10.02.1983
Sameinað þing: 50. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (1605)

113. mál, nýting aukaafurða í fiskiðnaði

Flm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Á þskj. 116 flytur allstór hópur þm. Framsóknarflokksins till. til þál. um skipan nefndar til að gera úttekt og tillögur um nýtingu aukaafurða í fiskiðnaði. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að skipa þriggja manna nefnd sérfróðra manna til að gera úttekt og tillögur um hvernig hægt sé á fljótvirkastan hátt að stórauka og fullnýta aukaafurðir í fiskiðnaði hér á landi.

Nefndin geri m. a. tillögur um tæknibúnað og tæki um borð í íslenskum veiðiskipum svo og nauðsynlegar breytingar á fiskverkunarstöðvum í landi til að ná þessu markmiði, ennfremur tillögur um nýjar vinnslustöðvar ef með þarf, til dæmis í lífefnaiðnaði.

Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Fiskifélag Íslands skulu vera nefndinni til ráðuneytis.

Nefndin skal hraða störfum og skila álitsgerð og tillögum um verkefnið ásamt framkvæmda- og kostnaðaráætlun til ríkisstj.

Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Flestir gera sér ljóst að óvarlegt mun vera að reikna með mikilli aukningu á fiskafla hér við land í næstu framtíð. Margir fiskistofnar munu nálægt því að vera fullnýttir. Það fer því ekki milli mála að vinna þarf markvisst að því að gera þann afla sem veiðist verðmeiri, auka þannig verðmætasköpun í fiskiðnaði sem hlýtur að byggjast á betri meðferð og fullvinnslu þess sem veiðist.

Fiskiðnaður er mikilvægur og er dæmigerður aukaafurðaiðnaður. sem dæmi má nefna að við framleiðslu fiskflaka falla u. þ. b. 60% af þunga fisksins undir skilgreininguna aukaafurðir og við rækjuvinnslu 75% eða meira.

Nokkur hluti þessara aukaafurða er nú nýttur, t. d. í dýrafóður eða í mjöl- og lýsisvinnslu. Stór hluti er þó meðhöndlaður sem úrgangur, kastað í sjó eða ónýttur á annan hátt. Það er alkunn staðreynd, að miklu magni af innyflum og úrgangsfiski er hent árlega. Talið er að innyfli séu um 15% af heildarþyngd t. d. þorsks og ufsa.

Togari sem kemur að landi með 150 tonna afla úr veiðiferð hefur fengið um 180 til 190 tonn af fiski upp úr sjó. Hefur því 30 til 40 tonnum verið kastað fyrir borð sem innyflum og úrgangsfiski úr einni veiðiferð.

Á síðari árum hefur aflamagn bolfisks hér á landi verið um 600 þús. tonn. Innyflin, þ. e. slóg og lifur, hafa þá verið um 90 þús. tonn, þar af lifur 40% eða um 36 þús. tonn. Hér er verðmætum fyrir tugmilljónir króna kastað á glæ á ári hverju, en ljóst er að hægt er að nýta þetta hráefni og skapa þannig aukna atvinnu og auknar útflutningstekjur fyrir þjóðarbúið. Þetta þarf að skipuleggja frá grunni og hagnýta alla þá tækniþekkingu sem fyrir hendi er til að ná þessu markmiði.

Sem betur fer hafa Rannsóknastofa Fiskifélags Íslands og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins unnið mikið og gott starf á þessu sviði á undanförnum árum. Er því þegar fyrir hendi mikil þekking og niðurstöður rannsókna, og hlýtur það að auðvelda ákvörðun um skipulegar framkvæmdir til að auka fullnýtingu í fiskiðnaði hér á landi.

Í lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna er sérstakur kafli um Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Í 26. gr. þessara laga stendur svo um verkefni Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, með leyfi forseta:

„1. Rannsóknir á hráefnum og framleiðslu fiskiðnaðarins til þess að tryggja fyllstu nýtingu hráefnanna og gæði afurðanna. 2. Aðstoð og leiðbeiningar við fiskiðnaðinn við undirbúning og byggingu fiskiðjuvera og val véla og tækja til fiskiðnaðar. 3. Kynning á nýjungum í fiskiðnaði, tækjum og vinnsluaðferðum og prófun á gagnsemi þeirra. 4. Nauðsynleg rannsóknaþjónusta við fiskiðnaðinn.“

Að sjálfsögðu er öllum ljós þýðing þessara laga fyrir rannsóknir í þágu atvinnuveganna og þar hefur verið unnið og er unnið mikið og þýðingarmikið verk fyrir þjóðarbúið í heild, en áherslu vantar á að þessar rannsóknir séu nýttar á þann hátt að það sé farið eftir því með framkvæmdir.

Ýmislegt hefur verið nefnt í sambandi við fullnýtingu aukaafurða sem æskilegur valkostur, auk mjölvinnslu og lýsisbræðslu á hefðbundinn hátt, svo sem meltuvinnsla úr innyflum sem talið er að hægt sé að koma við um borð í veiðiskipum og án mikils tilkostnaðar við fiskvinnslustöðvar í landi, fjölbreyttari framleiðsla úr lifur og hrognum og síðast en ekki síst lífefnaiðnaður, lyfjaframleiðsla, en talið er að hagkvæmt sé m. a. að vinna úr innyflum fiska, hvala og sláturdýra lyf, lyfjahráefni, hormóna og lífhvata.

Á síðasta þingi var samþykkt þáltill. frá þm. Framsfl. um innlendan lífefnaiðnað, á þskj. 219, sem hljóðaði þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir því, að komið verði á fót öflugum innlendum lífefnaiðnaði. Í því sambandi beiti ríkisstj. sér fyrir eftirfarandi atriðum:

1. Með markvissri rannsóknaáætlun verði leitað svara við því, hvaða lyf, lyfjahráefni, hormóna og lífhvata geti verið hagkvæmt að vinna úr innyflum fiska, hvala og sláturdýra sem til falla hérlendis.

2. Framleiðsla þeirra lyfja, lyfjahráefna, hormóna og lífhvata, sem rannsóknir sýna að hagkvæm sé, verði hafin jafnóðum og niðurstöður liggja fyrir.“

Alþingi afgreiddi till. þannig samkv. brtt. atvmn.: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að kanna hvort hagkvæmt sé að koma á fót inniendum lífefnaiðnaði.“

Í grg. með þessari þáltill. framsóknarmanna var m. a. eftirfarandi rökstuðningur: „Á Íslandi fellur til mikið magn innyfla úr fiskum, hvölum og sláturdýrum, sem landsmönnum verður að nánast engum verðmætum. Hráefni þetta er verðmætt í lyfjaiðnaði, þ. e. við framleiðslu lyfja, lyfjahráefna og lífhvata. Lífefnaiðnaður er ört vaxandi víða um heim, og má í því sambandi sérstaklega benda á framleiðslu lífhvata til notkunar í iðnaði. Nýlegar kannanir benda til að framleiðsla lífhvata muni aukast um 8% á ári fram til 1985 í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum. Þetta er á sama tíma og samdráttur virðist vera í mörgum efnaiðnaði í heiminum.

Íslendingar ættu að geta átt mikla möguleika á þessu sviði. Þeir eru fiskframleiðendur á heimsmælikvarða. Innyfli þorsks, svo dæmi séu nefnd, nema um 15% af heildarþunga fisksins. Hráefnið fellur því til hér í miklum mæli. Lífefnaiðnaður er léttur sérhæfður iðnaður, sem nýtir innlent hráefni og sérmenntaða starfskrafta. Íslendingar ættu því að geta verið vel samkeppnisfærir í þessum iðnaði.

Ljóst er af þeim rannsóknum, sem þegar hafa farið fram, að Íslendingar ættu að geta haslað sér völl á sviði lífefnaiðnaðar.

Nauðsynlegt er að gera markvissa rannsóknaáætlun og vinna að framgangi málsins með föstum, ákveðnum skrefum.

Í okkar þjóðlífi er nú mikið rætt um orkufrekan iðnað. Verulegum fjármunum er varið í hagkvæmniathuganir á ýmsum kostum stóriðju. Hér er í flestum tilvikum um að ræða iðnað þar sem hráefni er flutt til landsins og fullunna varan út.

Mikil nauðsyn er að auka framleiðslu landsmanna með orkufrekum iðnaði. En við megum ekki láta okkur sjást yfir nærtæka möguleika eins og lífefnaiðnað úr innlendu hráefni. Innyflum fiska og sláturdýra er að mestu hent.

Þessi verðlitlu hráefni eru grundvöllur að öflugum lífefnaiðnaði.

Það sem vantar er stefnumörkun á þessu sviði og markviss vinnubrögð, þá mun árangurinn ekki láta á sér standa.“

Flm. leyfa sér að vona að ríkisstj. taki þessi mál föstum tökum um leið og harma verður að Alþingi skyldi ekki veita þessu máli ítarlegri umfjöllun á síðasta þingi, þar sem um er að ræða stórmál til verðmætasköpunar og til að treysta atvinnugrundvöll þjóðarinnar. Þessi þáltill., sem hér er talað fyrir, er tilraun til að fá fram samræmdar aðgerðir, hefjast handa um að auka verðmætasköpun í fiskiðnaði, sem hlýtur að skapa ný atvinnutækifæri, auka umsvif og treysta grundvöll okkar aðalútflutningsframleiðslu, okkar stóriðju, sjávarútvegsins.

Í 2. tbl. tímaritsins „Sjávarfrétta“ birtist athyglisverð grein eftir Svein Jónsson verkfræðing sem ber yfirskriftina: „Nýtt átak í athugunum á nýtingu aukaafurða í fiskiðnaði.“

Sveinn Jónsson verkfræðingur hefur gefið leyfi til að láta grein þessa fylgja með þessari grg. til fróðleiks. Kunna flm. honum bestu þakkir fyrir. En í þessari grein segir Sveinn Jónsson m. a.:

„Við framleiðslu fiskflaka falla t. d. um það bil 60% af þunga fisksins undir skilgreininguna aukaafurðir. Nokkur hluti þessara aukaafurða er nýttur og þá helst í dýrafóður. Allt of mikið er þó meðhöndlað sem úrgangur, sem annaðhvort er kastað í sjóinn eða er ónýttur á annan hátt.,

Ástæðan fyrir þessu liggur að nokkru leyti í eðli og skipulagi fiskveiðanna. Þær eru árstíðabundnar þannig að mannafli og tækjabúnaður annar aðeins því verðmesta úr aflanum, fiskimjölsverksmiðjur eru ekki alltaf á þeim stað, þar sem fiskaðgerð fer fram, og svo mætti lengi telja.

Nú er svo komið, að varla þarf að reikna með auknum fiskafla hér við land, svo að aukin verðmætasköpun í fiskiðnaði hlýtur því fyrst og fremst að byggjast á betri meðferð og nýtingu þess sem aflað er. Auk verðmætasköpunar eru það oft umhverfissjónarmið, sem leiða til þess að farið er að huga að nýtingu úrgangsefna. Það er því miður fremur fátítt hér á landi enn sem komið er. Rétt er þó að hafa í huga, að mengunarvaldur reynist oft vera verðmæti á röngum stað.“

Um nýtingu innyfla segir Sveinn Jónsson m. a.: „Mikið hefur verið unnið að bættri nýtingu slógs hér á landi allt frá stofnun Rannsóknastofu Fiskifélags Íslands og síðar Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Er nú svo komið að ýmsar leiðir eru færar í þessu sambandi og töluverður hluti innyflanna er nú nýttur sem heild í mjöl- og lýsisvinnslu með öðru bræðsluhráefni eða í meltuvinnslu sem skepnufóður. Einnig eru einstök líffæri, svo sem lifur og hrogn, skilin frá og þau nýtt sérstaklega. Allt of stór hluti innyflanna er þó enn ónýttur af ástæðum sem drepið hefur verið á hér að framan.

Auk meltuvinnslu, sem unnið hefur verið að á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins í allmörg ár, er nú verið að vinna að athugunum á frekari nýtingu einstakra innyflalíffæra. Slíkar hugmyndir eða athuganir eru ekkert nýjar af nálinni, en hafa að mestu leyti legið niðri undanfarin ár. Í ljósi nýrrar þekkingar og breyttra aðstæðna er nú talið rétt að huga frekar að þessum þætti.“

Síðan telur Sveinn upp í þessari grein sinni, sem er hér prentuð með sem fskj., ýmsar greinar um þessi atriði. Hann talar hér um lifrarvinnsluna og sýnir fram á hvernig mætti nýta hana miklu betur en þegar er gert og auka þannig stórkostlega verðmætasköpun úr lifur. Hann talar einnig hér um nýtingu hrogna til manneldis og telur að miklu meira megi gera af því að nýta hrognin á ýmsu þroskastigi, sem ekki eru nýtt til manneldis og eru þess vegna ekki hirt. Hann bendir á þá reynslu, sem Norðmenn hafa þegar fengið og nýtt sér í sambandi við rannsóknir á nýtingu van- og ofþroskaðra hrogna, sem eru í Noregi núna nýtt sem byrjunarfóður fyrir lax- og silungsseiði. Þetta er mjög viðamikið mál og hefur mikið að segja fyrir okkur hér á landi, sem leggjum aukna áherslu á einmitt þennan þátt í sambandi við lax- og silungsuppeldi. Hann bendir einnig á vinnslu svilja og galls úr fiski, sem liggja miklir möguleikar í að nýta til ýmiss konar efnaiðnaðar. Hann bendir á rækjuúrganginn, en eins og hér hefur komið fram áður falla til um 75% af þunga rækjunnar sem aukaafurð sem er hent eins og hér hefur komið fram áður.

Hann bendir einnig hér á atriði, sem er rétt aðeins að staldra við, og það er um smáfisk til manneldis: „Oft heyrist sagt, að illa sé farið með fisk, sem unninn er í mjöl og lýsi til skepnufóðurs, í stað þess að nota hann til manneldis. Þó er ekkert athugavert við slíka vinnslu á meðan aðrar vinnsluaðferðir eða markaður er ekki fyrir hendi, sem gerir það mögulegt að nýta allan þennan fisk í mannamat. Það er þó ekki eðlilegt að líta á mjölvinnslu úr smáfiski, t. d. loðnu, spærlingi og kolmunna, sem endanlegt takmark, heldur leita annarra aðferða, sem gera það kleift að vinna þetta hráefni á arðvænlegri hátt, bæði næringarlega og fjárhagslega. Slík vinna fer stöðugt fram og má þar sem dæmi nefna smáfiskþurrkun hérlendis, marningsvinnslu Færeyinga úr kolmunna og svokallaðan „Ole-prosess“ Norðmanna. Þessi síðastnefnda vinnsluaðferð byggir á því að skilja fitu, roð, bein og búkhimnur frá fiskvöðvanum á lífefnafræðilegan hátt og ná síðan fiskvöðvanum frá með fleytingu. Þetta er gert með því að bita fiskinn niður, setja hann í bað með ákveðnu sýru- og hitastigi, sem eru kjörskilyrði bindivefsniðurbrjótandi ensíma í fiskinum. Með þessu móti losnar fiskurinn í sundur, eins og áður sagði, án þess að fiskvöðvinn skemmist. Þessi aðferð hefur gefist vel í smáum stíl, en einhverjum erfiðleikum hefur verið háð að vélvæða vinnsluna.“

Það er ástæða fyrir okkur Íslendinga að gefa þessum atriðum gaum. Eins og allir hv. alþm. vita er það talið mjög mikilvægt hjá okkur núna að gera raunhæfar tilraunir til veiða á kolmunna og er sú tilraun þegar hafin á myndarlegan hátt og hefur gefist nokkuð vel, en þessi nýja aðferð, sem Sveinn Jónsson bendir á, er einmitt framhald þessa máls og gæti leitt til þess að hér væri um enn þá arðvænlegri aðferð til fiskveiða að ræða en þegar hefur komið fram.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að vitna í fleira úr þessari gagnmerku grein Sveins Jónssonar, en ég vil endurtaka að hér er, að mínu mati og okkar flm., um merkilegt mál að ræða, sem þarf að gefa gaum og hlýtur að varða miklu fyrir okkur, sem erum vissulega fiskveiðiþjóð. Því verður ekki mótmælt að fiskveiðar og fiskvinnsla eru undirstaða þessa þjóðfélags og verða svo um langa framtíð. Þess vegna er ákaflega mikilvægt, að álit sé gert sem hægt er og í mannlegu valdi stendur til þess að auka fullnýtingu fiskafurða og auka þannig gildi fiskveiða og fiskvinnslu og útflutningsverðmæti þjóðarinnar í heild.

Að lokinni þessari umr., herra forseti, legg ég til að þessari þáltill. verði vísað til hv. atvmn.