11.02.1983
Neðri deild: 37. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1868 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

Um þingsköp

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Síðdegis í dag barst sú fregn hingað inn í þingið að hæstv. iðnrh. og hæstv. fjmrh. hefðu haldið sérstakan blaðamannafund þar sem þeir hefðu tilkynnt að hæstv. ríkisstj. eða einstakir hæstv. ráðh. — mér er ekki kunnugt um hvort er — hafi tekið mikilvægar ákvarðanir í þeim deilum sem yfir hafa staðið nú um alllangt skeið við Alusuisse, þ. e. að tekin hafi verið einhliða ákvörðun um skattlagningu á Íslenska álfélagið. Hér er að sjálfsögðu um stórmál að ræða. Vitað er að fyrir liggur till. í hæstv. ríkisstj. frá hæstv. sjútvrh. um ákveðna málsmeðferð þessa mikilvæga deilumáls. Einnig er vitað að hér er um að ræða ákvörðun sem getur haft mikil áhrif á samskipti okkar Íslendinga við Alusuisse í framtíðinni. Þegar þetta fréttist óskaði þingflokkur sjálfstæðismanna eftir því að hér færu fram síðdegis umr. utan dagskrár um þetta mál. Tilgangur umr. var sá að fara þess á leit við hæstv. ráðh., sem hlut eiga að máli, að þeir sýndu hv. Alþingi þá lágmarkskurteisi að skýra frá því hér á Alþingi hver þessi ákvörðun hefði verið, hvert væri efni hennar, hver væri aðdragandi hennar og hvaða hæstv. ráðh. stæðu að henni eða hvort það væri ríkisstj. öll.

Ég hafði áhuga á því og við í þingflokki sjálfstæðismanna að spyrja hæstv. forsrh. hver væri aðild hans að þessari ákvörðun, og jafnframt að spyrja hæstv. sjútvrh. hvort hann ætti aðild að ákvörðuninni, hvort hann hefði samþykkt hana og hvort hann hafi vitað af henni fyrir fram. Við höfðum líka áhuga á því að spyrja um það, hvort deilan við Hafnarfjarðarkaupstað um þátttöku í þeim kostnaði sem lagt hefur verið í vegna þessa máls, sem Hafnarfjarðarbær hefur verið rukkaður um, hafi jafnframt verið leyst í tengslum við þetta mál.

Formaður þingflokks Sjálfstfl. bar fram ósk um utandagskrárumræður við hæstv. forseta til að fá þetta upplýst. Jafnframt voru hæstv. iðnrh. og fjmrh. gerð orð um að eftir þessari umr. væri óskað og einnig hæstv. sjútvrh. Ég tek það fram að hæstv. sjútvrh. tók strax mjög vel í að taka þátt í þessari umr. og skýra frá því hver hans aðild að þessu máli væri eða hvort hún væri nokkur yfir höfuð. Hins vegar neitaði hv. 1. þm. Vesturl., sem nú situr í forsetastóli, því að þetta mikilvæga mál yrði tekið hér á dagskrá. Og hæstv. iðnrh. hefur jafnframt neitað að koma hingað upp til að skýra efnislega frá þessari ákvörðun. Hér er um mjög alvarlegt mál að ræða. Þetta er að sjálfsögðu mál dagsins í dag í stjórnmálunum. Það er mikilvæg ákvörðun sem hér hefur verið tekin og kann að reynast afdrifarík. Það er með ólíkindum að hæstv. iðnrh. ætli að heykjast á því að standa hér frammi fyrir hv. Alþingi til að skýra því frá efni og aðdraganda þessarar ákvörðunar. Og það er lítil virðing sem þessir hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. sýna Alþingi með því að ætla sér að sniðganga þingið á þennan hátt.

Ég verð að segja að þáttur hv. 1. þm. Vesturl. í þessu máli, varaforseta hv. deildar, er honum ekki til sóma ef hann neitar því staðfastlega að þessi umr. verði leyfð. Og þá meina ég í dag, hér og nú. Það er enginn áhugi á því að fá þetta mál upplýst eftir nokkra daga, einhvern tíma í næstu viku, þegar fjölmiðlar hafa um það fjallað dögum saman. Þetta er mál sem varðar Alþingi. Þetta er mál sem nauðsynlegt er að fá upplýst hér á Alþingi nú. Ég vil því skora á hæstv. iðnrh. að uppiýsa Alþingi hér og nú um það í hverju þessi ákvörðun er fólgin, sú ákvörðun sem hann skýrði blaðamönnum frá í dag, hver hafi verið aðdragandi, hvert sé efni hennar og hvernig að henni hafi verið staðið. Ég skora jafnframt á hæstv. forseta að endurskoða afstöðu sína. Ég fer fram á það að hann kveði hér upp rökstuddan úrskurð úr forsetastóli um þá ósk þingflokks Sjálfstfl., sem ég hér ítreka, að þetta mikilvæga mál fáist rætt hér og nú.