11.02.1983
Neðri deild: 37. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1874 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. á þskj. 277 við 4. gr. frv. til l. um efnahagsaðgerðir.

Áður en ég vík að því vil ég þó í örstuttu máli svara fsp. hv. 4. þm. Reykv., fsp. sem hann beindi til mín í umr. um dagskrármálið í fyrri viku. Hv. þm. spurði hvort og þá hvers vegna ég hefði breytt um afstöðu til brbl. ríkisstj. frá því sem lesa mætti út úr viðtali við mig í Morgunblaðinu í nóv. s. l.

Í fyrsta lagi er frásögn Morgunblaðsins af viðtalinu, sem fram fór úti á götu, ónákvæm. Ég notaði t. d. aldrei orðin að hjakkast áfram eða skrölta áfram þegar ég talaði um hæstv. ríkisstj. Í öðru lagi voru ástæður þá, þegar viðtalið fór fram, allt aðrar en nú. Þá voru í gangi viðræður formanns Alþfl. við ríkisstj., sem gengu m. a. út á tímasetningu væntanlegra kosninga og hugsanlega aðstoð Alþfl. við afgreiðslu nauðsynlegustu þingmála, þar með talin brbl. Spurningu Morgunblaðsins um það hvort Alþfl. væri að ganga í eina sæng með ríkisstj. svaraði ég efnislega þannig, að hugsanlegt væri að semja um afgreiðslu nauðsynlegustu þingmála, þótt alls engar hugmyndir væru uppi um það að Alþfl. gengi inn í ríkisstj. eða neitt í þá áttina. Aðstæður nú eru allt aðrar. Nú eru engar viðræður í gangi um afgreiðslu nauðsynlegustu þingmála og hæstv. ríkisstj. hefur alveg nýlega hafnað tilboði sem gengur í þá átt. Það er reyndar engu líkara en hæstv. ríkisstj. vilji sjálf fyrir alla muni að brbl. verði felld. Aðstæður nú eru því gerólíkar þeim sem voru í nóv. s. l.

Að öðru leyti vil ég segja það um málflutning hv. 4. þm. Reykv. í þessu máli og öðrum, að auðvelt væri að lifa ef unnt væri að leysa flókin vandamál með einföldum og ódýrum frösum.

Herra forseti. Brtt. mín gengur að því leyti í sömu átt og brtt. hæstv. sjútvrh. á þskj. 255, að í báðum tilvikum er gert ráð fyrir að létta undir með fiskiðnaðinum, en að öðru leyti eru þær ólíkar.

Meiri hluti þess gengishagnaðar sem ráðstafað var í efnahagsráðstöfunum ríkisstj. frá 23. ágúst s. l. var vegna skreiðarbirgða sem ekki seljast. Og aftur nú um áramótin vega skreiðarbirgðirnar þungt í bjargráðunum. Á sama tíma eru fyrirtækin, sem eiga skreiðina, að sligast undan vöxtum á lánum sem á skreiðinni hvíla. Hvað eftir annað er væntanlegur gengishagnaður af óseldri skreið gerður upptækur fyrir fram og slegin út á hann lán til að fleyta áfram rekstri þeirra útgerðarfyrirtækja sem dýpst eru sokkin í skuldafenið.

Á sama tíma versnar ástandið í Nígeríu stöðugt og þar með vex óvissan um sölu skreiðarinnar. Norðmenn styrkja sína framleiðendur með hundruðum millj. kr. á sama tíma og íslenskir skreiðarframleiðendur eru rændir hvað eftir annað. Fullvíst er talið að Norðmenn hafi um langt skeið boðið sína skreið á lægra verði en sem nemur þeim viðmiðunarverðum sem til þessa hafa verið talin í gildi og allt bendir til þess að við verðum að veita verulegan afslátt frá þeim verðum þegar til sölu kemur.

Útflutningsgjöld af skreið verða á árinu 1983 væntanlega þessi umfram þau venjulegu 5.5% útflutningsgjöld af sjávarafurðum: 1. Vegna Olíusjóðs 4%. 2. Í svokallaðan verðreikning 6%. 3. Sérstakur gengismunur frá 1982 5.22% og aftur sérstakur gengismunur frá 1982 4.8% eða m. ö. o. 21.6%. Ef við bætum svo þessu venjulega 5.5% útflutningsgjaldi við, þá er um að ræða 28.2% útflutningsgjald af skreið. Nær allar skreiðarbirgðirnar eru á Nígeríusvæðið og því mun enn dragast frá 5% verðjöfnunargjald vegna skreiðar sem fara kann til annarra landa en Nígeríu. Þetta dæmi allt er orðið svo flókið að ekki er á færi annarra en sérfræðinga að fá botn í það. Ég bendi því þeirri nefnd sem um málið kann að fjalla á að fá á sinn fund sérfræðing Seðlabankans í þessum efnum, Ísólf Sigurðsson. Engan sérfræðing þarf þó til að sjá að hér er allt of langt gengið og því full ástæða til að verja þeim afgangi af gengismun, sem nú er rætt um, til að létta vaxtabyrði þeirra fyrirtækja sem skreiðarbirgðirnar eiga eða hafa að undanförnu selt skreið með löngum greiðslufresti.

Hæstv. sjútvrh. vill að hans rn. úthluti þessu fé, þessum hluta gengishagnaðar, í illa stæð fyrirtæki í fiskiðnaði. Hann vill í reynd skattleggja sölu skreiðar fyrir fram og taka lán út á þá skattlagningu og færa fé til þeirra fyrirtækja sem hann sjálfur telur hjálpar þurfi, óháð því hvort þau eru skreiðarframleiðendur eða ekki. Ég tel aftur á móti að mjög hæpið sé, og er þá vægt til orða tekið, að skattleggja skreiðarframleiðendur fyrir fram á meðan við vitum hvorki hvenær skreiðin selst né fyrir hvaða verð.

Með brtt. sinni er hæstv. sjútvrh. að búa til óraunhæfan gengishagnað, slá lán út á hann til aðstoðar fyrirtækjum holt og bolt eftir eigin ákvörðunum. Ég tel að gengishagnað vegna skreiðarbirgða, ef um hann er yfirleitt hægt að tala, eigi að nota eftir ákveðnum reglum til aðstoðar skreiðarframleiðendum sjálfum. Þaðan kemur þessi vægast sagt óraunhæfi gengishagnaður og þar á hann að vera á meðan engin skreið selst og erfiðleikarnir eru þar mestir. Þegar og ef við getum selt skreið til Nígeríu á því viðmiðunarverði sem hingað til hefur verið notað við útreikning gengishagnaðar, þá er nægur tími til að klófesta og ráðstafa því fé sem eftir kann að verða af gengishagnaði vegna skreiðarbirgða.

Hitt er svo allt annað mál, að auðvitað eru mörg fyrirtæki í fiskiðnaði illa stödd þótt þau hafi ekki framleitt skreið að ráði. Mörg þeirra þurfa á aðstoð að halda og sjálfsagt er að styðja hæstv. sjútvrh. í að finna skynsamlegar leiðir til þess. En til þess þurfum við raunhæfari leiðir en gert er ráð fyrir í brtt. hæstv. ráðh.

Herra forseti. Mínar brtt. eru í tveim liðum. Fyrri liðurinn er um breytingu á 5. tölul. 4. gr. og orðast svo með leyfi hæstv. forseta:

„Kr. 30 millj. renni í Stofnfjársjóð fiskiskipa til lækkunar á skuldum og/eða fjármagnskostnaði fiskiskipa, samkv. reglum sem sjútvrh. setur, að höfðu samráði við stjórn Fiskveiðasjóðs Íslands og Landssamband ísl. útvegsmanna.“

Samkv. upphaflega frv. er ekkert hámark á því sem renna á í Stofnlánasjóð fiskiskipa til niðurgreiðstu á skuldum og fjármagnskostnaði vegna nýrra fiskiskipa. Samkv. brtt. hæstv. sjútvrh. er þessi upphæð takmörkuð við 40 millj. Í brtt. minni er hún takmörkuð við 30 millj.

Seinni liður brtt. minnar er þannig með leyfi forseta:

„Á eftir 5. tölul. 4. gr. komi nýr liður, sem verði 6. tölul., svohljóðandi:

Eftirstöðvar, þar með taldir vextir, fari til greiðslu fjármagnskostnaðar vegna skreiðarbirgða samkv. reglum sem Seðlabankinn setur í samráði við viðskiptabanka skreiðarframleiðenda.“

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.