14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1893 í B-deild Alþingistíðinda. (1635)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Birgir Ísl. Gunnarsson (frh.):

Herra forseti. Áður en ég held áfram þar sem frá var horfið á föstudagskvöldið var vil ég aðeins gera að umtalsefni sérstakar ásakanir, sem bornar hafa verið fram á þingflokk sjálfstæðismanna, ekki síst formann flokksins og formann þingflokksins, af hæstv. forsrh. í sjónvarpsviðtali á föstudagskvöldið var. Hann hafði um það stór og þung orð, að Sjálfstfl. hefði gert allt sem hann hefði getað til að tefja framgang þessa máls og jafnvel beitt til þess óþinglegum aðferðum. Ég vil alfarið mótmæla þessum ummælum hæstv. forsrh. Það þarf engum að koma á óvart þó að fram fari ítarleg umr. á hv. Alþingi um efnahagsmál í tengslum við afgreiðslu þessara brbl.

Þetta eru í raun og veru einu aðgerðirnar sem hæstv. ríkisstj. hefur á þessu þingi lagt fram til lausnar okkar efnahagsvanda, svo haldmiklar sem þær eru. Þess vegna þarf það ekki að koma neinum á óvart, og raunar þarf enginn að biðja afsökunar á því sem finnur sig knúinn til að standa hér upp, að ræddir séu hinir ýmsu þættir efnahagsmálanna í sambandi við afgreiðslu þessa máls.

En við skulum þó athuga, vegna þeirra ásakana sem fram hafa verið bornar, hverjir það eru fyrst og fremst sem hafa talað í þessu máli við 2. umr. í hv. Nd. Umr. hófst að venju með því að frsm. nál. fluttu sínar ræður, en þeir voru þrír, þar sem þrjú nál. lágu fyrir í þessu máli. Eftir að þeim ræðum lauk hafa talað í þessu máli fjórir hv. þm. Alþfl. og einn hv. þm. Sjálfstfl. Ég er næstur þeirra sjálfstæðismanna sem taka til máls um þetta mál. Þannig er alts ekki hægt að halda fram að við þm. Sjálfstfl. höfum hingað til tafið umr. í þessu máli.

Ég vil líka benda á að þessi umr. hefur verið rofin hvað eftir annað fyrir tilstilli hæstv. ríkisstj. Umr. var t. d. rofin þegar hæstv. ríkisstj. taldi sig þurfa að koma fram frv. um olíugjald, sem hér var til meðferðar og var skotið inn í umr. um brbl. Hér var líka s. l. miðvikudag utandagskrárumr., sem fór fram fyrir frumkvæði þm. Alþfl. og hæstv. iðnrh. tók þátt í, en okkur sjálfstæðismönnum var hins vegar meinuð utandagskrárumr. um brýnt mál s. l. föstudag. Það er því sama hvernig á þetta mál er litið. Því fer fjarri og við í þingflokki sjálfstæðismanna vísum því alfarið á bug að við höfum haft uppi nokkra tilburði til að tefja þetta mál á hv. Alþingi.

Ég hafði rétt byrjað ræðu mína á föstudagskvöld þegar umr. var slitið og hafði vikið nokkuð að upphafi þessarar ríkisstj. og loforðum hennar í efnahagsmálum og þá ekki síst því loforði, sem hún gaf, að vinna að hjöðnun verðbólgu þannig að verðbólgan yrði komin niður í sama stig og í helstu viðskiptalöndum okkar Íslendinga árið 1982, en það er um það bil 10%, eins og allir þekkja. Ég hafði líka rifjað upp nokkuð kosningaloforð, bæði Alþb. og Framsfl., og sýnt fram á hve haldlítil þau voru og hve þessir flokkar hafa með óvenjufreklegum hætti gengið á þau loforð sem þeir gáfu kjósendum við tvennar síðustu kosningar, bæði 1978 og 1979. Ég vil hins vegar nú víkja að nokkrum þáttum efnahagsmálanna og þá fyrst vekja athygli á því, að á síðustu tveimur árum höfum við Íslendingar haft óvenjugóð tækifæri til að koma okkar efnahagsmálum í lag og treysta grundvöll atvinnulífsins.

Þó að nokkuð bjáti nú á í aflabrögðum og í markaðsmálum hefur frá árinu 1978 orðið gífurleg aukning hér á landi í framleiðslu sjávarafurða. Ef miðað er við fast verðlag jókst framleiðsla sjávarafurða okkar um 27% á árunum 1979 og 1980. Ástæðan er auðvitað fyrst og fremst aukinn afrakstur vegna útfærslu fiskveiðilandhelginnar í 200 mílur, sem gerð var undir forusta sjálfstæðismanna eins og kunnugt er. Aukning sjávarvöruframleiðslunnar var nokkru hægari árið 1981, en engu að síður var það gott aflaár og það ár var metaflaár í sögu þessarar þjóðar.

Nú kann einhver að spyrja: Hvað hefur orðið af þessum miklu auknu verðmætum? Ég skal aðeins skýra það örlítið betur með samanburði hve aukningin hefur verið mikil frá árinu 1977. Ef við setjum framleiðsluna í 100 til að fá hlutfallslega viðmiðun var hún 108 árið 1978, 121 árið 1979, 134 1980, 135 1981, en spáin varðandi 1982 hefur legið á bilinu 108–119. Þetta á við um framleiðsluverðmætið á föstu verðlagi, en ef aukning framleiðslunnar og hækkun á söluverði erlendis er lagt til grundvallar hefur þessi verðmætisaukning numið 76.2% á árunum 1978–1981. Og nú kunna menn að spyrja: Hvað hefur orðið af þessari miklu verðmætisaukningu, sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir? Hefur þessi verðmætisaukning komið fram í aukinni þjóðarframleiðslu á hvern íbúa? Hefur þessi mikla aukning komið fram í því, að grundvöllur atvinnulífsins hafi verið treystur og hafin verið ný sókn til átaka á atvinnusviðinu eða í bættri afkomu fyrirtækja? Hefur þessi mikla verðmætisaukning komið fram í því, að við Íslendingar greiddum upp eða grynntum á erlendum skuldum? Hefur hún komið fram í lækkun skatta á öllum almenningi eða auknum kaupmætti almennings? Svarið við öllum þessum spurningum er nei. Þessi verðmætisaukning hefur brunnið upp á verðbólgubálinu eða farið niður í eyðsluhít ríkisins.

Við skulum aðeins fara um þetta nokkrum frekari orðum og rifja upp nokkur dæmi um hvernig ástandið er í þessum málum. Víkjum fyrst að þjóðarframleiðslunni. Þjóðarframleiðsla á mann hefur farið minnkandi undanfarin ár. Hún stóð reyndar í stað á árinu 1981, en á síðasta ári minnkaði hún um 4.5–5% og því er spáð að hún muni enn fara minnkandi á þessu ári. Sú staðreynd blasir því við. að þau gífurlegu verðmæti, sem ausið hefur verið upp úr auðlind okkar fiskimiða, hafa runnið út í sandinn.

Þegar árin 1980 og 1981 eru skoðuð sérstaklega vekur það athygli að viðskiptakjör haldast verulega í horfinu á þessu tímabili vegna hækkunar á verði dollarans á alþjóðlegum gjaldeyrismarkaði. Á þessum fyrstu stjórnarárum núv. hæstv. ríkisstj. hefur því þjóðarbúið notið sérstaklega góðra ytri skilyrða.

En hefur þessi verðmætisaukning þá ekki komið fram í því að kaupmáttur launa hafi aukist í landinu? Við skulum huga örlítið að því. Í fyrsta lagi er rétt að benda á sérstaklega að gefnu tilefni og þá með það í huga að Alþb. gekk til kosninga 1978 með kjörorðið „samningana í gildi“ og að aldrei skyldu skertar verðbætur á laun, að Alþb. hefur síðan það kom í ríkisstjórn árið 1978 beitt sér 13 sinnum fyrir því að verðbætur hafa verið skertar á laun. Samtals nema þessar verðbætur nálægt um 50%. Oft hefur átt að bæta þessar verðbætur upp með svokölluðum félagsmálapökkum eða almennum yfirlýsingum, sem þó hafa meira og minna runnið út í sandinn. Flestar aðgerðir í efnahagsmálum frá því að ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar tók við í sept. 1978 hafa beinst að skerðingu verðbóta á laun. Sáralitið annað hefur verið gert og því fer fjarri að reynt hafi verið að taka á hinum mörgu þáttum efnahagsmála af þeirri festu sem nauðsynleg er.

Ef litið er á kaupmátt launa sérstaklega jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna lítillega árið 1981, og þá nota ég hugtakið kaupmáttur ráðstöfunartekna. sem Alþb. er mjög tamt að nota, vegna aukinnar yfirvinnu og bónusgreiðslna, þ. e. vegna aukins vinnuálags. Í fréttabréfi Kjararannsóknarnefndar. nr. 53 frá nóv. 1981, segir svo um þetta, með leyfi forseta:

„Meðaltímakaup verkamanna í úrtaki nefndarinnar hækkaði um 64.6% á tímabilinu frá 2. ársfjórðungi 1980 til 2. ársfjórðungs 1981. Hér gætir, svo sem áður er rakið, aukinna bónusgreiðslna, en einnig gætir áhrifa af lengingu vinnutíma, og hann hefur ekki verið lengri síðan á 3. ársfjórðungi ársins 1979.“

Af þessu má sjá, að þegar Alþb. reynir að halda því fram að kaupmáttur hafi aukist í landinu er það kaupmáttur ráðstöfunartekna, þ. e. kaupmáttur sem stafar af því að fólk hefur lagt á sig meiri yfirvinnu ýmist vegna þess að unnir hafa verið fleiri yfirvinnutímar eða verið aukinn bónus á hinum ýmsu vinnustöðum. Ef hins vegar er litið á kauptaxtana sjálfa og kaupmátt þeirra, sem eru að sjálfsögðu eðlilegasti mælikvarðinn, hefur kaupmáttur kauptaxta lækkað. Hann lækkaði árið 1980 frá árinu áður um 4.9% og hann lækkaði árið 1981 um 1.9%. Það er talið að hann hafi staðið nokkurn veginn í stað á síðasta ári, en því er spáð að hann muni lækka um 7% á árinu 1983.

Kaupmáttur elli- og örorkulífeyris hefur farið stöðugt lækkandi allt þetta tímabil. Það er rétt að hafa í huga að Alþb. hefur haft félmrh. allt þetta tímabil. Þrátt fyrir að Alþb. vilji sérstaklega láta líta á sig sem forustuflokk í tryggingamálum og sem forustuflokk í málefnum aldraðra og öryrkja hefur kaupmáttur elli- og örorkulífeyris farið stöðugt minnkandi undir forustu þessa flokks allan þann tíma sem þessi flokkur hefur verið við völd. Árið 1980 minnkaði kaupmáttur elli- og örorkulífeyrisþega um 5.2%, árið 1981 um 1.6%, árið 1982 um 2.4% og því er spáð að hann muni minnka árið 1983 um 7%. Þetta eru að sjálfsögðu athyglisverðar staðreyndir. Við sjáum a. m. k. á þessum tölum að sú mikla verðmætisaukning, sem þjóðarbúinu hlotnaðist á árunum 1980 og 1981, hefur ekki farið í það að auka kaupmátt almennings í þessu landi.

Hvað þá með skattheimtuna? Hefur ekki verið hægt að nota eitthvað af þessum auknu verðmætum. sem inn hafa komið í þjóðarbúið, með því að minnka skatta á almenningi? Við skulum aðeins líta á það.

Þessi ríkisstj., sem nú hefur setið, og forveri hennar, ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar, sem sat 1978–1979, hafa sýnt alveg einstaka hugvitssemi í því að finna upp nýja skatta á almenning. Skattar til ríkisins hafa hækkað í tíð núv, ríkisstj. um 3.1% af þjóðarframleiðslu, sem jafngildir 960 millj. kr. á verðlagi fjárlagafrv. fyrir árið 1983, en sú upphæð nemur 28 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu. Þessi ríkisstj. átti þriggja ára afmæli, eins og menn muna, fyrir stuttu. Á þremur árum hefur hæstv. ríkisstj. hækkað skatta sem nemur 28 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu.

Ríkisútgjöldin hafa þanist enn meira út en sem nemur skattahækkuninni. þar sem framkvæmdaframlög og framlög til eignaauka hafa verið skorin verulega niður að raungildi. Þrátt fyrir þetta væri ríkissjóður rekinn með stórfelldum halla ef eyðsluskuldasöfnun erlendis kæmi ekki til. Áætlað er að ríkissjóður hafi haft umframtekjur vegna óvenjulegrar innflutningseftirspurnar á árinu 1981 og það sem af er á árinu 1982 sem nemur um 800 millj. kr. Hér er auðvitað um að ræða eina afleiðingu af stefnunni í gengismálum. Þessi stefna í ríkisfjármálum dregur augljóslega mjög úr svigrúmi ríkissjóðs til að hlaupa undir bagga með skattalækkunum á tíma samdráttar og þverrandi lífskjara nema til komi alger uppstokkun ríkisfjármála og gerbreytt stefna á þessu sviði. Og það er mikil nauðsyn á að gerbreytt verði um stefnu á sviði ríkisfjármálanna.

Ef við lítum á skatta til hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga, sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, þá hefur þetta hvort tveggja farið hækkandi, eins og ég gat um áðan, en til frekari skýringar er rétt að geta þess, að skattar til ríkisins voru á árinu 1978 26.3% af þjóðarframleiðslu, árið 1979 27.6%, árið 1980 28.8%, 1982 30.7%. Til sveitarfélaga voru skattarnir árið 1978 6.4%, en eru nú komnir upp í 7.4%. Hafa sem sagt hækkað frá árinu 1978 úr 32.7%, bæði skattar ríkis og sveitarfélaga, í 38.1%.

Af þessu yfirliti má sjá, að sú mikla verðmætisaukning, sem lögð var í þjóðarbúið og við fengum í okkar hlut á síðustu árum í tíð þessarar ríkisstj., hefur ekki farið í að létta sköttum af almenningi, þvert á móti.

En hvað þá með erlendar skuldir? Hafa menn ekki notað tækifærið, þegar svo mikil verðmætisaukning varð í þjóðarbúinu, til þess að grynnka eitthvað á okkar erlendu skuldum og til að greiða niður hluta af því sem við skulduðum áður? Við skulum aðeins líta á það.

Erlendar lántökur hafa aukist gífurlega frá árinu 1978. Þar kemur einkum tvennt til. Í fyrsta lagi hefur innlendur heildarsparnaður minnkað og hlutur erlends lánsfjár aukist í fjármögnun framkvæmda. Í annan stað, og það er e. t. v. alvarlegra, hefur eyðslu- og óreiðuskuldasöfnun erlendis aukist og það svo mjög að heildarskuldasöfnun þjóðarinnar, þrátt fyrir minnkandi fjárfestingu, einkum í stóriðju og virkjunarframkvæmdum, er komin á hættumörk. Heildarlántökur erlendis í formi langra erlendra lána munu um áramótin 1982 nema 16 500 millj. kr. Þessi lán voru í árslok 1977 8700 millj. kr. reiknað á sama gengi. Aukningin er því 7800 millj. kr. eða um 90%. Eyðslu- og óreiðuskuldasöfnun erlendis hefur aukist feikilega síðustu árin. Það færist í vöxt sá ósiður að tekið sé lán erlendis til að halda atvinnuvegunum gangandi og til að fjármagna rekstur ýmissa fyrirtækja í opinberum rekstri. Um það hefur enginn ágreiningur ríkt meðal stjórnmálaflokkanna hér á hv. Alþingi að það sé eðlilegt og sjálfsagt að taka erlend lán til arðbærra framkvæmda, að taka erlend lán til virkjanaframkvæmda t. d. eða til hitaveituframkvæmda svo að eitthvað sé nefnt, til framkvæmda sem skila þjóðarbúinu arði, styrkja stöðu þjóðarbúsins og gera okkur betur hæf en ella til að greiða niður skuldir okkar. En að taka lán í jafnríkum mæli og gert hefur verið til að standa undir taprekstri ýmissa fyrirtækja, bæði opinberra og í einkarekstri, er að sjálfsögðu forkastanleg fjármálastefna.

Mér býður í grun, að þegar saga þessarar ríkisstj. verður skoðuð verði það talinn hennar stærsti glæpur, ef svo má segja, hennar alvarlegasti áfellisdómur, að hafa stofnað til erlendra skulda í jafnríkum mæli og orðið hefur. Með því er verið að ýta vandamálunum frá nútíðinni yfir á framtíðina. Með því eru getulaus stjórnvöld að velta byrðunum, sem við ættum að bera, yfir á börn okkar. Mörg opinber fyrirtæki hafa þurft að taka erlend lán og ríkisstj. hefur bent á að taka erlend lán til að standa undir beinum hallarekstri. Ég nefni Rafmagnsveitur ríkisins, ég nefni ýmsar rafveitur sveitarfélaga, ég nefni Sementsverksmiðju ríkisins, ég nefni Járnblendiverksmiðjuna, ég nefni Kísilgúrverksmiðjuna og ég nefni Siglósíld. Öll þessi fyrirtæki hafa tekið erlend lán í stórum stíl til að standa undir taprekstri. Að auki hefur viðskiptahalli okkar við erlend lönd verið hrikalegur. Reiknað er með að á árinu 1981 og 1982 hafi hann verið samtals u. þ. b. 5000 millj. kr. á verðlagi ársins í ár. Það er upphæð sem nemur tæplega 17% af þjóðarframleiðslu á þessu ári. Það er því engin furða þótt hæstv. fjmrh. hafi séð sérstaka ástæðu til þess í grein í Þjóðviljanum, sem hann ritaði í sumar, að segja: „Við erum óneitanlega að sökkva á kaf í ískyggilegri skuldasöfnun.“

Hæstv. fjmrh. kom auka á þetta strax í sumar. En hvernig hefur hann brugðist við? Hefur hann ekki leitast við að stöðva söfnun erlendra skulda og snúa þessu dæmi við? Því fer fjarri. Ríkisstj. heldur áfram dag frá degi að stofna til erlendra skulda og heldur með því gangandi atvinnulífinu. Það er augljóst að slíkt getur ekki gengið til lengdar.

Ef við tökum nettóstöðu erlendra lána í prósentum af þjóðarframleiðslu hefur hún breyst þannig frá árinu 1978: Árið 1978 var hún 32% af þjóðarframleiðslu, 1979 32%, 1980 31.8%, 1981 33.7%, reiknað er með að á árinu 1982 hafi hún verið um 44% og því er spáð nú af hálfu Seðlabanka að þessi tala verði 47.5% á árinu 1983. Það er athyglisvert að ríkissjóður, ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki hafa aukið mjög lántökur sínar erlendis á síðari árum. Þær hafa aukist úr 5 640 millj. kr. 1978 í 8 596 millj. kr. í árslok 1981 eða um 52% á föstu gengi reiknað. Viðskiptabankar og fjárfestingalánasjóðir hafa aukið mjög lántökur sínar erlendis á þessu tímabili. Stafar sú erlenda lántaka m. a. af niðurskurði á framlögum ríkissjóðs til fjárfestingalánasjóðanna. Greiðslubyrði erlendra lána hefur og farið mjög vaxandi á síðustu árum. Það leiðir að sjálfsögðu af eðli máls þegar skuldirnar hækka jafngífurlega og raun ber vitni. Að hluta stafar þetta af hærri vöxtum á alþjóðlegum peningamarkaði, en er að sjálfsögðu líka vegna hinnar auknu lántöku. Greiðslubyrði langra erlendra lána er áætlað að verði á næsta ári um 25% af útflutningstekjum að lágmarki. en þessi greiðslubyrði var 13.7% á árinu 1977.

Um þetta atriði sagði í stjórnarsáttmálanum, sem lesinn var yfir okkur á hv. Alþingi fyrir þremur árum, loforð ríkisstj. til þjóðarinnar:

„Erlendar lántökur verði takmarkaðar eins og kostur er og að því stefnt, að greiðslubyrði af erlendum skuldum fari ekki fram úr u. þ. b. 15% af útflutningstekjum þjóðarinnar á næstu árum.“

15% var reynt að miða við af hálfu ríkisstj. á árinu 1980, þegar þessi hæstv. ríkisstj. var mynduð. Nú er greiðslubyrðin komin upp í 25% að lágmarki og er líklegt að hún hækki að mati Seðlabankans.

Sannleikurinn er sá, að hinar erlendu skuldir okkar eru einhver ljótasti og dekksti bletturinn á efnahagsstjórn undanfarinna ára. Það er því engin furða þó að Seðlabankinn geri þetta að sérstöku umtalsefni í skýrslu sem hann lét nýlega frá sér fara.

Áður en ég vík að orðum í skýrslu Seðlabankans um þetta atriði sérstaklega er rétt að vekja athygli á að það er mjög sjaldgæft að stofnun eins og seðlabanki láti frá sér fara slíka skýrslu, að stofnun eins og seðlabanki sjái ástæðu til að birta þjóðinni og vara sérstaklega ríkisstj. við því að efnahagsstefna hennar sé að leiða til glötunar. Slíkt er mjög sjaldgæft hér á landi og sennilega nánast einsdæmi ef litið er til annarra landa. Ég hygg að hvarvetna þar sem slíkt gerðist, og bæði bankastjórar og bankaráð seðlabanka eru algerlega sammála, mundi annað tveggja þurfa að gerast, að þeir sem ráða seðlabankanum segðu af sér eða ríkisstj. í viðkomandi landi segði af sér. Hvorugt hefur gerst hjá okkur, enda stjórnmálalegt siðferði með öðrum hætti hér en víða annars staðar og fer greinilega hrakandi.

Ég vil benda á lokakafla í skýrslu Seðlabankans, en í þeirri skýrslu og í þeim kafla eru fólgin mjög alvarleg aðvörunarorð. Þar segir, með leyfi forseta:

„Að lokum er rétt að benda á nokkur atriði, er varða samhengi þeirra þátta efnahagsmála, sem hér hafa verið gerðir að umtalsefni, og þess markmiðs að halda uppi nægilegri atvinnu við þjóðnýt störf. Enginn vafi er á því, að háu atvinnustigi hefur verið haldið uppi nú um nokkurt skeið fyrst og fremst með miklum erlendum lántökum til framkvæmda og rekstrar, en hins vegar með peningaþenslu, en hvort tveggja hefur stuðlað að verðbólgu og viðskiptahalla. Skuldasöfnun Íslendinga gagnvart umheiminum er nú hins vegar orðin svo mikil, að háskalegt væri að halda lengra áfram á þeirri braut. Háu atvinnustigi verður því ekki enn haldið uppi með þessum ráðum nema um skamman tíma. Eigi að tryggja sæmilegt öryggi í atvinnumálum framvegis verður það að hvíla á traustari stoðum, svo sem sterkari samkeppnisaðstöðu og góðum rekstrarskilyrðum atvinnuveganna og auknum innlendum sparnaði, en forsenda fyrir þessu hvoru tveggja er, að rofinn verði sá vítahringur verðbólgu, sem þjóðin er fjötruð við.“

Þetta var tilvitnun í skýrslu Seðlabanka Íslands. Ég efast um, eins og ég sagði áðan, að nokkurt dæmi sé hægt að finna úr stjórnmálasögu okkar um að stofnun eins og seðlabanki láti frá sér fara svo alvarleg aðvörunarorð til viðkomandi ríkisstjórnar.

Af þessu má sjá, sem ég hef hér rakið varðandi hinar erlendu skuldir, að því fer fjarri að verðmætisaukningin, sem þjóðarbúið hefur fengið, hafi farið í að greiða niður erlendar skuldir.

Hvað þá með fjárfestingar? Hefur þetta fjármagn þá ekki verið notað til að fjárfesta í arðbærum atvinnugreinum og til að renna styrkari stoðum undir atvinnuvegi okkar? Við skulum aðeins líta á fjármunamyndunina og í hvað fjárfestingar okkar hafa farið á undanförnum árum.

Það er athyglisvert að á árunum 1981 og 1982 hefur fjármunamyndun dregist saman bæði að magni og sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Á sama tíma höfum við hins vegar verið að auka okkar erlendu skuldir, eins og ég gat um áðan. Það er talið að fjárfesting hafi dregist saman um 4% árið 1981, 4–5% árið 1982 og það er spáð 8% samdrætti í fjárfestingu á árinu 1983. Það er oft vitnað til áfallaáranna 1967–1969 og áranna 1974–1975, en það er athyglisvert, þegar þessi ár eru skoðuð, að fjárfesting var mun meiri á þeim áfallaárum. Hún var 31.1% af þjóðarframleiðslu 1967, 31.6% 1968, en verður í ár rúmlega 27% og það er spáð svipaðri fjárfestingu á næsta ári. Erlend skuldastaða var á hinn bóginn miklum mun betri á fyrrgreindum áfallaárum en nú er.

En það er líka fróðlegt að sjá í hvaða þætti fjárfestingin hefur farið. Við skulum fyrst athuga stóriðju og stórvirkjanir, en margir hafa litið til þess að á þessu sviði gætum við treyst hvað helst atvinnuvegi okkar og rennt fleiri styrkari stoðum undir okkar atvinnulíf. Á s. l. ári. árið 1982, dróst fjárfesting í stóriðju og stórvirkjunum saman um 43.5% frá árinu 1981. Fjármunamyndun í atvinnulífinu dróst saman um 9.1% á árinu 1982 frá árinu þar á undan, og þá hafði hún enn dregist saman frá árinu 1980. Fjármunamyndun í hitaveitum dróst saman á síðasta ári um 31.5% miðað við árið á undan og hafði líka dregist saman á árinu 1981. En hvar aukast þá okkar fjárfestingar? Það er fróðlegt að skoða það. Það er einn liður sem sker sig úr. Í einum lið aukast fjárfestingar frá ári til árs í tíð þessarar ríkisstjórnar, en það er á sviði opinberra bygginga. Á síðasta ári jókst fjármunamyndun í opinberum byggingum um 6.8% miðað við árið 1981 og á árinu 1981 jókst hún um 9.7% miðað við árið 1980. Fjármunamyndun í íbúðarhúsabyggingum mun sennilega hafa staðið í stað árið 1982 miðað við næsta ár á undan, þó ekki séu enn komnar endanlegar tölur um það. En þetta er fróðlegt að sjá. Á sama tíma sem fjármunamyndun eykst á sviði opinberra bygginga eingöngu dregst fjármunamyndun saman á sviði atvinnuveganna. Auðvitað hefði þetta átt að vera öfugt. Auðvitað hefði átt að nota hluta af þeim verðmætum, sem þjóðarbúið fékk og ég gerði grein fyrir hér áðan, til að fjárfesta í nýjum atvinnugreinum, í nýjum atvinnufyrirtækjum, til að stuðla að aukinni hagsæld og bættum lífskjörum fólksins í þessu landi. En það hefur ekki verið gert. Fjármunamyndunin hefur fyrst og fremst verið á sviði opinberra bygginga. Og það er vissulega fróðlegt og tímanna tákn — og reyndar dæmigert fyrir stjórn eins og þá sem hér situr nú, dæmigerða vinstri stjórn.

Það væri að sjálfsögðu hægt að rekja á sama hátt fjölmarga aðra þætti í efnahagslífi okkar — rekja hver hefur orðið þróunin í gengismálum t. d., en eitt af meginstefnumörkum Alþb. var að halda gengi stöðugu. Sú var tíðin að Alþb. taldi gengisbreytingar íhaldsúrræði, en sannleikurinn er sá, að engin ríkisstj. hefur fellt gengi jafnoft og jafnmikið og sú ríkisstj. sem nú situr.

Það væri líka fróðlegt að rekja þróun peningamála og ríkisfjármála eða þróun verðbólgunnar sem nú æðir með meiri hraða en nokkru sinni áður. Ég ætla ekki að eyða löngu máli í það, en vil hins vegar benda á að þegar þessi brbl. voru sett héldum við sjálfstæðismenn því fram strax á s. l. sumri, strax í ágústmánuði, að þessi brbl. mundu verða gagnslaus í baráttunni við verðbólguna. Þingflokkur Sjálfstfl. hélt fund strax og brbl. höfðu verið sett og ályktaði um þessi mál. Ég skal ekki lesa hér nema hluta af þeirri ályktun, en þar segir, með leyfi forseta:

„Efnisatriði þessara bráðabirgðaráðstafana eru einkum þrjú:

Í fyrsta lagi 13% gengisfelling eftir að erlendur gjaldeyrir hefur verið hafður á útsölu mánuðum saman. Í öðru lagi skattahækkanir sem auka verðbólgu. Í þriðja lagi stórfelld skerðing verðbóta launafólks án samráðs við aðila vinnumarkaðarins.

Þessum bráðabirgðaráðstöfunum fylgir óskalisti sem er álíka marklaus og stjórnarsáttmálinn og aðrar efnahagsyfirlýsingar ríkisstj. Þá bera þessar bráðabirgðaráðstafanir og með sér að enginn árangur mun nást í baráttunni við verðbólguna, sem nú æðir áfram, og enn liggur við stöðvun atvinnuveganna.“

Það kom sem sagt strax fram í þessari ályktun þingflokks sjálfstæðismanna, nánast daginn eftir að brbl. höfðu verið sett, að þessar ráðstafanir, þessi brbl. mundu reynast gagnslaus í baráttunni við verðbólguna. Þrátt fyrir það var settur á svið mikill loddaraleikur í kringum þessi brbl. Fólk var látið halda, og því var haldið fram af hæstv. ráðh. með hæstv. forsrh. í broddi fylkingar, að nú yrði brotið í blað í efnahagsþróuninni, þessi brbl. mundu koma í veg fyrir viðskiptahalla, þau mundu stöðva söfnun eyðsluskulda erlendis og þau mundu veita verulegt viðnám gegn verðbólgu. Það var hægt að sjá fyrir að allt þetta var rangt. Annaðhvort blekktu hæstv. ráðh. sjálfa sig eða þeir blekktu þjóðina til að geta setið örlítið lengur í ráðherrastólunum, og hvorugur kosturinn er góður.

Einu atriði er sérstaklega rétt að vekja athygli á og gera að umtalsefni, en það er með hverjum hætti þessi lagasetning fer fram.

Það er ekki umdeilt að í stjórnarskrá lýðveldisins eru ákvæði um það, að þegar brýna nauðsyn beri til geti forseti landsins, og þá á ábyrgð ríkisstj. og fyrir hennar atbeina, sett brbl. Þegar brýna nauðsyn ber til eins og sagt er í stjórnarskránni. Það er hins vegar enginn vafi á að setning þessara brbl. undir þeim kringumstæðum sem þau voru sett er brot á anda þessa stjórnarskrárákvæðis. Þessi brbl., sem sett voru í ágúst, áttu ekki að taka gildi fyrr en 1. desember. Verðbótaskerðingin, sem í þeim fólst, átti ekki að taka gildi fyrr en 1. desember, u. þ. b. tveimur mánuðum eftir að þing kæmi saman.

Enn einu atriði er rétt að vekja athygli á varðandi efnisþætti brbl. Það er, að inn í brbl. er felld framlenging hins tímabundna vörugjalds, sem Alþingi hefur þurft að fjalla um sérstaklega á hverju ári um hríð og framlengja frá ári til árs. Í brbl., sem sett eru í ágúst, er ákvæði um það, að frá 1. janúar 1983 til 1. janúar 1984 skuli hið tímabundna vörugjald áfram vera í gildi. Svo eru reyndar gerðar á því vissar breytingar, hækkað að hluta. Þetta er allt súrrað saman í eina ákveðna grein í brbl. Það bar enga brýna nauðsyn til að setja ákvæði um hið tímabundna vörugjald í þessi brbl. Alþingi hafði öll tök á því og Alþingi átti að fá færi á því að fjalla sjálfstætt um hvort það vildi framlengja þennan skatt eða ekki. Þess vegna er enginn vafi á að þarna hefur tvímælalaust verið framið brot á stjórnarskrá. Það gefur mönnum aftur tilefni til að hugleiða nú vandlega, þegar verið er að ræða um nýja stjórnarskrá og þegar menn upplifa hve ríkisstjórnir umgangast þetta ákvæði í stjórnarskránni af mikilli óskammfeilni, og hve þær óhikað reyna að fara á svig við anda stjórnarskrárinnar, þennan rétt til útgáfu brbl. og til að athuga hvort ekki beri að þrengja hann a. m. k., ef ekki fella hann algerlega niður.

Sannleikurinn er sá, að ákvæðin um rétt til útgáfu brbl. voru sett í stjórnarskrána 1874, þegar Alþingi var háð einungis á tveggja ára fresti og stóð þá í einn til tvo mánuði. Síðan hefur margt breyst, ekki aðeins að Alþingi kemur saman einu sinni á ári og situr orðið meiri hluta ársins, heldur hafa allar samgöngur breyst til hins betra og enginn vandi er að kalla saman þingið með stuttum fyrirvara, ef brýna nauðsyn ber til að efna til lagasetningar. Ég hygg að þessi hæstv. ríkisstj. hafi bitið höfuðið af skömminni varðandi útgáfu brbl. Hún hefur gengið lengra en nokkur önnur ríkisstj. hér á landi í að mistúlka heimildarákvæði um útgáfu brbl. Þess vegna hlýtur nú að vera uppi vaxandi hreyfing um að takmarka mjög þennan rétt, ef ekki á að afnema hann með öllu.

Herra forseti. Það hefur komið glögglega fram, ekki síst í þeirri skýrslu sem Seðlabankinn sendi frá sér, að þessi brbl. hafa reynst haldlaus með öllu. Þau hafa ekki náð þeim árangri sem fólki var talin trú um að að væri stefnt. Þau hafa ekki reynst viðnám gegn verðbólgu. Verðbólgan æðir nú áfram með meiri hraða en nokkru sinni áður. Það er talið að hún nálgist nú að vera 75% og hún mun áður en langt um líður, ef ekkert verður að gert, fara upp í um 100%.

Við höfum reynst eftirbátar okkar helstu viðskiptaþjóða í því að ráða við verðbólguna. Árið 1982 var verðbólgan t. d. 3.9% í Bandaríkjunum, 5.4% í Bretlandi, 4.6 í Vestur-Þýskalandi, 2% í Japan og 9% í Danmörku. Af þessu má sjá að ríkisstj. tókst ekki með brbl. að veita viðnám gegn verðbólgu.

Það var líka sagt að brbl. ættu að stemma stigu við viðskiptahalla. Það hefur ekki reynst rétt. Viðskiptahallinn er nú meiri en hann hefur oft verið.

Þessi brbl. áttu líka að stemma stigu við erlendum lántökum, og eins og ég gat um áðan áttu þær ekki að fara fram úr 15% af útflutningstekjum okkar, en greiðslubyrði vaxta og afborganir af erlendum lánum eru nú langt fyrir ofan það. Ég skal ekki endurtaka það sem ég sagði um það áðan.

Þessi brbl. hafa því reynst haldlítil og gagnslaus. Það er þess vegna með ólíkindum hve reynt hefur verið með taumlausum áróðri að magna upp spennu í kringum þessi brbl. Því er meira að segja enn haldið fram, að ef þessi brbl. verði felld hér á Alþingi muni verðbólguholskefla yfir okkur ríða. Þessi brbl. eru í fullu gildi. Þau hafa verið í gildi í hálft ár og áhrif þeirra því að fullu komin fram, en þau hafa ekki reynst betur en raun ber vitni.

Sú staðreynd, að þessi brbl. eru það eina sem frá þessari hæstv. ríkisstj. kemur, sýnir að þessi ríkisstj. hefur gefist upp á því að leysa þann vanda sem að okkur steðjar. Hún sýnir enga forustu, ekki neitt frumkvæði í neinum málum. Það eina sem hún getur og hefur tekist hingað til er að stritast við að sitja. Það er orðið takmark í sjálfu sér að sitja á sama tíma og verðbólgan geysist áfram með ótrúlegum hraða, erlendu skuldirnar stefna efnahagslífi okkar í háska og Seðlabankinn varar við því að efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar sé í hættu. Það eina sem þessi hæstv. ríkisstj. hugsar um er að sitja, sitja án þess að gera nokkuð.

Það er því brýnt verkefni að reynt verði að semja um það hér á hv. Alþingi að koma fram nauðsynlegum breytingum á kjördæmamálinu. Því miður hefur það ekki tekist hingað til, en sem betur fer er margt sem bendir til að slíkt samkomulag sé skammt undan. Þá er hægt að efna til kosninga áður en langt um líður og reyna að mynda nýjan þingmeirihl. sem takist af alvöru á við þann mikla og vaxandi efnahagsvanda sem að okkur steðjar.