14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1908 í B-deild Alþingistíðinda. (1640)

175. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyting á lögum nr. 81 frá 23. júlí 1974, um Verðlagsráð sjávarútvegsins, sbr. lög nr. 27 26. apríl 1978.

Í 1. gr. þessa frv. er lagt til að við ákvörðun verðs á rækju, hörpudiski og grásleppuhrognum taki fulltrúar frá kaupendum og seljendum þessa afla sæti í Verðlagsráði. Þessi breyting er gerð vegna þess að með núgildandi skipan Verðlagsráðs telja kaupendur og seljendur rækju, hörpudisks og grásleppuhrogna sig ekki hafa möguleika á að hafa áhrif á verðlagsákvarðanir, vegna þess hvernig Fiskideild sé skipuð lögum samkvæmt. Frv. þetta er því flutt að ósk þessara hagsmunaaðila.

Í þessari grein segir að ráðh. skipi fulltrúa eftir tilnefningu samtaka, sem til þess eru bær að hans dómi. Ákvæði þetta er sett vegna þess að mjög er mismunandi hvernig samtökum innan þessara greina vinnslu og veiða er háttað. Verði frv. þetta að lögum gæti það orðið til þess að viðkomandi aðilar skipulegðu samtök sín þannig að tilnefning þessara nýju fulltrúa yrði ekki vandamál.

Lögð skal áhersla á að í breytingu þessari felst í raun það eitt að fulltrúum í Fiskideild er fjölgað úr sex í sjö við ákvörðun verðs á rækju, hörpudiski og grásleppuhrognum, og vakin athygli á því, að það er ekki verið að stofna nýjar deildir eða breyta starfsemi yfirnefndar,

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.