11.02.1983
Neðri deild: 37. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1873 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

Um þingsköp

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Það má vel vera að hæstv. forseti láti það ráða gjörðum sínum í þessu máli að hæstv. iðnrh. segist ekki vera reiðubúinn að svara hér á Alþingi því sem hann hefur verið að skýra frá á blaðamannafundi fyrr í dag. En við þm. látum okkur þetta ekki lynda, það er alveg á hreinu. Og þó að hæstv. forseti láti sér þetta duga, þá ítreka ég það að við þm. viljum fá ráðh. til að skýra frá þessu máli hér á þinginu nú. Reyndar voru fleiri ráðherrar spurðir en hæstv. iðnrh. hér af hv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni. Hann spurði hvort öll ríkisstj. stæði að þessum gjörðum og hann spurði einstaka ráðherra hvort þetta væri gert með þeirra vitund og vilja, þannig að hér er ekki bara hæstv. iðnrh. krafinn sagna.

Það virðist vera töluverður munur á því hvort bréf kemur frá þingflokki Framsfl. til hæstv. forseta, að vísu ekki þess sem nú situr í forsetastóli, eða hvort það er þingflokkur sjálfstæðismanna sem óskar eftir því að tiltekið mál sé tekið á dagskrá. Þegar bréfið kom frá formanni þingflokks Framsfl. til hæstv. forseta Sverris Hermannssonar, þá var orðið við þeirri beiðni, svo óeðlilega sem að henni var þó staðið. En þegar þingflokkur sjálfstæðismanna biður um að svo mikilvægt mál sem þetta sé tekið á dagskrá, þá er ekki hægt að verða við því. Röksemdir hæstv. forseta eru alveg gersamlega ómögulegar. Í fyrsta lagi þetta, að umr. um mál sem stendur yfir sé rofin. Það sé eitthvað óeðlilegt við það. Það fer að sjálfsögðu eftir mikilvægi málsins sem við viljum hér fá á dagskrá. Og ég vil sjá framan í þann þm. sem telur hér vera á ferðinni eitthvert minni háttar mál. Ég held að það hljóti að vera aðrir í þeim hópi en hæstv. iðnrh. og hæstv. forseti.

Ég veit ekki hvort hæstv. forseti hefur tekið á ákvörðun einn og óstuddur að neita þessum umr. Ég leyfi mér satt að segja að draga það í efa, því þeir hafa setið til skiptis við hliðina á honum, hæstv. forsrh. og formaður þingflokks Framsfl. Ég hef lúmskan grun um að þessir tveir, hv. þm. og hæstv. ráðh., hafi haft þarna einhver áhrif. Ég tek undir kröfu formanns þingflokks Alþfl. og ósk um að þetta mál verði tekið til umr. hér og nú. Við gætum fallist á að það yrði ekki fyrr en kl. 18, ef það yrði til þess að greiða fyrir samkomulagi í þessu máli. — [Fundarhlé.]