09.02.1983
Neðri deild: 36. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (1583)

Um þingsköp

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ekki rengi ég það að hv. þm. Alexander Stefánsson haldi dagbók. En sú dagbók hefur ekkert sönnunargildi um það sem á milli okkar hefur farið. Það er staðreynd að ég hef verið tilbúinn að flytja framsöguræðu um útvarpsrekstrarmálið. Það hefur ekki staðið á mér í því sambandi. Ég get nefnt það til viðbótar að þetta er endurflutt mál og ég þyrfti ekki annað en að flytja sömu framsöguræðuna og ég flutti í fyrra. Hér í þingsal hefur vantað einn af flokksbræðrum Alexanders Stefánssonar, sjálfan hæstv. menntmrh. Það hefur verið meginástæðan fyrir því að ekki hefur verið hægt að ræða þetta mál. Þetta mál er brýnt og ástæðan fyrir því að ég hef vakið máls á því á nýjan leik er eingöngu sú, að frv. hæstv. menntmrh., sem hann lét sjálfur útbúa fyrir sig hjá útvarpslaganefnd undir forustu Markúsar Á. Einarssonar, hefur ekki séð dagsins ljós í sölum Alþingis. Það liggur í skrifborðsskúffu ráðh. Og ég skal viðurkenna að hann er ekki mikilvirkasti þm. Framsfl.

Ég biðst hins vegar afsökunar á því að hafa ekki vitað um að hv. þm. Alexander Stefánsson fór til forseta og tjáði honum að honum væri sama þótt viðhorf framsóknarmanna kæmust ekki til skila í þessum umr. um orkujöfnunargjaldið fyrr en seinna í dag. Ég vissi ekki um það. Ég vissi hins vegar að hv. þm. hafði beðið um orðið. Mér rann eiginlega blóðið til skyldunnar, því að við erum ágætir félagar úr hv. fjvn., að segja það við hæstv. forseta, sem ég átti erindi við, að mér þætti ósanngjarnt að svona væri komið fram við hv. þm. Alexander Stefánsson. — [Fundarhlé.]