11.02.1983
Neðri deild: 37. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1890 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Það þarf engan að undra þó að þm. vilji ræða nokkuð ítarlega efnahagsmál nú, þegar brbl. hæstv. ríkisstj. eru hér til umr. og afgreiðslu. Þó að þessi lög séu bæði rýr að efni og áhrifum, þá er það nú svo að ekkert annað hefur heyrst frá þessari ríkisstj. varðandi efnahagsmál á þessu þingi og þess er greinilega ekki að vænta, að nein frekari frumvörp eða neinar frekari aðgerðir í efnahagsmálum verði boðaðar. Þess vegna er það skiljanlegt og þarf engum að koma á óvart þó að þm. vilji fara yfir hina mörgu þætti efnahagsmálanna hér við þessa umr. og fá svör við ýmsum spurningum sem liggja mönnum á hjarta.

Eitt grundvallaratriðið í stefnu hæstv. ríkisstj. var að takast af alvöru á við þann mikla efnahagsvanda sem að okkur hefur steðjað. Í því efni er verðbólguvandinn að sjálfsögðu yfirgnæfandi. Í upphafi vantaði ekki fögur orð. 1. liður stjórnarsáttmáls er svohljóðandi með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. mun vinna að hjöðnun verðbólgu, þannig að á árinu 1982 verði verðbólgan orðin svipuð og í helstu viðskiptalöndum Íslendinga“, en það er nú um það bil 10%. Við vitum að því fer fjarri að þessu marki hafi verið náð, enda hafa allar efnahagsaðgerðir hæstv. ríkisstj. einkennst af bráðabirgðaaðgerðum. Þær fáu aðgerðir sem gripið hefur verið til einkennast allar af því að menn hafa verið að reyna að bjarga sér fyrir horn, að reyndar hafa verið aðgerðir sem einungis eiga að duga í stuttan tíma, jafnvel aðeins til loka hvers vísitölutímabils.

Þá kom annað atriði einnig mjög fljótt í ljós þegar hæstv. ríkisstj. hafði verið mynduð og eftir að hún fór að starfa. Það var að tveir stærstu aðilar ríkisstj., Alþb. og Framsfl., gengu óvenju freklega á gefin kosningaloforð. Við þekkjum öll kjörorð Alþb. um „samningana í gildi“ og að verðbótavísitala yrði ekki skert. Allir vita hvernig það loforð hefur verið efnt. Við minnumst líka loforða Framsfl. um að telja niður verðbólguna, að ná tökum á hinum mikla vanda sem verðbólgan er með því að telja hana niður. (Forseti SvH: Á hv. ræðumaður langt eftir af ræðu sinni?) Já, herra forseti, ég á æðilangt eftir af ræðu minni. (Forseti: Nú er mjög liðið á þennan fundartíma. Gæti hv. ræðumaður hugsað sér að fresta henni?) Ég er reiðubúinn til þess, hæstv. forseti. — [Frh. ]