10.02.1983
Sameinað þing: 50. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1843 í B-deild Alþingistíðinda. (1603)

131. mál, heimilisfræði í grunnskólum

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka neitt af því sem hv. flm. þessarar ágætu till. sagði hér áðan. En ég get ekki stillt mig um að nota þetta tækifæri, þegar kennslumál ber á góma hér á hinu háa Alþingi, til að benda á að það er málaflokkur sem óneitanlega tekur ekki upp mikinn tíma hv. alþm. Hv. þm. eru öðru hverju að bera fram till. um ýmsar úrbætur í kennslumálum og er ekki nema gott um það að segja. Hins vegar hefur engin skólamálastefna verið mótuð í landinu og þess vegna eru svona till. því miður sjaldan nema pappírinn einn, þó þær séu vel meintar og skynsamlegar á allan hátt, vegna þess að fyrst af öllu kostar náttúrlega peninga að framkvæma þessar till. og það kostar skipulagningu sem ekki er heldur gert ráð fyrir. Ég vil taka aðeins nokkur dæmi um það sem mér finnst vera mikið alvörumál að verða í íslenskum skólamálum.

Menn virðast ekki, hvorki í Háskóla Íslands svo við byrjum á toppnum, né hér á hinu háa Alþingi, vita lengur hvað Háskólinn á að gera. Við sem erum orðin það gömul að við lærðum eftir gömlu kerfi höfðum þá hugmynd að háskóli sé „akademía“ fyrst af öllu, þar sem kennarar hafa rannsóknarskyldu, þar sem eru stunduð vísindi. Nú þarf ekki annað en duglegan þrýstihóp til að troða sér upp á Háskólann með starfsþjálfun og stofna nýja deild. Við skulum spyrja sjálfa okkur hvar það endar. Ef við vitum ekki lengur hvað á að gera við Háskóla Íslands þá held ég að ástæða væri til að reyna að komast að því. Ég skal ekki draga dul á það að ég er hér að tala um hjúkrunarfræðideild og félagsráðgjafadeild við Háskóla Íslands. Ég veit að það eru afskaplega margir mér ósammála um að þessar deildir eigi ekki þar að vera. En ég hlýt að spyrja: Hverjir eiga þá ekki að vera þar? Af hverju eiga ekki fóstrur að læra í háskóla? Af hverju eiga ekki læknaritarar að læra í háskóla? (Gripið fram í: Slökkviliðsmenn?) Og t. d. slökkviliðsmenn og hver annar. Ég er ekki, enginn skyldi misskilja það, að hafa neitt á móti því að fólk sé vel menntað. En það er ekki sjálfgefið að allir þurfi að ganga í háskóla. Menntaskólarnir virðast meira og minna, svo ég haldi áfram niður eftir, á reiki með hvert er í raun og veru hlutverk þeirra. Ég get ekki að því gert að mér finnst hálfskrýtið að menn geti fengið punkt til stúdentsprófs ef þeir eru lagnir í ljósmyndun. Það má vel vera að ég sé bara gamaldags, en ég vil a. m. k. fá að ræða þessi mál, t. d. hér á hinu háa Alþingi.

Í grg. þáltill. um eflingu heimilisfræði er talað um eina og hálfa stund í viku á skólaári milli 8. og 9. bekkjar. Það er ekkert við það að athuga. Málið er bara það, að við erum ekki búin að koma okkur saman um hvort öll börn eiga að vera skólaskyld út 8. bekk eða út 9. bekk. Í stuttu máli, heildarstefnumörkun skólamála er öll gersamlega úf og suður. Við erum núna að líta á hugsanlegt frv. um fullorðinsfræðslu. Á sama tíma eru önnur rn. að undirbúa sína fullorðinsfræðslu. Allt er þetta einhvern veginn samhengislaust og óljóst. Fjármögnun til allra mögulegra og ómögulegra hluta er varla finnanleg í ríkisreikningi vegna þess að hún heyrir undir hin og þessi rn. Það sem ég er hér að reyna að segja er einfaldlega það, að það vantar að marka stefnu í fræðslu- og kennslumálum þjóðarinnar. Ég er ekki að segja þetta til þess að hafa á móti þáltill. hv. þm. Salome Þorkelsdóttur, síður en svo. Ég tel hérna hið ágætasta mál á ferðinni og vil eindregið styðja það á allan hátt.En ég óttast að jafnvel þó við samþykkjum þessa till. verði æði erfitt að koma henni í framkvæmd vegna þess að slíku skipulagi er næstum ógerlegt að koma á nema með töluverðu fjármagni, sem ég hef ekki séð mikil merki um að sé áhugamál fræðsluyfirvalda. En við skulum reyna og ég held að þessi þáltill. sé vissulega til bóta. En ég vildi gjarnan sjá einhverjar stefnumarkandi tillögur frá þeim yfirvöldum sem eiga að fara með fræðslu- og kennslumál í landinu.