14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1893 í B-deild Alþingistíðinda. (1634)

Tilhögun þingfunda

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Eins og hv. þdm. sjá höfum við sem mest að vinna. 26 mál eru á dagskrá og hafa sum verið ærið lengi og þm. gerst órólegir að koma þeim fyrir. Nú verður haldið fram 2. umr. um 1. dagskrármálið, efnahagsaðgerðir. Eins og ég gat um í lok síðasta fundar hef ég ástæðu til að ætla að gott samkomulag verði um lokaafgreiðslu þessa máls hér í hv. deild. Það mun þó, miðað við mælendaskrá, e. t. v. taka ærinn tíma. En ég minni á að samkv. þingsköpum er þess kostur að stytta þá umr. ef meiri hl. hv. deildar samþykkir að svo skuli gert. Það er mér þó ákaflega óskapfellt, að ekki sé meira sagt, að grípa til þeirra ráða og ítreka ég þess vegna eindregna og einlæga beiðni mína um góða samvinnu að þessu leyti.

Fundur mun standa til kl. 4. Þá verður gefið hlé vegna þingflokksfunda. Fundur hefst aftur að nýju kl. 6 og mun standa til kl. 7, og eins og nú standa sakir er hér um bil víst að kvöldfundur verði boðaður kl. 9. Ég vil ennfremur upplýsa að áformað er að breyta nokkuð til um fundahald á morgun á þann veg, að eins og nú standa sakir er áformað að deildarfundur í Nd. Alþingis hefjist kl. 1 á morgun og síðar í Sþ. þar sem utandagskrárumræður eru áformaðar vegna álmáls og enn þar á eftir í Sþ. um vegáætlun. Allt eru þetta áform. Svo er að sjá hvernig okkur tekst til um framkvæmdina, en hún fer ekki skaplega úr hendi nema gott samkomulag og samlyndi verði á hinu háa Alþingi og er nú ástæða til að ætla að svo verði.