14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1908 í B-deild Alþingistíðinda. (1638)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er nú erfitt að ræða brbl. undir þessum kringumstæðum. Ég sé ástæðu til þess að beina í upphafi máls míns fyrirspurn bæði til hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. varðandi lánsfjáráætlun fyrir þetta ár, sem ekki er fram komin. Mundi ég vilja mælast til þess við hæstv. forseta að hæstv. ráðh. gæfu sér tóm til að vera hér viðlátnir.

Það gleður mig að hæstv. forsrh. er genginn í salinn. Ég veit að honum er annt um að brbl. verði afgreidd í dag. Þess vegna kom það mér á óvart þegar ég frétti í morgun að hann hefði farið fram á að fá að mæla fyrir öðru máli hér kl. 6 og vildi jafnvel tefla því í tvísýnu að brbl. yrðu afgreidd. En ég veit að honum er annt um að vera hér inni úr því að hitt málið fékkst ekki á dagskrá. Auðvitað hefur það komið mönnum á óvart, sem hlustuðu á hann í sjónvarpinu um daginn prúðan og fallegan, að hann skyldi ekki leggja meir upp úr því að afgreiðslu brbl. yrði flýtt. (Forseti: Fjmrh. er ekki í húsinu sem stendur, en það verður gerð tilraun til þess að láta hann vita af því að hv. ræðumaður á erindi við hann.) Það er ljómandi. (Forseti: Væri ekki athugandi að byrja á fyrirspurnum til hæstv. forsrh.) Ég ætla að beina þessum fyrirspurnum til beggja og spara tíma og rúm í þingtíðindum með því að gera fsp. samtímis til beggja. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það sem ég ætla að segja. Ég er hins vegar reiðubúinn að fresta ræðu minni, ef hæstv. forseti vill það. (Forseti: Já, ég þigg það). [Frh.]