01.11.1982
Neðri deild: 6. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

28. mál, málefni aldraðra

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Í sjálfu sér eru það ekki mörg atriði sem þarf að fara orðum um eftir þær umr. sem hér urðu síðast þegar mál þetta var á dagskrá. Þó eru nokkur atriði, sem ég tel nauðsynlegt að við íhugum nokkru nánar, og þá kannske sérstaklega vegna þeirra skoðana, sem komu frá hv. þm. Vestfjarðakjördæmis, og væri þó kannske nóg að geta aðeins um þau orð sem einn þeirra lét falla, hv. 5. þm. Vestf., Ólafur Þ. Þórðarson.

Ég hef sjaldan heyrt aðra eins vitleysu og kom fram í máli hans varðandi það vandamál sem hér er til umr. Og þegar hv. þm. fer að bjóða okkur upp á þær skoðanir sínar, að mál eins og þetta megi gjarnan fara til afgreiðslu í fjvn. Alþingis vegna þess að þar tíðkast ekki kjördæmapot, þá geta nú dottið dauðar lýs af mönnum sem hafa slíkt hjá sér.

En hv. þm. sagði meira. Hann sagði að með þessum skatti, sem innheimtur væri til Framkvæmdasjóðs aldraðra, væri verið óbeint að vinna að því að flytja aldrað fólk nauðungarflutningi hingað, þar sem verið er að byggja hjúkrunarheimili og aðstöðu fyrir sjúki gamalt fólk hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er eins og hv. þm. hafi ekki gert sér neina grein fyrir því, að með því sem verið er að byggja er verið að leysa vanda sem þegar er fyrir hendi. Þetta fólk var þegar komið hingað og ef það sjálft og aðstandendur þess hafa talið sig þurfa að flytja hingað, á þetta svæði, þá hefur það ekki verið vegna þeirra framkvæmda sem eru unnar á vegum Framkvæmdasjóðs aldraðra. Þetta er mikill misskilningur. Það sem er verið að gera hér er að verið er að reyna að leysa úr ekki aðeins vandamáli heldur neyðarástandi. Ég stóð satt að segja í þeirri meiningu, þegar þetta mál fékkst fram með samþykki þm. úr öllum þingflokkum, að menn hefðu gert sér grein fyrir þessu, að þeir hefðu skilið þau neyðaróp sem komu hér af höfuðborgarsvæðinu, ekki aðeins í tugatali heldur í hundraða- og jafnvel þúsundatali, að þeir hefðu rétt upp höndina með því að þessi leið yrði farin vegna þess að þeir skildu að hér var neyðarástand ríkjandi. Og ég get bent þessum hv. þm. á það, að þeir sem búa við þetta neyðarástand ennþá eru ekki aðeins þeir sem eru innfæddir Reykvíkingar eða hafa búið hér um áratuga skeið. Það eru líka þeir sem koma utan af landi. Við getum hins vegar æpt svo lengi sem okkur lystir: Af hverju kemur þetta fólk utan af landi? Af hverju hefur það flust hingað? Ef maður vildi fara í ómerkilegt orðaskak við þennan hv. þm., þá gæti maður sagt sem svo: Jú, Reykjavík er á suðlægari breiddargráðu en Ísafjörður og kjördæmi þessa hv. þm. allt. En það er náttúrlega ekki vegna þess. Vissulega hefur verið hægt að fá betri þjónustu fyrir aldraða hér á þessu svæði en á mörgum stöðum úti um land, m.a.læknisþjónustu, húsnæði og annað. En við skulum ekki gleyma því, að þar sem spítalar eru hafa þeir verið notaðir um allt land fyrir gamalt fólk og vegið á móti því sem við höfum verið að glíma við hér. Við höfum orðið að byggja yfir gamla fólkið fyrir utan okkar spítalastofnanir eftir að farið var að ýta gamla fólkinu þaðan út á jafn harðneskjulegan hátt og við þekkjum til hér í Reykjavík.

Hins vegar hefur aldrei staðið á þeim sem hér hafa byggt í Reykjavik að taka við því gamla fólki sem hefur óskað eftir vistun hér. Ef hv. þm. vill halda því fram, þá er það alrangt. Nei, það sem er verið að gera hér er að ráða fram úr vandamáli. Það er verið að leggja línur um það hvernig við getum brugðist við þessum vanda um allt land, og það er ekkert óeðlilegt þó að kjördæmi þessa hv. þm. sé látið bíða þegar við höfum það í huga, að það er ekkert fyrirhugað um að byggja neinar hjúkrunardeildir yfir aldrað fólk þar.

Vel má vera að þeir hugsi sér það, Vestfirðingar, að geyma sitt aldraða fólk, ef ég má orða það svo, eða skapa því aðstöðu innan veggja hins glæsilega spítala, sem þeir hafa reist nokkuð við vöxt og er í byggingu á Ísafirði. Hins vegar eru þeir með á áætlun hjá sér að byggja húsnæði, sem ég tel að samkv. skilgreiningu laganna muni falla undir það sem heitir húsnæði fyrir aldraða: Ábending hv. þm. Ólafs Þórðarsonar er því réttmæt. Eins og allir geta séð ef þeir skoða IV. kafla, 17. grein, þá vantar þar í fyrirsögn kaflans. Þar ætti að standa: „Húsnæði og dvalarstofnanir fyrir aldraða“ samkv. þeirri skilgreiningu á húsnæði fyrir aldraða sem kemur fram í 1. tölul. A. og B. 17. gr. Það fer ekkert milli mála að það húsnæði fyrir aldraða, sem þar er skilgreint, á að njóta þeirrar fyrirgreiðslu sem Framkvæmdasjóður aldraðra getur um.

Þetta held ég að allir geti skilið. Hitt skilja menn kannske ekki, að það hefur orðið að skera niður nokkuð af því sem ætlað var að gera, ekki aðeins á yfirstandandi ári heldur og á næsta ári líka. Það sem hefur skeð er m.a. það, að í stað 20 millj. kr. tekna, sem ætlað var að mundu koma í sjóðinn af skattheimtunni á þessu ári, litur út fyrir að sú tala verði miklu minni og muni ekki verða nema um 16 millj. Þess vegna hefur því miður orðið að ganga á það framlag og þá hjálp, sem átti að koma til við byggingu B-álmu Borgarspítalans, sem á að verða öldrunarsjúkrahús, á að verða spítali fyrir aldrað fólk, sem við þurfum geysilega mikið á að halda, ekki aðeins til þess að þjónusta gamalt veikt fólk í Reykjavík heldur víðar að, eins og Borgarspítalinn hefur reyndar gert frá því hann tók til starfa.

Ég hef í sjálfu sér ekki, herra forseti, miklu við að bæta það sem ég sagði hér við 1. umr. fram yfir það sem ég hef þegar sagt. Ég hef lýst því yfir að ég styðji frv. eins og það er, hef þó áskilið mér rétt til að flytja eða fylgja brtt., en ég er fylgjandi því að meginefni til. Það eru vissar leiðréttingar og lagfæringar sem þarf að gera. Ég hef í þessari umr. bent á eina. Það hafa verið sendar inn ábendingar um breytingar á frv. Sumar þeirra eiga fullan rétt á sér, aðrar ekki, eins og gengur. Það er ennþá mikill misskilningur uppi um þetta frv. Ég tel að það dragi mikið úr miðstýringu, sem hefur verið uppi í þessum málum og hefur verið ætlað að hafa í þessum málum. Það hefur verið flutt bæði til sveitarfélaganna sjálfra og sjálfseignarstofnananna meira frelsi en þau hafa búið við til þessa, þannig að sá ótti manna bæði hér í Reykjavík og annars staðar, að verið sé að þoka málum frekar í miðstýringarátt heldur en verið hefur, er á misskilningi byggður. En öllum hlýtur að vera ljóst að einhvers staðar þarf að vera saman kominn einhver toppur, sem gerir áætlanir um hvar og hvernig því fé sé best varið sem fer til umráða í sambandi við úrlausn þessara mála.