11.02.1983
Neðri deild: 37. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1852 í B-deild Alþingistíðinda. (1611)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Brbl. hæstv. ríkisstj. frá s. l. hausti hafa orðið mönnum tilefni til þess að setja fram ýmsar spaklegar kenningar um starfshætti Alþingis, einkum og sér í lagi um ábyrgð og ábyrgðartilfinningu stjórnar og stjórnarandstöðu. Sem kunnugt er hafa ráðherrar í hæstv. ríkisstj. marglýst því yfir að þeir beri enga ábyrgð á óförum núv. ríkisstj., enga ábyrgð á óförum stjórnarstefnunnar, enga ábyrgð á því hversu hörmulega er komið í íslensku þjóðfélagi. Þeir vísa þeirri ábyrgð af sér á aðra. Það er allt öðrum að kenna. Það er ekki höfð uppi málsvörn fyrir því til hvers stjórnarstefnan hefur leitt. Það er enginn ágreiningur um hvernig komið er. Það er í stórum dráttum ágreiningslítið eða ágreiningslaust. En þegar spurt er, hvers vegna er svona komið, hverjar eru orsakir þess ástands sem orðið er, þá er hin frumlega kenning stjórnarherranna sú, að þetta sé öllum öðrum að kenna en þeim. Þetta er utanaðkomandi áföllum að kenna. Þetta er heimskreppa. Þetta er aflabrestur. Og það er stundum jafnvel haft á orði: Það er einna helst stjórnarandstöðunni að kenna.

Það er mikill partur þessa máls, þ. e. kenningin um ábyrgð stjórnarandstöðunnar. Ábyrgð stjórnarandstöðunnar er ekki, að því er manni skilst, sú að fylgja fram stefnu sinni. Ábyrgð stjórnarandstöðunnar er ekki í því fólgin að veita ríkisstj. gagnrýnið aðhald. Ábyrgð stjórnarandstöðu er ekki í því fólgin að setja fram stefnu í stað stjórnarstefnunnar. Nei, samkv. þessum kenningum er ábyrgð stjórnarandstöðunnar fyrst og fremst í því fólgin að sjá til þess undir öllum kringumstæðum að sú stefna, sem hún er andvíg í öllum grundvallaratriðum, nái fram að ganga á Alþingi. Það er lýst ábyrgð á hendur stjórnarandstöðunnar ef hún sér ekki um að framlengja líf ríkisstj. sem hún er fyrir löngu búin að kveða upp dauðadóm yfir, sem hún telur algerlega gagnslausa, sem er reyndar ágreiningslaust við ráðherrana sjálfa, nú þegar þeir hnakkrífast innbyrðis og hver höndin er upp á móti annarri, hefur ekki einu sinni þingstyrk til þess að koma fram málum sínum, ekki heldur neina málefnalega samstöðu um eitt né neitt, enda mun það koma berlega fram á næstu dögum. Ráðh. munu þá ekki aðeins kenna um heimskreppu og aflabresti. Þeir eru að byrja að kenna hver öðrum um hvernig komið er.

Að því er brbl. varðar er það meginkenning stjórnarliða að stjórnarandstaðan muni ekki fá risið undir þeirri ábyrgð sem lýst er á hendur henni ef þessi brbl. verði felld. Hver eru rökin fyrir því? Hvað er svona gífurlega mikið í húfi? Við skulum rifja upp rökstuðninginn fyrir þessu.

Í dagblaðinu Tímanum 23. nóv. á s. l. ári er vitnað í rökstuðning hæstv. viðskrh. fyrir þessari kenningu. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Hann (viðskrh.) minnti á að áður en samkomulag náðist um efnahagsaðgerðir í ágúst s. l. hafi því verið spáð að verðbólga stefndi í 70–80% á miðju næsta ári. Ef þær verða framkvæmdar (þ. e. ef efnahagsaðgerðirnar, brbl., verða framkvæmdar) mundi verðbólga á næsta ári verða um 40–50% og stefna niður á við, ef ekki verða óhöpp í ytri og innri aðstæðum efnahagsmála.“

Frekari rökstuðningur er sá, að ef þessi brbl. ná ekki fram að ganga muni verðbólga á næstu sex mánuðum rjúka upp í 70–75%, en öllum mönnum eigi að vera ljóst að atvinnuöryggi þjóðarinnar, atvinnurekstur landsmanna, mundi gersamlega sligast undir slíkum kostnaðarhækkunum, og er það ágreiningslaust.

Þetta er nú kjarni málsins og rökstuðningurinn. Því er haldið fram af höfundum brbl., að ef þau ná ekki fram að ganga muni verðbólgan á Íslandi rjúka upp í 70%, en um leið er því skilmerkilega haldið fram, að ef þessi brbl. komist í framkvæmd væru áhrif þeirra slík að verðbólgan yrði ekki nema á bilinu 40–45% og mundi stefna niður á við. Þetta er rökstuðningurinn. Ábyrgð stjórnarandstöðunnar er að sjálfsögðu þá í því fólgin, að ef þeir felldu brbl. mundi verðbólgan fara að nálgast 70–75%. Ef brbl. kæmu til framkvæmda, næðu fram að ganga, yrði hægt að halda verðbólgustiginu í 40–45% og verðbólgan færi lækkandi. Um þetta snýst málið. Eru þessar staðhæfingar sannar? Er þessi rökstuðningur réttur?

Nú vill svo til að við þurfum ekki um þetta að deila af þeirri einföldu ástæðu að brbl. eru komin til framkvæmda. Þau eru að vísu sett með sjálfteknu löggjafarvaldi framkvæmdavaldsins, þau hafa að vísu aldrei verið samþykkt á Alþingi, en þau hafa tekið gildi og við þurfum ekkert að deila um hvaða áhrif þau hafa haft. Við þurfum ekkert að spyrja höfundana um hvaða áætlanir þeir gerðu, hver voru þeirra yfirlýstu markmið, hverju þeir gerðu ráð fyrir. Dómur reynslunnar hefur verið kveðinn upp. Hann liggur alveg skýrt fyrir og þarf ekkert um að ræða.

Næsta vísitölutímabil rennur upp 1. mars. Nú liggur fyrir að hækkun framfærsluvísitölunnar þá, miðað við verðlag í byrjun febr., verður um 15%. Hækkun kaupgjaldsvísitölu eða verðbætur á laun verða eitthvað lægri vegna frádráttarliða. En hækkun framfærsluvísitölu á þriggja mánaða tímabili um 15% þýðir að verðbólguhraði á ársgrundvelli, eins og hagspekingar kalla það, er 75%, verðbólgan er 75%. Þetta er svarið við spurningunni: Er það rétt, sem höfundar brbl. héldu fram, að þau mundu valda slíku viðnámi gegn verðbólgu ef kæmust þau til framkvæmda óáreitt af andstöðu stjórnarandstöðunnar að þeim mundi takast að halda verðbólgunni niðri í 40–45%, ella yrðu afleiðingarnar 70–75% verðbólga? Svarið er einfalt: Brbl. eru komin til framkvæmda að öllu leyti og dómur reynslunnar er kveðinn upp. Verðbólgan er 75% þrátt fyrir brbl.

M. ö. o.: röksemdafærsla höfunda brbl. fyrir nauðsyn þeirra, skírskotun þeirra til ábyrgðartilfinningar stjórnarandstöðu um hverjar afleiðingarnar yrðu ef svo hrapallega tækist til að lögin næðu ekki fram að ganga, — allt hefur þetta reynst staðlausir stafir, haldlaus rök með öllu.

Um þetta þarf ekki að deila við einn né neinn. Það vill svo til að þetta er ágreiningslaust hvort heldur við leitum umsagnar sérfróðra aðila eða jafnvel ráðh. sjálfra. Við skulum t. d. heyra hvað bankastjórn Seðlabankans hefur að segja um árangur efnahagsaðgerða ríkisstj. því að þá erum við fyrst og fremst að ræða um þessi brbl. og það sem í þeim fólst. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þær ráðstafanir, sem gerðar voru á síðasta ári til að ráða bót á vaxandi þjóðhagslegum halla, komu ekki nógu tímanlega til að hafa veruleg áhrif á þjóðarútgjöld á árinu, en auk þess ríkti á köflum óvissuástand, á meðan beðið var eftir ákvörðunum í efnahagsmálum. Niðurstaðan virðist í aðalatriðum hafa orðið sú, að þjóðarútgjöld og innflutningur vöru og þjónustu hafi hvort tveggja haldist svo til óbreytt frá árinu á undan, þrátt fyrir mikla lækkun þjóðartekna og útflutnings. Minnkandi tekjur þjóðarbúsins og birgðasöfnun komu því með fullum þunga fram í auknum viðskiptahalla við útlönd, sem virðist samkv. bráðabirgðatölum hafa farið upp í um 11% af þjóðarframleiðslu á árinu. Leiddi þessi mikli viðskiptahalli til þess, að hlutfall erlendra skulda til langs tíma af þjóðarframleiðslu jókst úr rúmum 37% í nálægt 47.5% á árinu, en jafnframt lækkaði nettógjaldeyriseign bankanna um helming. Er hér um afar viðsjárverða þróun að ræða fyrir efnahagslegt öryggi þjóðarinnar, ekki síst þegar litið er til óvissu og erfiðleika á erlendum lánamörkuðum.“

Þetta er kjarninn í umsögn Seðlabankans um árangurinn af efnahagsaðgerðum ríkisstj.

Hvað hefur bankastjórn Seðlabankans að segja um árangur stjórnarherranna í viðnámi þeirra við verðbólgu, sem brbl. gáfu fyrirheit um? Það er hægt að draga saman með þessum hætti, með leyfi forseta, tilvitnunin er þessi og ég vitna beint í yfirlit Seðlabankans um stöðu efnahagsmála frá 1. febr. s. l.:

„En þrátt fyrir áhrif þeirrar ráðstöfunar [þ. e. skerðingar vísitölu kaupgjalds 1. des. s. l.] átti gengisþróunin mikinn þátt í því að auka verðbólguna úr rúmum 40% í byrjun ársins og yfir í 60% í árslok. Engar ráðstafanir hafa enn verið gerðar til þess að eyða verðbólguáhrifum þeirrar gengisbreytingar, sem ákveðin var í byrjun þessa mánaðar, enda stefnir verðbólgan að öllu óbreyttu í 70% þegar á allra næstu mánuðum.“

Þetta er dómur seðlabankans um yfirlýst markmið höfunda brbl. um að halda verðbólgu niðri í 40–45% og miða að því að hún fari síðan lækkandi á þessu ári.

Þetta þarf út af fyrir sig ekki að koma neinum á óvart. Ágreiningur stjórnar og stjórnarandstöðu er ekki um það, hversu komið er íslenskum þjóðarbúskap. Það er hægt að leiða fram mörg vitni úr hópi stjórnarliða sjálfra, sem draga upp hrikalega mynd af ástandinu. Ágreiningurinn er ekki um það. Ágreiningurinn var frá upphafi um fullyrðingar stjórnarliða um að áhrifamáttur brbl. væri slíkur sem þeir héldu fram. Stjórnarandstæðingar voru frá upphafi ekki trúaðir á það. Við héldum því fram, að þessi brbl. væru gagnslaus, þau væru haldtaus og þau mundu ekki ná settu markmiði. Það væri verið að biðja fólk um að færa fórnir, en til einskis. Nú þurfum við ekkert að deila um þetta vegna þess að dómur reynslunnar liggur fyrir. Við höfðum á réttu að standa þegar við sögum á s. l. hausti að þessi brbl. væru gagnslaus, að þau væru haldlaus, að þau munu engum árangri skila í að halda aftur af verðbólgu eða yfirleitt að ná nemum þeim settum markmiðum sem yfir var lýst.

Í grg. eða öllu heldur í yfirlýsingu sem fylgdi með brbl. ríkisstj., þar sem upp voru talin í 21 punkti ýmis fróm pólitísk loforð um fylgifrv. eða hliðarráðstafanir, sagði svo um markmiðið með brbl. Það eru talin fjögur meginmarkmið:

1. Brbl. áttu að draga úr viðskiptahalla á þessu ári og hinu næsta.

2. Brbl. áttu með dularfullum hætti að auka framleiðni og framleiðslugetu þjóðarbúsins og tryggja næga atvinnu.

3. Brbl., en aðalinntak þeirra var skerðing verðbóta á laun, áttu að verja lægstu launin sérstaklega.

4. Brbl. áttu að veita viðnám gegn verðbólgu, halda henni í skefjum og koma í veg fyrir að hún ryki upp úr öllu valdi.

Þetta voru hin yfirlýstu markmið. Nú þarf ekki að hafa mörg orð um það, að engu af þessum yfirlýstu markmiðum var náð, ekki einu einasta. Og það gat hver maður sagt sér fyrir, sem skoðaði inntak brbl., með hvaða aðferðum átti að ná þessum yfirlýstu markmiðum. Með því að fella gengið. Með því að láta gengið síga eftir þörfum frá degi til dags. Með því að nema úr gildi það vísitölukerfi sem einn stjórnarflokkanna hefur fyrir sið kvölds og morgna að segja að sé seinasta brjóstvörn launþegans. Og síðan með því að hækka skatta, með því að hækka vörugjaldið. Þessar þrenns konar ráðstafanir, að fella gengi krónunnar, að færa nokkur hundruð millj. kr. úr launaumslögum í tóma sjóði atvinnurekenda og hækka vörugjald og ná þannig inn nýjum tekjum í ríkissjóð, sem síðan átti að nota að örlitlum hluta til ölmusubóta til launþega í staðinn, voru aðferðirnar sem áttu að duga til að ná yfirlýstum markmiðum, að draga úr viðskiptahalla, að auka framleiðslu og framleiðni, að verja lægstu laun og veita viðnám gegn verðbólgu. Allt er þetta einn samfelldur blekkingavefur og reynslan liggur þegar ljóst fyrir.

Með þessum brbl. hefur ekki verið dregið úr viðskiptahalla. Viðskiptahallinn er hrikalegur. Hann verður hrikalegur líka á næsta ári, ef að líkum lætur. Meginástæðan fyrir þessum hrikalega viðskiptahalla er sú, að stjórnarflokkarnir voru í allt s. l. sumar ófærir um að ná samkomulagi um til hvaða efnahagsráðstafana þeir gætu gripið. Alveg frá því að þingi var slitið á s. l. ári og fram á haust gátu stjórnarflokkarnir ekki komið sér saman um að viðurkenna þá staðreynd að gengi íslensku krónunnar var kolvitlaust, rangt skráð, með þeim afleiðingum að útflutningsatvinnuvegir bjuggu við linnulausa skuldasöfnun og hallarekstur, sem ekki gat staðið nema skamma hríð. Gengislækkunin var dregin mánuðum saman vegna ágreinings milli stjórnarflokkanna. Til hvers leiddi það? Það leiddi til þess, að gjaldeyrir þjóðarinnar var á útsölu allt sumarið. Aðgerðarleysi stjórnarflokkanna leiddi til allsherjarneyslukapphlaups, vegna þess að allir vissu að hverju var stefnt, og til innflutningsæðis. Táknmynd þess er það Íslandsmet í bílainnflutningi sem sett var á s. l. ári á sama tíma og stjórnarherrarnir töluðu um minnkandi aflabrögð, jafnvel versnandi viðskiptakjör, minnkandi útflutningstekjur og rýrnandi kaupmátt. Viðskiptahallinn er þess vegna bein afleiðing af aðgerðaleysi ríkisstj., sígilt dæmi um að ríkisstj. brást við of seint og aðgerðirnar voru of litlar til þess að ná nokkru af þeim yfirlýstu markmiðum sem um var að ræða.

Að halda því fram í alvöru að bráðabirgðaaðgerðir eins og þær að skerða vísitölubætur á laun eitt vísitölutímabil og hækka verðlag í landinu með nýjum verðbólguaukandi skatti, eins og hækkun vörugjalds, geri eitthvað til að auka framleiðni eða framleiðslugetu þjóðarbúsins er náttúrlega eins og hver önnur gamansemi um alvarleg mál. Það er fastur liður á ferli þessarar ríkisstj., að þegar hún grípur til svokallaðra óvinsælla efnahagsaðgerða eru þær alltaf vafðar inn í silkipappír og sellófan með einhverju fallegu orðalagi, eins og glassúr utan um hið beiska innihald. Þar er það fastur liður að tala um nauðsyn þess að auka framleiðni og framleiðslugetu.

Nú er það fljótsagt, ef litið er á stefnu þessarar ríkisstj. í atvinnumálum, í málefnum atvinnuveganna, að eitt helsta einkenni hennar er að draga sífellt úr framleiðni og arðsemi í atvinnulífinu. Þetta lýsir sér í því í landbúnaðarstefnunni, að í stað þess að reyna að stefna að nægilegri framleiðslu til að fullnægja þörfum innanlandsmarkaðar með sem minnstum tilkostnaði og sem minnstum mannafla leiðir til aukinnar framleiðni. Stefnan er þveröfug. Stefnan í landbúaðarmálum er offjárfesting í atvinnuvegi sem þegar er kominn yfir mörk vaxtar og þegar framleiðir meira en markaðurinn getur tekið við, þannig að það er sífellt aukin fjárfesting og aukinn framleiðslukostnaður við að framleiða sama eða minnkandi magn. Þessi „framsóknarstefna“ í landbúnaðarpólitíkinni hefur síðan verið yfirfærð yfir á sjávarútveginn. Minnkandi afli er sóttur með sífellt stærri togaraflota með sífellt meiri tilkostnaði með sífellt minni arðsemi. Þetta er höfuðeinkennið á allri stefnu núverandi stjórnarflokka í atvinnumálum. Sama máli gegnir um núllstefnu hæstv. iðnrh. í orku- og iðnaðarmálefnum.

Um það að brbl. væru til þess fallin að verja lægstu laun þarf ekki að hafa mörg orð. Ég ætlast beinlínis til þess í umr.hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Verkamannasambands Íslands og formaður Dagsbrúnar, geri grein fyrir áhrifum brbl. til þess að verja lægstu laun. Umr. sem þegar hefur farið fram um svokallaðar láglaunabætur hefur leitt í ljós að þrátt fyrir vont samviskubit þeirra Alþb.-ráðherranna, þrátt fyrir tilraunir þeirra til að skila aftur til sumra launþega hluta af þeim auknu tekjum, sem teknar voru í ríkissjóð með hækkun vörugjaldsins, hefur framkvæmd þess verið með slíkum endemum að orðið láglaunabætur er rangnefni.

Þannig er alveg sama hvar niður er drepið að því er varðar þessi blessuð brbl. Þau eru þegar komin til framkvæmda að mestu leyti. Þau rök sem notuð voru fyrir nauðsyn þeirra, þau rök sem færð voru fyrir því hvaða áhrif þau mundu hafa eða hvaða árangri þau mundu skila, hafa reynst haldlaus. Þau markmið sem átti að ná með setningu þeirra hafa ekki náðst.

Niðurstaðan er mjög einföld ef stjórnarherrarnir meintu það sem þeir sögðu þegar þeir tóku sér brbl. vald til að setja þessi lög í ágúst á s. l. ári, meintu það, sem þeir sögðu þá, að nauðsynlegt væri að setja slík lög, nauðsynlegt væri að skerða verðbætur á laun, hækka skatta, fella gengi, vegna þess að ella mundi verðbólgan rjúka upp í 70%, sem þýðir náttúrlega dauðadóm yfir heilbrigðu atvinnulífi í landinu. Ef það var rétt þá liggur alveg ljóst fyrir að þessar efnahagsráðstafanir verður þegar í stað að endurtaka. Hafi þær verið nauðsynlegar þá eru þær nauðsynlegar nú. Ástandið núna er ekki aðeins mjög svipað, það er heldur verra en þegar brbl. voru sett í ágúst. Verðbólgan er meiri, ástand atvinnuveganna er hættulegra, viðskiptahallinn er meiri, skuldasöfnunin hættulegri, ósamkomulag stjórnarflokkanna meira. Yfirvofandi kauphækkun samkv. framfærsluvísitölu/kaupgjaldsvísitölu 1. mars er að vísu ekki alveg eins mikil og reyndin varð í des. vegna skerðingarinnar þá, en hafi verið nauðsynlegt að gripa til efnahagsaðgerða af þessu tagi á s. l. sumri er ennþá brýnni nauðsyn að gera það nú. M. ö. o.: aðgerðirnar voru haldlausar, þær skiluðu engum árangri. En hafi stjórnarherrarnir haft trú á nauðsyn þessara aðgerðu þá hljóta þeir að endurtaka þær nú. Ekki geta þeir horft á aðgerðalaust þegar mun skuggalegra ástand er fyrirsjáanlegt og kortlagt fram undan, verði ekki gripið til aðgerða. Svo ábyrgðarlausir geta þeir ekki verið — eða hvað?

Deilu stjórnar og stjórnarandstöðu um þessi brbl., inntak þeirra, áhrif þeirra, er þess vegna raunverulega lokið. Við héldum því fram í umr. um þessi mál í þjóðfélaginu, í blaðagreinum og ræðum, á s. l. hausti að brbl. væru óréttlát og í fyrsta lagi vegna þess að þau gerðu ráð fyrir því að verðbótaskerðingin gengi jafnt yfir alla. Við héldum því þá fram, að mörg hundruð fjölskyldna, þar sem ein fyrirvinna væri í búi, sem ætti að framfleyta fjölskyldu á óyfirborguðum hungurtöxtum verkalýðsfélaga, gætu ekki þolað þá fyrirhuguðu skerðingu. Við höfðum efasemdir um að láglaunabæturnar svokölluðu, sem lofað var, — við höfum vonda reynslu af loforðum þessarar ríkisstj., — mundu koma þessu fólki að fullum notum. Og reynslan er sú, að í mjög mörgum tilvikum hafa þessar bætur ekki komist til þeirra sem helst þurftu á þeim að halda.

Í annan stað sögðum við þá, að við værum andvígir þessum brbl. vegna þess að menn væru beðnir að færa fórnir sem yrðu til einskis. Við héldum því fram að brbl. væru haldlaus, að þau mundu ekki duga fram í jan. Við bentum á, að með viðbótaraðgerðum var flotanum haldið á floti til áramóta með því að ávísa á tóma sjóði og slá erlend lán til að greiða niður olíukostnað. Sá leikur hefur nú verið endurtekinn eitt vísitölutímabil í viðbót. En það er líka gálgafrestur. Spurningin er þess vegna: Þegar liggur ljóst fyrir hið algerlega haldleysi þessara aðgerða, að ástandið er heldur verra nú, þegar nýtt vísitölutímabil nálgast, hvernig stendur þá á því að stjórnarherrarnir hafa ekki boðað og lagt fram á Alþingi nýjar efnahagsaðgerðir? Hafi verið þörf á því á s. l.. hausti er það alger nauðsyn nú.

Það er ekki hægt að ræða svo afstöðuna til brbl. að nefna ekki viðbitið, eins og það er kallað. Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, stjórnarliði, en um leið sá maður sem gegnir einni af æðstu trúnaðarstöðum verkalýðshreyfingarinnar í landinu, lýsti því yfir á sínum tíma að fylgi hans við brbl. væri skilyrt. Það vantaði viðbitið, sagði hann. Og hann spurðist fyrir um það, hvar væru öll þau boðuðu fylgifrv. sem áttu að fylgja brbl. Það er bráðum komið hálft ár frá því að þessi brbl. voru sett og frá því að því var yfir lýst að í kjölfar þeirra mundu fylgja margháttaðar aðrar efnahagsráðstafanir, sem væntanlega mundu frekar stuðla að því að í þeim yrði eitthvert hald, að þau skiluðu einhverjum árangri. Það er rétt að rifja upp hver þessi fyrirheit voru.

Það var boðað að fyrir 1. des. yrði gengið frá lagasetningu um nýtt viðmiðunarkerfi vísitölu. Hvað er að frétta af því? Þessa dagana rífast ráðherrar Framsóknar og Alþb., hnakkrífast, um hvor hafi svikið þetta loforð, hverjum aðilanum sé um að kenna. En hitt er staðreynd, að við loforðið hefur ekki verið staðið.

Það átti að gera ráðstafanir til að stöðva innflutning fiskiskipa í tvö ár. Það átti að gera sérstakar ráðstafanir til að herða matsreglur og auka viðurlög vegna lélegrar meðferðar afla. Það átti að efna til sérstakrar fræðsluherferðar um aflameðferð. Það átti að koma á nýju útflutningstryggingakerfi þannig að útflutningslánasjóðir geti boðið sambærileg kjör og samsvarandi greinar njóta með erlendum þjóðum. Það átti að draga úr þörf fyrir útflutningsbætur vegna landbúnaðarafurða. Það átti að gera sérstakt átak í markaðs- og sölumálum íslenskra afurða. Það átti að breyta verðmyndunarkerfinu, sérstaklega að því er varðaði verðlagningu á innlendum iðnaðarvörum í óheftri erlendri samkeppni. Það átti að gera útlánareglur, lánstíma og vaxtakjör fjárfestingalánasjóða sambærileg innbyrðis milli atvinnuvega. Það átti að koma á nýrri löggjöf um stjórnendur ríkisstofnana á fárra ára bili. Það átti að sjálfsögðu að efla sparnað í opinberum rekstri. Það átti að gera sérstakar ráðstafanir til að takmarka erlendar lántökur til samræmis við yfirlýst markmið um viðskiptajöfnuð. Það átti að sögn að endurskoða skipulag á útgjöldum til heilbrigðismála með sérstakri áherslu á þjónustu sjúkrahúsa, hvað svo sem þetta merkir nú. Það átti að endurskoða frá grunni tekjuöflunarkerfi hins opinbera. Tekjuöflunarkerfi er væntanlega skattkerfi í stórum dráttum. Það átti að samræma aðstöðugjöld og atvinnurekstur. Það átti að taka upp viðræður við viðskiptabanka og sparisjóði um lengingu lána til atvinnuvega og húsbyggjenda, sem nú er búið að úthýsa af húsnæðismarkaðinum. Það átti að auka hluta starfsmanna og meðábyrgð þeirra í stjórnun fyrirtækja. Það átti að fresta opinberum byggingum. Það átti að stíga nýtt skref í jöfnun hitunarkostnaðar frá 1. okt. s. l. Og það átti í samráði við aðra á vinnumarkaðnum að koma á breytingum á orlofslögum. Þetta voru þau loforð sem gefin voru, 21 talsins.

Hvar eru þessi fylgifrv.? Hvar eru þau stödd? Hvernig hefur verið staðið við þessi fyrirheit? Því er fljótsvarað. Efndirnar eru allar í skötulíki. Þetta reyndist ekkert vera annað en umbúnaður, sellófan, glassúr utan um kauprán kommanna, eins og það er kallað. Það virðist engin alvara hafa verið að baki.

Hvað segir í yfirliti Seðlabankans um stöðu efnahagsmála í upphafi árs þann 1. febr., um ástandið í stórum dráttum? Það segir, með leyfi forseta:

„Þegar litið er yfir þróunina að undanförnu og stöðu þjóðarbúskaparins í dag, er ljóst, að þrátt fyrir aðgerðir stjórnvalda til þessa vantar mikið á, að efnahagsvandinn, sem magnaðist svo mjög á s. l. ári, hafi enn verið leystur. Fari fram sem horfir, verður mjög mikill halli á viðskiptajöfnuði einnig á þessu ári, og skuldastaðan við útlönd mun komast á enn hættulegra stig. Jafnframt heldur verðbólgan áfram að magnast og grafa undan fjárhagslegu trausti og sparifjármyndun, en háu atvinnustigi verður haldið uppi með erlendri skuldasöfnun og verðbólgumyndandi útlánum innanlands. Við þessum vanda verður að bregðast hið allra fyrsta, því að hver mánuður er dýr í vaxandi erlendum skuldum, sem langan tíma tekur að greiða niður. Meginmarkmiðið í efnahagsmálum hlýtur því, eins og nú er komið, að vera að draga úr og eyða sem fyrst viðskiptahallanum við útlönd, sem ógnar efnahagslegu öryggi landsmanna.“

Að því er varðar gengisskráningu og afleiðingar ítrekaðra gengislækkana og gengissigs segir í þessari greinargerð, með leyfi forseta:

„Ef breytingar gengisins að undanförnu eiga að hafa tilætluð áhrif verður því að koma í veg fyrir, að þær renni óheftar út í framleiðslukostnað og verðlag. Er reyndar ljóst, að lengra þarf að ganga og stefna verður sem fyrst að gagngerri endurskoðun hins lögboðna vísitölukerfis verðlags og launa, ef komast á út úr þeim ógöngum, sem íslensk efnahagsmál eru nú komin í.“

Hér er verið að vísa til loforðs í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstj. Hér er verið að vísa til loforðs og fyrirheits í yfirlýsingu sem fylgir brbl. En þegar spurt er um efndir er sama svarið. Það eru engar efndir. Stjórnarflokkarnir geta ekki tæplega hálfu ári eftir að fyrirheitið var gefið í brbl., komið sér saman um hvað eigi að gera.

Að því er varðar ríkisfjármál, erlendar skuldir, skuldasöfnun, þá er náttúrlega von að spurt sé: Hver er stefna ríkisstj.? Ætlar hún að standa við fyrirheitið um alger umskipti að því er varðar erlenda skuldasöfnun? Menn spyrja: Hvar er lánsfjáráætlun ríkisstj., sem átti að leggja fram jafnhliða fjárlögum? Í grg. Seðlabankans segir um þetta efni, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er, að sem fyrst sé gengið frá lánsfjáráætlun fyrir árið 1983, þar sem stefnt sé að um þriðjungs lækkun á erlendum lántökum frá því, sem var á s. l. ári, sem samsvarar að erlendar lántökur verði um 3500 millj. á núgildandi gengi. Síðan verður að takmarka lánsfjármagnaðar opinberar framkvæmdir og útlán fjárfestingarlánasjóða við það svigrúm, sem þá er fyrir hendi.“

Þetta er eitt af lykilatriðum efnahagsmálastefnu ríkisstj. Henni ber lagaskylda að leggja fram lánsfjáráætlun. Það er eitt af brýnustu málum sem þarf að leysa áður en þetta þing lýkur störfum. En það er líka sama þótt spurt sé: Hvar er lánsfjáráætlun ríkisstj.? Hver er stefna hennar í fjárfestingar- og lánamálum? — Svarið er ósköp einfaldlega: Það er ekki vitað. Það er ekki vitað vegna þess að innan ríkisstj., meðal stjórnarflokkanna, er engin samstaða hvorki um það né annað.

Ég hef vitnað nokkrum sinnum til greinargerðar Seðlabankans um hversu hörmulega er komið í íslensku atvinnu- og efnahagslífi nú þegar þessi hæstv. ríkisstj. er í þann veginn að skilja við á þriggja ára afmæli sínu. Ég hef líka fullyrt að það er tiltölulega litill ágreiningur milli stjórnarliða og stjórnarandstæðinga um hversu alvarlegt ástandið er og hversu skuggalegar horfurnar eru fram undan.

Það er hægt að leiða fram ótal vitni úr stjórnarherbúðunum sjálfum þessu til staðfestingar. Ekki ómerkari maður en aðstoðarmaður fjmrh., Þröstur Ólafsson, skrifaði fyrir skömmu merkilega grein í Morgunblaðið. Hún birtist þar 10. des. s. l. Þar gerði hann upp reikningana við afleiðingar stjórnarstefnunnar. Þessi dómur er svo harður að stjórnarliðar hljóta að kveinka sér við, en hann er að mínu mati sannur og réttur. Og hann er þess eðlis að hann staðfestir í nær einu og öllu þá gagnrýni sem við stjórnarandstæðingar, a. m. k. við Alþfl.-menn, höfum haldið uppi á þessa ríkisstj. frá því að hún var stofnuð.

Hvað segir þessi helsti aðstoðarmaður fjmrh. og helsti trúnaðarmaður stjórnarsamstarfsins um ástandið eins og nú er komið? Hann segir, með leyfi forseta:

„Nú er svo komið að liðlega 10. hver króna, sem keypt er fyrir hér á Íslandi, er fengin að láni erlendis. Greiðslubyrðin stefnir í 30% af útflutningstekjum. Viðskiptahallinn á árinu er áætlaður um 3100 millj. kr.

Nú er svo komið að hvert nýtt fiskiskip sem við kaupum dregur verulega úr afkomu þeirra sem fyrir eru. Flotaaukning byggðakapphlaupsins er farin að lækka tekjur sjómanna og rýra afkomu útgerðarinnar. Svipaður þorskafli 1978 og 1982 deilist nú á miklu fleiri og dýrari skip. Þetta leiðir einnig til verri afkomu í landi og árangri þeirrar byggðastefnu sem skuttogarabyltingin hafði í för með sér er þar með stefnt í voða. Á ný er sótt til Reykjavíkur. Einnig þessi bylting virðist ætla að éta börnin sín.“

Hvað segir aðstoðarmaður fjmrh. um þá stefnu sem ríkisstj. hefur fylgt í atvinnumálum? Hvernig er um að litast í sjávarútveginum, undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar? Aðstoðarmaður fjmrh. lýsir ástandinu svo, með leyfi forseta:

„Nú er svo komið að tvær af þremur stærstu fiskitegundunum eru horfnar og sú þriðja á í vök að verjast. Allir árgangar þorsksins síðan 1977 virðast undir meðallagi og Hafrannsóknastofnun vill lækka leyfilegan afla um 100 þús. tonn. Seiðamælingar hafa aldrei verið lélegri síðan þær hófust. Þótt slíkar mælingar geti aldrei verið nákvæmar er vísbendingin ótvíræð. Landhelgin okkar er að tæmast, ekki af skipum heldur fiski.

Nú er svo komið að bændur landsins framleiða í miklu magni kjöt sem þeir fá ekkert fyrir og geta aldrei selt. Meðlagsgreiðslur okkar með íslensku kjöti erlendis verða tæplega 280 millj. kr. á næsta ári. — „Það mundu þykja rausnarlegar láglaunabætur, ef þær væru í boði. Ég endurtek 280 millj. kr. á næsta ári. — Núverandi landbúnaðarstefna tryggir áframhaldandi hrakleg kjör smábænda.

Nú er svo komið að samsafnaður fjárhags- og rekstrarafkomuvandi margra helstu framleiðslufyrirtækjanna í landinu er svo mikill að þeim er fleytt frá mánuði til mánaðar með lánum og skammtíma fyrirgreiðslum. Víxlverkanir kauplags, verðlags, gengis, fiskverðs og vaxta eru orðnar fullkomlega sjálfvirkar. Verðbótakerfið tryggir viðgang verðbólgunnar.“

Það er ástæða til þess að staldra við þessa seinustu setningu. „Verðbótakerfið tryggir viðgang verðbólgunnar“. Í öllum umr. um efnahagsmál hefur einn stjórnarflokkanna, Alþb., haldið því fram að það verðbótakerfi sem við búum við sé seinasta brjóstvörn, seinasta haldreipi, launþega til þess að tryggja afkomu þeirra í mikilli verðbólgu. Þessu var haldið fram fyrir kosningar 1978. Þetta hefur verið stefið í öllum pólitískum áróðri Alþb. á s. l. áratug. Nú liggur hér fyrir sú játning eins áhrifamesta hugsuðar flokksins í efnahagsmálum, að verðbótakerfið tryggi viðgang verðbólgunnar. Það er óumdeilt að verðbólgan sjálf er náttúrlega helsti óvinur þeirra sem versta hafa afkomuna og bitnar harðast á launþegum sjálfum. Engu að síður er það svo, að marggefin loforð í stjórnarsáttmála, í yfirlýsingu með brbl., um breytt viðmiðunarkerfi, um breytingar á vísitölukerfinu, sem fæli það í sér að reynt yrði að draga úr víxlhækkun verðhækkana og launa, strandar á Alþb. sjálfu.

Ég vil taka það skýrt fram, að andstaða mín við brbl. eins og þau liggja hér fyrir, gagnrýni mín á haldleysi þeirra, byggist ekki á því að helsta inntak aðgerðanna var að hrófla við vísitölukerfinu í þetta skipti. Aðferðin, sem viðhöfð er, er vonlaus. Árangurinn af slíkri aðgerð í eitt og eitt skipti, þegar allt ætlar um koll að keyra, verður lítill sem enginn. En öll þróun vísitölukerfisins og reynslan á stjórnartíma núv. ríkisstj. sannar að það er hin mesta firra að óbreytt vísitölukerfi tryggi hagsmuni launþega. Óbreytt vísitölukerfi tryggir áframhaldandi verðbólgu, eins og hæstv. fjmrh. hefur viðurkennt, en er með öllu óhæft til að tryggja raunverulegan kaupmátt launþega. Það ber þess vegna að endurskoða, en það ber að gera af alvöru og það ber að gera frá grunni. Það ber ekki að gera með því að rifta eftir á samningum í eitt og eitt skipti. Það ber ekki að gera með því að lýsa því yfir að verðbótakerfið sé heilagt, seinasta haldreipi launþegans, en grípa síðan til þeirra ráða í 14 skipti af 16 mögulegum að falsa þann mælikvarða, að hrófla við því í raun og veru, en neita hins vegar í verki að endurskoða kerfið sjálft og gera mönnum ljóst fyrir fram, launþegum jafnt sem öðrum, að hvaða skilmálum þeir geta gengið.

Herra forseti. Ég þykist hafa fært nógsamlega rök fyrir því að fullyrðingar stjórnarliða um að brbl. dugi til einhvers viðnáms gegn verðbólgu, þau séu til þess fallin að halda verðbólgu á viðráðanlegu stigi, þau séu til þess fallin að koma í veg fyrir að verðbólgan verði óviðráðanleg, 70–75%, hafi reynst vera haldlausar. Þau rök hafa ekki staðist og um það þarf ekki að deila. Reynslan er þegar komin á það mál. Sjálfsagt má halda því fram, að ef þessi brbl. verði að lokum felld, þó að þau hafi tekið að öllu leyti gildi og gildistími þeirra sé senn á enda runninn, þá geti það enn leitt til þess að verðbólgan mælist eitthvað meiri en ella. En þá verða menn líka að hafa í huga að það er alveg gefið að sitji núv. ríkisstj. áfram við völd, taki þm. yfirleitt þátt í því að framlengja dauðastríð þessarar ríkisstj., er það alveg gefið og má bóka það fyrir fram að verðbólga á Íslandi rýkur upp úr öllu valdi á næstu mánuðum. Af hverju? Einfaldlega vegna þess að stýring á efnahagsmálum snýst ekki lengur um þessi brbl. Það er öllum mönnum ljóst, sem um þessi mál hugsa, að nú þarf og nú er ekki hægt að fresta því lengur að grípa til mjög róttækra samræmdra aðgerða á sviði efnahagsmála, sem þyrftu helst að vera svo róttækar að þar sé ekki aðeins um að ræða róttæka stefnubreytingu, heldur þarf að stokka upp efnahagskerfið sjálft og gerbreyta öllum hagstjórnaraðferðum í mjög veigamiklum atriðum.

Innan þessarar ríkisstj. er augljóslega engin samstaða um eitt né neitt. Sannarlega er engin samstaða um neinar aðgerðir í efnahagsmálum. Það tók þessa ríkisstj. marga mánuði að ná samkomulagi um gengislækkun, um að ráðast enn einu sinni á vísitölukerfið, á launaumslögin, en það hefur engin samstaða náðst innan ríkisstj. um að standa við gefin fyrirheit um einhverjar aðrar aðgerðir í viðbót. Þessi ríkisstj. getur ekki sett saman lánsfjáráætlun. Hún getur ekki mótað sér fjárfestingarstefnu. Hún getur enga afstöðu tekið til vísitölukerfis. Hana greinir á greinilega um aðgerðir í landbúnaðarmálum, atvinnumálum. Það er alveg sama hvar borið er niður. Það eina sem ráðh. hafa verið sammála um frá þingsetningu á s. l. hausti er að stritast við að sitja, en til einskis. Og þegar slíkir menn tala af miklum þjósti um ábyrgðartilfinningu stjórnarandstöðunnar og lýsa ábyrgð á hendur stjórnarandstöðunni fyrir að hún er andvíg haldlausum bráðabirgðaráðstöfunum af þessu tagi, þá er það vægast sagt tvöfalt siðferði, sem erfitt er að sætta sig við.

Ég vitnaði til þess áðan, herra forseti, að hæstv. ráðherrar neita yfirleitt í öllum umr. um efnahagsvandann að taka á sínar herðar nokkra ábyrgð af því hvernig komið er. Þeir vilja velta ábyrgðinni af sér yfir á herðar annarra. Þeir nefna þar til sögunnar allt aðra hluti. Það er ekki umdeilt að þessari ríkisstj. hefur gersamlega mistekist í öllum meginatriðum. Hún setti sér í upphafi ferils síns ákveðin markmið, að vísu meira og minna óljós. Nú, þremur árum síðar, liggur ljóst fyrir að þessum markmiðum hefur hún ekki náð. Stórkostlegasta loforð hæstv. ríkisstj. var það, að innan tveggja ára mundi hún færa verðbólgu niður á sama stig og gerðist með viðskiptalöndum okkar. M. ö. o.: innan tveggja ára átti sá árangur að nást. Nú liggur það alveg ljóst fyrir að verðbólga í helstu viðskiptalöndum okkar er á bilinu frá 4–6%. Verðbólga á Íslandi er í kringum 70% — reyndar 75% — ef framreiknaðar væru verðhækkanirnar sem verða nú fyrirsjáanlega og liggja fyrir 1. mars. n. k. Það þarf engu orði um að bæta. Þetta var meginmarkmið ríkisstj. Árangurinn er slíkur að engri ríkisstjórn á að vera sætt eftir að árangursleysið var orðið eins algert og þessar tölur staðfesta.

Annað meginloforð ríkisstj. varðaði erlenda skuldasöfnun. Í stjórnarsáttmála stóð, með leyfi forseta: „Erlendar lántökur verði takmarkaðar eins og kostur er og að því stefnt, að greiðslubyrði af erlendum skuldum fari ekki fram úr um það bil 15% af útflutningstekjum þjóðarinnar á næstu árum. Efri mörk erlendrar lántöku verði þó ákveðin nánar með hliðsjón af eðli framkvæmda með tilliti til gjaldeyrissparnaðar og gjaldeyrisöflunar.“

Efndirnar? Greiðslubyrði vaxta og afborgana af erlendum lánum var 13–14% af árlegum gjaldeyristekjum, en stefnir nú í yfir 30. Erlendar skuldir nema nær helmingi þjóðarframleiðslunnar. Skuldasöfnun stafar að verulegu leyti af því að tekin eru eyðslu- og skuldabreytingalán. Gjaldeyrissparandi eða aflandi fjárfestingar hafa dregist saman. Yfirlýst markmið um verðbólgu, yfirlýst markmið um að halda erlendri skuldasöfnun í skefjum, yfirlýst markmið um uppstokkun á veigamiklum þáttum hagkerfisins eins og t. d. verðbótakerfinu, yfirlýst fyrirheit um lækkandi vexti í kjölfar lækkandi verðbólgu, — það er alveg sama hvar borið er niður, það stendur hvergi steinn yfir steini. Það eina sem þessi ríkisstj. skilur eftir sig og verður hennar minnisvarði eru vanskilaskuldirnar, sem þjóðin verður að taka á sig og greiða af arðlausri fjárfestingu og fyrirhyggjulausri hagstjórn, sem þjóðin verður að taka á sig og greiða óumdeilanlega á næstu árum, jafnvel á sama tíma og þjóðartekjur á mann og þjóðarframleiðsla kunna að fara minnkandi og greiðslugetan verður stórlega skert.

Þetta er ekki bara dómur stjórnarandstöðunnar. Ég vitnaði áðan til ummæla aðstoðarmanns fjmrh., sem tekur að sumu leyti jafnvel enn dýpra í árinni. Ég hef vitnað í mörgum greinum til greinargerðar Seðlabankans um það hvernig komið er. Það er yfirleitt ágreiningslaust meðal þeirra, sem um þessi mál fjalla, að þessari ríkisstj. hefur gersamlega mistekist. Hvort þau brbl., sem nú eru þegar komin til framkvæmda og hafa reyndar þegar sannað algerlega haldleysi sitt, verða staðfest hér á Alþingi Íslendinga eða ekki er ekki lengur neitt meginatriði. Meginatriðið er ákaflega einfalt. Spurningin er ákaflega einföld. Hún er um það, hverjir eiga að taka við þessu þrotabúi og hvenær verður hægt að byrja á því að moka flórinn. Hvenær verður efnt til kosninga? Hvenær tekur meiri hl. Alþingis á sig rögg, leysir þessa ríkisstj. frá störfum, skýtur málinu undir dóm þjóðarinnar og skapar þannig forsendur fyrir því að starfhæfur þingmeirihluti verði myndaður og ný ríkisstj. taki við?

Sá nýi þingmeirihluti verður ekki öfundsverður. Hann mun taka við stærsta efnahagslegu þrotabúi lýðveldissögunnar. Um það er ekki deilt, um það er enginn ágreiningur milli stjórnar og stjórnarliða. Stjórnarliðar vilja að vísu ekki taka á sig ábyrgð, þeir varpa sökinni á óskylda hluti. Þeir kenna um heimskreppu, þeir kenna um aflabresti, þeir kenna um öllum öðrum en sjálfum sér. Það er að vísu mannlegt, en ekki stórmannlegt. Staðreyndin er engu að síður sú, að þrátt fyrir samdrátt í afla er sá vandi sem við eigum við að búa fyrst og fremst heimatilbúinn. Sönnun fyrir því er t. d. sú, að árið 1981 var eitthvert hagstæðasta ár í gervallri sögu lýðveldisins. Það er mesta aflaár í Íslandssögunni frá upphafi vega. Var það ekki allt í lagi? Nei. Jafnvel á því ári, þegar afli og viðskiptakjör og gengisþróun voru hvað hagstæðust, var þannig búið að undirstöðuatvinnuvegunum að þeir áttu við að búa vegna rangrar gengisskráningar hallarekstur og stórfellda skuldasöfnun. Það stoðar jafnvel ekki, þegar stefnan er svo röng í grundvallaratriðum, gæska til lands og sjávar.

Herra forseti. Brbl. sem hér eru til umr. skipta engum sköpum. Örlög þeirra skipta orðið ákaflega litlu máli í raun og veru. Það sakar ekki að geta þess og rifja það upp, að Alþfl.-menn gerðu á sínum tíma tilraun til að bjóða ákveðið samkomulag við ríkisstj. um afgreiðslu þessara brbl. gegn því að ríkisstj. gengi að tilteknum skilyrðum öðrum. — Ég rifja upp:

Á s. l. hausti samþykkti flokksþing Alþfl. að formaður Alþfl. héldi áfram viðræðum við ríkisstj. um lausn efnahagsmála með þremur óaðskiljanlegum skilyrðum. Þau voru:

1. Þau brbl. sem hér eru til umr. yrðu lögð fram, en það hafði ekki verið gert. Þau höfðu þá ekki verið sýnd á Alþingi.

2. Að reynt yrði að ná samkomulagi um meiri hl. á Alþingi um lausn stjórnarskrármálsins fyrir kosningar.

3. Að bindandi ákvörðun yrði tekin í þessu samkomulagi um kjördag.

Þetta voru óaðskiljanleg skilyrði. Meginkrafan var sú, að forsrh. undirritaði formlega dánarvottorð hinna dauðvona ríkisstj. Yfirlýst var að ríkisstj. hefði misst starfhæfan meiri hl. á Alþingi og þá staðreynd bar að viðurkenna, en til þess að slíkt samkomulag gæti orðið um lausn mála var það eðlileg krafa af hálfu stjórnarandstöðunnar að ríkisstj., sem viðurkennir gjaldþrot sitt, sem er innbyrðis gersamlega ósamstæð og getur engum málum komið fram, ekki bara vegna þess að hana skorti atkvæðastyrk til þess, heldur vegna þess að hana skorti málefnalega samstöðu til þess, viðurkenndi að sínu leyti staðreyndir í slíku samkomulagi.

Svar hæstv. forsrh. var að leggja fram skussalista yfir rúmlega 100 þingmál, sem hann gat síðan aðspurður jafnvel litla sem enga grein gert fyrir, enda voru þau mál, sem þar voru á lista, fæst af því taginu að skipti sköpum. Þannig litum við svo á, að forsrh. hefði hafnað þessu boði og tæki þessar viðræður ekki alvarlega, jafnvel að þær væru hafðar að gamanmálum.

Staða málsins er raunverulega enn í dag óbreytt. Ég endurtek: Í mínum huga skiptir ekki sköpum hver verða örlög þessara brbl. Það sem skiptir sköpum er fyrst og fremst þetta: Að þessi ríkisstj., sem reyndar er ekki lengur ríkisstj. í venjubundnum skilningi þess orðs, heldur einhvers konar leifar af stjórnarmyndunarviðræðum, árangurslausum þó, viðurkenni að hennar hlutverki er lokið, að hún hefur bakað þjóðinni skaða með því að sitja lengur en sætt er. Jafnframt er það eðlileg krafa kjósenda, að áður en gengið verði til næstu kosninga verði gerð lokatilraun til að ná samkomulagi um a. m. k. lágmarksleiðréttingu á óviðunandi misvægi atkvæðisréttar kjósenda og því næst að málum verði skotið undir dóm þjóðarinnar, þjóðinni gefinn kostur á að gera upp reikningana við stjórnarflokkana og svara þeim spurningum fyrir sitt leyti hverjir eigi að taka við þrotabúinu og gefa sína vísbendingu um það, hvaða leið hún vilji að farin verði út úr ógöngunum. Þetta er meginmálið. Um það snýst umr. á Alþingi þessa dagana. Þm. hafa hér hvað eftir annað kvatt sér hljóðs og kvartað undan því að áliti Alþingis fari hnignandi, að þjóðinni ofbjóði það ástand að horfa upp á pólitíska upplausn, pólitískt ábyrgðarleysi, pólitískt getuleysi, sem hér er ríkjandi, horfa upp á ríkisstj. sem svo er fyrir komið fyrir löngu að hún hefur ekki málefnalega samstöðu um nein þau mál, sem brýnast er að leysa, og hún viðurkennir sjálf að hún hafi ekki þann þingstyrk sem þarf til aðkoma málum fram, en á það reynir ekki vegna þess að um þau mál sem brýnast er að leysa er engin samstaða. Stjórnarandstaðan hefur ekki atkvæðastyrk til þess að óbreyttu að fella þessa ríkisstj. með vantrausti. Það þjónar engum tilgangi fyrir stjórnarandstöðuna við þessar kringumstæður að flytja mál sem ekki ná fram að ganga. Þetta er algert pólitískt upplausnarástand. Það er á ábyrgð þm. allra, en fyrst og fremst hvílir þó ábyrgðin á stjórnarflokkunum, á ríkisstj., á ráðh. og forustumönnum stjórnarflokkanna.

Það er staðreynd, að stjórnarandstaðan hefur gert tilraunir, gert tilboð til að fá þessi mál leyst án undirhyggju og með þeim hætti, sem viðunandi er, þótt seint sé. Það stendur ekki upp á stjórnarandstöðuna að bjóða slík boð. Þessa dagana er gerð úrslitatilraun til þess að ná samkomulagi um kjördæmamálið. Ég viðurkenni ósköp einfaldlega að það skiptir meginmáli að slík tilraun verði leidd til lykta, það verði látið reyna á hvort slíkt samkomulag geti ekki náðst. Það skiptir mun meira máli úr því sem komið er en spurningin um hver verði örlög brbl. sem þegar hafa komið til framkvæmda og hafa reyndar þegar sannað algert haldleysi sitt.

Það er mesti misskilningur að ábyrgð stjórnarandstöðunnar sé fyrst og fremst í því fólgin að styðja hvað sem það kostar einhverjar ráðstafanir, sem ríkisstj. setur fram, en hefur ekki þingstyrk til þess að koma fram, þegar það liggur fyrir að stjórnarandstaðan hefur haft rétt fyrir sér í því að þetta eru haldlausar ráðstafanir, gagnslausar ráðstafanir og það er þörf allt annars konar aðgerða, miklu róttækari aðgerða, en fyrst og fremst allt annars konar aðgerða en þessi ríkisstj. mun nokkurn tíma standa fyrir. Það er ekki hlutverk ábyrgrar stjórnarandstöðu að tryggja á þingi framgang stefnu sem hún er andvíg eða framlengja lífdaga ríkisstj. sem sjálf viðurkennir að hún er komin að útgönguversinu. Við þessar kringumstæður er það ábyrgð stjórnarandstöðunnar fyrst og fremst að tryggja að áður en þessu þingi verði slitið verði það mál leyst eða gerð tilraun til að leysa það mál sem kjósendur verða að gera kröfu um. Það er það, að þegar gengið er að kjörborði verði ekki búið við það sama hrikalega atkvæðamisrétti og verið hefur að undanförnu, en að öðru leyti er svo komið, að óhjákvæmilegt er, að undan því verður ekki vikið, og skjóta ágreiningsefnum stjórnar og stjórnarandstöðu undir dóm kjósenda.

Herra forseti. Örlög þessara brbl. skipta úr því sem komið er ekki ýkjamiklu máli. Það sem skiptir máli er að við næstu kosningar takist að ná fram algerum pólitískum umskiptum á Íslandi, sem valdi því að meiri hluti þings og þjóðar snúi við af þeirri braut samfellds efnahagslegs ófarnaðar sem verðbólgu- og framsóknaráratugurinn hefur leitt okkur út í. Í þessu samhengi leyfi ég mér, herra forseti, að vitna til ummæla aðstoðarmanns fjmrh., sem þekkir árangur þessarar ríkisstj. eða öllu heldur árangursleysi manna best, en hann segir svo um vanda þjóðarinnar í efnahagsmálum, með leyfi forseta:

„Stjórnmálamenn hafa ekki gefið nægilega gaum mjög flóknu samhengi efnahagslegra ákvarðana. Rætur verðbólgunnar eru rangar ákvarðanir í fjárfestingarmálum, rangar ákvarðanir í stjórnunarmálum sjávarútvegs, á sviði lána- og vaxtaákvarðana, í peningamálum, í landbúnaði og gjaldeyrismálum. Niðurstaðan er jafnvægisleysi allra helstu raunstærða hagkerfisins. Hér þarf grundvallarbreytingu, sem vissulega verður örðug í framkvæmd og krefst mjög sterkrar pólitískrar forustu.“

Þetta er hvort tveggja í senn lokadómur aðstoðarráðherra núv. ríkisstj. viðurkenning hans, hreinskilnisleg og karlmannleg, á því að gagnrýni stjórnarandstöðunnar á grundvallarþáttum þeirrar stjórnarstefnu, sem fylgt hefur verið í tíð núv. ríkisstj., hefur reynst rétt. Þetta er sérstök staðfesting á því, að málflutningur Alþfl., gagnrýni Alþfl.-manna á stefnu núv. stjórnarflokka í fjárfestingarmálum í málefnum atvinnuveganna, í ríkisfjármálum, í vaxta- og peningamálum er ósköp einfaldlega rétt. Þessi orð staðfesta og viðurkenna að stefnan í landbúnaðarmálum, sem fylgt er af núv. ríkisstj., er röng í grundvallaratriðum. Stefnan í sjávarútvegsmálum er ekki aðeins röng heldur skaðleg og þjóðhættuleg, háskaleg. Núllstefnan í orkumálum og iðnaðarmálum — ja, hvað segja stjórnarliðar sjálfir um það? Við skulum ekki gera þeim upp orð. Þeir eru nefnilega byrjaðir, stjórnarliðarnir, þó þeir viðurkenni ekki að þeir beri neina ábyrgð og vilja kenna öðrum um, að kenna hverjir öðrum um. Við eigum eftir að fá mikið um slíkar vitnaleiðslur á næstunni, næstu dögum og vikum, meðan þessi ríkisstj. er að leysast upp. Árangurinn í iðnaðar- og orkumálum er að sögn dagblaðsins Tímans, að sögn þeirra framsóknarmanna, niðurstaðan af samstarfinu við hæstv. iðnrh. Hjörleif Guttormsson, fjögur töpuð ár. Meira þarf reyndar ekki að segja. Það á ekki aðeins við um orku- og iðnaðarmálin. Það á við um þær hörmulegu afleiðingar sem hin efnahagslega óstjórn þessarar ríkisstj. hefur leitt yfir þjóðina. Þrjú glötuð ár.

Það hefur ekki staðið á okkur Alþfl.-mönnum, hvorki innan þings né utan, að gagnrýna þessa ríkisstj., að leggja fram þingmál, leggja fram lagafrumvörp, leggja fram þáltill. um hvað við viljum gera í staðinn. Við höfum lagt fram hér á Alþingi lagafrv. sem fela í sér afkomutryggingu þeirra fjölskyldna sem eiga að lifa af tekjum einnar fyrirvinnu á óyfirborguðu taxtakaupi. Alþfl.-menn hafa. flutt um það frv. oftar en einu sinni í tíð núv. ríkisstj. að húsnæðislánakerfinu verði skilað aftur tekjustofnum sínum og því verði gert kleift að hækka lán til þeirra sem byggja í fyrsta sinn og lengja lánstíma þeirra og jafnvel greiðslubyrði. Þm. Alþfl. hefur flutt um það frv. að greiðslubyrði húsnæðis- og lífeyrissjóðslána miðist við ófalsaða kaupgjaldsvísitölu. Við höfum flutt mál hér inn í þingið sem hafa það markmið að efla innlendan sparnað með því að allir almennir sparisjóðsreikningar verði verðtryggðir og vextir á sparifé verði færðir og greiddir mánaðarlega. Við höfum flutt þingmál sem gera ráð fyrir að útflutningsbætur, matargjafir ofan í útlendinga, verði afnumdar í áföngum. Við höfum flutt þingmál sem gerir ráð fyrir því, að hætt verði að miða búvöruverð til framleiðenda við laun launþega og verðmyndunarkerfið í landbúnaðinum verði stokkað upp. Við höfum flutt þingmál sem gera ráð fyrir að nýjar erlendar lántökur verði takmarkaðar við erlendan kostnað arðbærra framkvæmda og nauðsynlegan gjaldeyrisvarasjóð þjóðarinnar. Alþfl. hefur flutt þingmál hvert á fætur öðru um takmörkun á innflutningi nýrra fiskiskipa. Alþfl. hefur flutt þingmál sem gera ráð fyrir auknu frjálsræði í viðskiptum og verðmyndun þar sem samkeppni á markaði telst nægileg. Alþfl. hefur flutt þingmál hér um að endurskoða tekju- og verkskiptingu ríkis og sveitarfélaga með því að færa fleiri verkefni ásamt fjármunum og ábyrgð yfir til sveitarstjórna. Þetta er stórmál sem tengist mjög líka réttlátri lausn stjórnarskrármáls og kjördæmamáls. Við höfum flutt þingmál hér um að tryggja sveitarstjórnum aukið sjálfsforræði og vald yfir gjaldskrám sínum. Við höfum margítrekað með þingmálaflutningi hér þá stefnu okkar að afnema beri tekjuskatta til ríkisins, sveitarfélögin fái þann tekjustofn til umráða. Við höfum flutt hér þingmál um samræmt lífeyrisréttindakerfi fyrir alla landsmenn. Hér hefur verið flutt þingmál um að leggja beri niður Framkvæmdastofnun ríkisins í núverandi mynd og að fjárfestingarlánasjóðir atvinnuveganna verði sameinaðir í einn sjóð, sem rekinn verði á viðskiptagrundvelli, og lánskjör samræmd. Við höfum gert ráð fyrir því og flutt um það þingmál, að réttmæt byggðastefna samkv. raunverulegri áætlanagerð í nauðsynlegum tilvikum verði unnin með allt öðrum hætti en nú er gert, þ. e. unnin á ábyrgð ráðuneytis og sett hér fram í áætlunarformi á þingi með sama hætti og vegáætlun, þannig að þm. verði gerðir ábyrgir fyrir í atkvgr. auknum fjármunum til slíkra hluta fyrir opnum tjöldum.

Allt eru þetta aðeins örfá dæmi um að Alþfl. hefur flutt 17 þingmál sem öll til samans móta allt aðra stefnu í grundvallaratriðum en fylgt hefur verið í tíð núv. ríkisstj.: Allt aðra stefnu í ríkisfjármálum, álit aðra stefnu í fjárfestingarmálum, allt aðra stefnu í atvinnumálum, málefnum atvinnuveganna, í landbúnaðarmálum, í sjávarútvegsmálum, í iðnaðar- og orkumálum, í verðmyndunarmálum og allt aðra stefnu að því er varðar viðskipti þjóðarinnar út á við, erlenda skuldastöðu o. s. frv. Alþfl.-menn verða þess vegna ekki sakaðir um að hafa ekki gegnt þeirri skyldu stjórnarandstöðu að láta ekki aðeins við það sitja að Sagnrýna haldlausar aðgerðir stjórnarliða. Þeir hafa líka flutt mál sem í heild sinni vísa veginn til allt annarrar stefnu en fylgt hefur verið.

Herra forseti. Ég hef vitnað til þess, að það muni vera fram undan að ráðherrar í núv. ríkisstj. muni í vaxandi mæli fara að kenna hverjir öðrum um hvernig komið er eftir þriggja ára stjórnarsetu. Við höfum nú þegar séð forsmekkinn af því að því er varðar svikabrigslin sem ganga milli Framsóknar og Alþb.-manna að því er varðar hið nýja viðmiðunarkerfi vísitölu.

Nú hafa þau tíðindi gerst að fjmrh. og iðnrh. héldu blaðamannafund í hádeginu í dag, þar sem þeir tilkynntu um einhliða ákvörðun sína um hækkun skatta á ÍSAL afturvirkt. Það er jafnframt upplýst, að aðrir ráðh. í hæstv. ríkisstj. höfðu ekki hugmynd um að þetta hefði orðið. Það er ljóst að hæstv. iðnrh. og flokksbræður hans í Alþb. hafa boðað stefnu að því er varðar samskiptin við Alusuisse sem engin samstaða er um innan ríkisstj. Það er ljóst að formaður Framsfl., Steingrímur Hermannsson, hefur boðað þar allt aðra stefnu og sett fram allt aðrar tillögur. M. ö. o.: það er ljóst að þessi ríkisstj. er að liðast í sundur. Það er alveg sama hvar borið er niður, í stórum málum eða smáum. Innan hennar er ekkert samkomulag þegar um slík stórmál er að ræða eins og það mál sem við kennum yfirleitt við Alusuisse eða köllum álmálið og snýst um tvennt. Það snýst númer eitt um samningsstöðu okkar til að fá hækkað raforkuverð og hins vegar deilur um skattauppgjör. Nú er það leyst með þessum hætti innan ríkisstj. Reyndar hefur það mál allt verið rekið í þessum dúr af hæstv. iðnrh., sem byrjaði heldur ógæfusamlega með því að hann efndi til blaðamannafundar í des. árið 1980 og lagði þar fram ákveðnar sakir, sem þá ekki voru sannaðar. Hann kaus ekki að leita samráðs við stjórnarandstöðu í þessu máli. Hann kaus ekki að beita þeim aðferðum sem hefðu eflt þjóðarsamstöðu um málið, heldur kaus hann að fara þá leið sem mundi valda mestum deilum, mestri tortryggni, mestri sundrungu og sem við vöruðum við að mundi að lokum skila minnstum árangri. Þetta er nú að gerast.

Þannig eru stjórnarflokkarnir að leita útgönguleiða. Þeir eru að flýja hið sökkvandi skip. Þeir eru að reyna að leita sér að málum sem þeir vilja setja á oddinn í kosningabaráttunni, annars vegar Alþb. með sitt álmál, hins vegar framsóknarmenn í kjördæmamálinu. Þegar svo er komið er það vissulega staðreynd að örlög brbl., sem hér eru á dagskrá, skipta ekki sköpum. Það sem skiptir sköpum er að fá leiðréttingu á leikreglunum, kosningaréttarmálum, fyrir næstu kosningar og skjóta síðan þessum deilumálum undir dóm þjóðarinnar, því að það er brýnt að hún fái að segja sitt, það er brýnt að hún fái tækifæri til að binda enda á það stjórnleysisástand sem hér hefur viðgengist allt of lengi. — [Fundarhlé.]