslu hjá ríkissjóði. Á árinu 1982 var þetta gjald 190 millj. kr. Samkv. sérstakri grg., sem fjmrn. hefur látið frá sér fara og birtist sem fskj. með því nál. sem hæstv. ráðh. vitnar til, má með miklum sparðatíningi sýna fram á að til þessara nota hafi farið 58–59 millj. kr. af þessum 190 millj. kr. Annar hluti þessa gjalds hefur farið til almennrar eyðslu hjá ríkissjóði.

Nýjustu útreikningar benda til þess að á árinu 1983 muni tekjur af orkujöfnunargjaldinu nema 315 millj. kr. Hv. 6. landsk. þm. spurði hæstv. iðnrh. að því áðan, þegar hann hóf máls hér í upphafi fundar, hvert þessir peningar mundu ganga. Hæstv. iðnrh. svaraði því ekki. Hann svaraði með almennum orðum, hann reyndi að afsaka sig með því að vitna í grg., taldi að það væri í lagi að taka þetta gjald til annarra nota, en sundurliðað hvert þetta gjald ætti að renna það gat hann ekki upplýst. Það er líka skiljanlegt vegna þess að hæstv. iðnrh., hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstj. hafa ákveðið að þetta sérstaka gjald, orkujöfnunargjald, gjald til þess að jafna orkukostnað í landinu, skuli renna til annarra hluta og það mikilvæga verkefni, sem hv. Alþingi sameinaðist um að leysa á vordögum 1980, skuli lagt til hliðar að miklu leyti. Það er alveg nauðsynlegt að menn átti sig á því að hér er um það að ræða að hæstv. iðnrh. og hæstv. ríkisstj. hefur sýnt þessu máli lítinn áhuga, hefur sýnt því lítinn áhuga að koma til móts við það fólk víðs vegar um landið sem nú býr við óheyrilegan orku- eða upphitunarkostnað. Það er hins vegar reynt að vefja þetta mál inn í alls konar umbúðir, drepa því á dreif og kenna allt öðrum hlutum um heldur en áhugaleysi hæstv. ríkisstj. Þar bendi ég fyrst á að nú er verið að tengja þetta orkuverði til stóriðju. Í því nál. sem hér liggur fyrir er talið að aðalatriði þessa máls, aðalatriðið til að jafna upphitunarkostnað á landinu, sé að hækka orkuverð til stóriðju. Auðvitað er hér verið að blanda saman óskyldum hlutum, sennilega að yfirlögðu ráði, sem lið í því áróðursstríði sem hæstv. iðnrh. er að setja á svið hér hvað eftir annað til að fela m. a. dugleysi sitt í því að ná fram eðlilegum samningum um hækkað orkuverð til stóriðju.

Sannleikurinn er sá, að ef menn ætla sér að taka þessa stefnu, taka að einhverju eða miklu leyti hækkað orkuverð til stóriðju til þess að greiða niður raforkuverð víðs vegar um landið, þá verða menn auðvitað að taka mið af kostnaði Landsvirkjunar og fjárhag Landsvirkjunar. Menn vita það að Landsvirkjun er rekin með halla. Landsvirkjun stendur líka frammi fyrir stórfelldum nýjum virkjunarframkvæmdum. Fyrirtækið sjálft hefur áhuga á að geta fjármagnað þær með eigin fjármagni allt að 20%, m. a. til þess að lækka framtíðarrafmagnsverð á landinu. Allt þetta verður að taka með inn í þetta dæmi, en ekki að stilla upp svona einfaldri mynd eins og hæstv. iðnrh. er að leitast við að gera.

Látið er að því liggja að það sé hækkun á heildsölugjaldskrá Landsvirkjunar, sem sé fyrst og fremst og nær eingöngu orsökin þegar rætt er um hækkað raforkuverð í landinu. Auðvitað er það ekki nema hluti af skýringunni þó að reynt sé að fela það. Hæstv. ráðh. veit vafalaust eins og ég að útgjöld t. d. Rafmagnsveitna ríkisins eru ekki nema að hluta vegna orkukaupa. Sennilega eru um 50% af útgjöldum Rafmagnsveitna ríkisins vegna orkukaupa. Önnur 50% eru vegna annars kostnaðar, launakostnaðar, efniskaupa og annars þess háttar. Rafmagnsveitur ríkisins hafa vissulega þurft á hækkunum að halda vegna þess hluta af sínum útgjöldum. Rafmagnsveitur ríkisins og aðrar rafmagnsveitur í landinu hafa verið sveltar árum saman varðandi hækkanir og hafa þurft að stofna til skulda í mjög ríkum mæli, skulda sem þarf að greiða. Það er því óleyfilegt með öllu að ætla sér í áróðursskyni að láta að því liggja, að meginástæða þess að upphitunarkostnaður í landinu sé svo ójafn sé verðið til stóriðju.

Ég vil sérstaklega benda á að einn nm., fulltrúi þingflokks sjálfstæðismanna í nefndinni, hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, hafði fyrirvara bæði um þetta atriði og önnur í nál. Hann segir í sínum fyrirvara með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðagerðin um ráðstöfun á hluta af auknum tekjum Landsvirkjunar af orkusölu til stóriðju er nú hvorki tímabær né raunhæf, enda koma þær tekjur í góðar þarfir engu að síður, og raunar mest um vert að láta einskis ófreistað til að ná hækkun raforkuverðsins til Íslenska álfélagsins.“

Það er líka vert að huga að því hverjar eru aðrar tillögur og hugmyndir þessarar nefndar, sem starfaði undir forustu Kjartans Ólafssonar, eins af forustumönnum Alþb. Það er lagt til sem eins konar varatillaga að leggja á sérstakan orkuskatt, þó ekki á olíu til fiskiskipa né til verðjöfnunargjalds skyldra rafveitna. Slíkur orkuskattur, ef hann yrði lagður á, mundi hækka hitaveitugjald hér í Reykjavík um 5%, þá gjaldskrá sem reynt er nú að halda niðri með öllum tiltækum ráðum. Ég vil strax taka af öll tvímæli um það, að ég er algerlega andvígur þeirri till. sem hér er lögð fram um sérstakan orkuskatt. Ég vil að það komi strax fram að ég tel það fráleitt að leggja sérstakan skatt á hitaveiturnar í landinu í þessu skyni, sem mundi eins og ég sagði hækka hitaveituverðið um 5% hér í Reykjavík. Um þetta atriði hafði líka sterkan fyrirvara Þorv. Garðar Kristjánsson. Hann sagði í sínum fyrirvara: „Það er lagaskylda að ráðstafað sé fjármagni, sem aflað er með orkujöfnunargjaldi, samkv. lögum nr. 12 frá 1980 eftir því sem með þarf til jöfnunar hitakostnaðar. Þess vegna er hvorki rétt né nauðsynlegt að leggja nýja skatta á til að mæta þessum þörfum, hvort heldur er orkuskattur eða söluskattur.“ Nefndin bendir einnig á það eða meiri hluti hennar, að það eigi að setja á sérstakan söluskatt eða hækka söluskattinn og nefnir 0.3% hækkun í þessu sambandi.

Hæstv. ríkisstj. verður að horfast í augu við þá staðreynd, að hún leitaði eftir samþykki hér á hv. Alþingi á vordögum 1980 til þess að afla fjár til að jafna upphitunarkostnað í landinu. Þm. allra flokka féllust á þessi tilmæli ríkisstj. og samstaða varð hér á hv. Alþingi um að hækka söluskattinn þannig, að lagt var á 11/2% nýtt söluskattsstig. Það eru hrein svik af hæstv. ríkisstj. að hafa tekið þennan tekjustofn til annarra nota og vera nú að leggja á ráðin um nýja sérstaka skatta í þessu skyni. Og þó að hæstv. iðnrh. leitist við hér í ræðustól að vefja það inn í einhverjar umbúðir með því að vitna bæði í lögin sjálf og grg. með þeim, þá fer það ekki milli mála að hæstv. ríkisstj. hefur brugðist trausti Alþingis í þessu efni.

Þá má kannske láta sér það í léttu rúmi liggja að hæstv. ríkisstj. bregðist trausti Alþingis. Við erum vanir því hér á Alþingi að hæstv. ríkisstj. geri það. Alvarlegast í þessu er þó það, að hæstv. ríkisstj. hefur brugðist trausti þess fólks, sem treysti á það og vonaðist eftir því, þegar þessi sérstaki skattur var lagður á allan almenning, að með því væri verið að stíga stórt skref í átt til að jafna upphitunarkostnað í landinu. Fólk treysti á það. Fólk greiðir í aukaskatt 315 millj. kr. á þessu ári í trausti þess að þetta fé verði notað til þessara hluta, en hæstv. ríkisstj. hefur þegar tekið ákvörðun um að gera það ekki. Það er alveg út í hött að hæstv. iðnrh. sé að kenna fjvn. um það eða einstökum fjvn.-mönnum að þessi skattur skuli hafa farið í annað. Það eru tillögur hæstv. iðnrh., það eru till. hæstv. fjmrh., sem þar er verið að framkvæma. Meiri hl. fjvn. hér á Alþingi lýtur í þessu efni vilja hæstv. ríkisstj. Hér er því verið með einstökum hætti að hlaupast undan verkefni sem Alþingi fól hæstv. ríkisstj. Hæstv. ríkisstj. á ekki nema eina leið út úr þessu máli. Hún á ekki nema eina leið til að jafna húshitunarkostnað á Íslandi. Sú leið er að nýta það fjármagn sem Alþingi samþykkti að veita henni í þessu skyni. Allt annað er að bregðast trausti bæði þings og þjóðar.