14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1910 í B-deild Alþingistíðinda. (1648)

74. mál, loftferðir

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Við endurskoðun laga um flugmál var jafnframt talið rétt að endurskoða lög um loftferðir og er í þessu frv. lagt til að verulega verði hert á ákvæðum um rannsóknir á flugslysum. Fyrst og fremst felst þetta í því að tekin eru af öll tvímæli um að við rannsókn slíkra slysa skuli starfa fimm kunnáttumenn í flugmálum. Segir í 1. gr. þessa frv., að nefnd þessi skuli kanna orsakir flugslysa, ef manntjón hefur orðið eða legið hefur við slysi á mönnum eða miklu tjóni á munum. Nefndin ákveður sjálf hvaða mál hún kannar. Nefndin skal einnig gera tillögur til úrbóta í öryggismálum flugsins, eftir því sem rannsókn á orsökum flugslysa gefur tilefni til.

Síðan segir í 3. mgr.: „Flugslysanefndin skal starfa sjálfstætt og óháð. Henni er heimilt að leita til flugmálastjórnar og lögreglu um aðstoð og upplýsingar eftir því sem tilefni gefst til.“

Meginatriði þessa frv. er, eins og kom fram í því sem ég nú las, að flugslysanefndin skal starfa sjálfstætt og óháð. Hún starfar að sjálfsögðu í tengslum við loftferðaeftirlitið, en er þó óháð því og flugmálastjórn í störfum sínum. Er þess þannig vænst og gert ráð fyrir því, að þarna verði um að ræða óháðari aðila en nú er við alla rannsókn flugslysa.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. samgn.