11.02.1983
Neðri deild: 37. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (1628)

Um þingsköp

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég hygg að ég hafi misskilið ummæli forseta hér áðan. Mér skildist á hæstv. forseta að hann væri að gefa í skyn að fundi yrði ekki slitið kl. 7. Ber að skilja það svo? (Forseti: Ég hef nú ekki vanist því að fram færi beint samtal á milli mín og þm. Þau eru yfirleitt ekki leyfð. En vegna þess hversu mikill ágætismaður er hér á ferðinni, þá get ég endurtekið það sem ég sagði, að ég vissi ekki til þess að ákveðið hefði verið að hætta þessum fundi kl. 7.) Ber að skilja það svo, að hæstv. forseti haldi því fram, að hann ætli ekki einu sinni að fresta fundi kl. 7? (Forseti: Mér er ekki kunnugt um hvenær stendur til að ljúka þessum fundi, það er ekki fullljóst enn.) Ég verð nú að segja að það er mikill söknuður að 1. forseta deildarinnar eins og málum er komið. Klukkuna vantar 10 mínútur í 7 og hæstv. 2. forseti hefur ekki enn gert upp við sig hvernig hann ætlar að standa að málum. Þetta er fullmikill losarabragur þykir mér. (Forseti: Ég get upplýst hv. þm. um það, að hæstv. 1. forseti deildarinnar hefur ekki meiri hugmynd um þetta en ég á þessu stigi, en fær sjálfsagt mjög fljótlega fréttir af því.)