10.02.1983
Efri deild: 41. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1835 í B-deild Alþingistíðinda. (1590)

159. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Frsm. 2. minni hl. (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að afgreiða þetta frv. vegna þess að flotinn bíður eftir því að svo verði gert — eða kannske öllu heldur olíufélögin sem selja skipunum olíu. En ég er andvígur þessu frv., þeirri leið sem hér er farin. Ef þetta frv. verður samþykkt, þá er verið að sigla á fullri ferð inn í frumskóg nýs sjóðakerfis, sem var á sínum tíma mjög illræmt og sjómenn bundust samtökum um að brjóta niður. Ég tel að þessi leið komi til með að boða mikla ógæfu. Ekki liður á löngu þar til sjómannasamtökin munu enn á ný viðhafa svipaðar eða sömu aðgerðir og þau beittu 1976, að ég hygg, þar sem þess var krafist að sjóðakerfið yrði afnumið.

Það versta við þetta er það, að það er verið að fara fram hjá skiptum, það er verið að breyta skiptaprósentunni í raun. Það er verið með nýrri leið að ræna fjármunum af sjómönnum, að gera hlut þeirra minni. Þetta er feluleikur sem sjómenn bæði skilja og finna á afkomu sinni og mun það koma fram á næstunni.

Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um þetta að sinni. Ég lýsi mig andvígan þessari leið, þessu frv. af þeim ástæðum að með þessu er verið að fara aftan að sjómönnum, skerða kjör þeirra, brjóta eða ógilda gerða samninga, samninga sem gerðir eru af frjálsum mönnum — að við skyldum ætla í frjálsu landi.