14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1909 í B-deild Alþingistíðinda. (1644)

72. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um breytingu á lögum nr. 64 frá 31. maí 1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, er samið af nefnd sem ég skipaði á s. l. ári til að endurskoða lög um Hafrannsóknastofnun.

Hafrannsóknastofnunin er ein af stærri stofnunum þessa lands og langstærsta rannsóknastofnunin. Velta þeirra stofnunar er samkv. fjárl. nú um 70 millj. kr. Lengi hefur þótt æskilegt að við stofnunina starfaði fjármálastjóri við hlið en þó undir stjórn forstjóra stofnunarinnar. Má segja að það hafi verið fyrsti hvati til endurskoðunar á lögum um Hafrannsóknastofnun.

Nefndin fór vandlega yfir lög um Hafrannsóknastofnun og skoðaði jafnframt markmið þau sem stofnuninni eru sett með lögunum frá 1965. Í samvinnu við forstjóra stofnunarinnar, sem sat í nefndinni, og sérfræðinga var ýmsum atriðum í markmiðum stofnunarinnar breytt til samræmis við það sem þróast hefur af reynslu undanfarinna ára.

Fleiri slíkar breytingar eru í umræddu frv., sem má segja að séu allar afleiðing af reynslu undanfarinna ára. Í meðferð Ed. var gerð nokkur breyting á stjórn stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir því, að í stjórn Hafrannsóknastofnunar verði fimm menn skipaðir af sjútvrh. til fjögurra ára í senn, þar af einn án tilnefningar, einn tilnefndur af Fiskifélagi Íslands, einn tilnefndur af Landssambandi ísl. útvegsmanna, einn tilnefndur af starfsmönnum Hafrannsóknastofnunar og einn tilnefndur sameiginlega af Sjómannasambandi Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Sömu aðilar tilnefna varamenn. Þarna er gerð allveruleg breyting á stjórn stofnunarinnar. Hún er víkkuð út og fleiri hagsmunaaðilar fá þar aðgang. Tel ég það til bóta.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv., en legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.