01.11.1982
Neðri deild: 6. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

28. mál, málefni aldraðra

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Jú, ég þarf vissulega að bera af mér sakir vegna þess að hv. síðasti ræðumaður gerði mér upp þau orð sem ég sagði ekki. Ég benti á það, að úr kjördæmi hans hefði ekki verið sótt um til byggingar hjúkrunarheimilis fyrir aldrað fólk. Það var sótt um til byggingar húsnæðis fyrir aldrað fólk og samkv. þessu frv. er ákveðin skilgreining á hvað hvort sé. Ef hv. þm. getur ekki skilið það við lestur frv. skal ég taka hann í smáaukatíma hér á eftir utan þingsala, svo við tefjum ekki þingstörf. En þessi voru mín orð og ekki annað.

Þá vil ég benda á það, þar sem hann bendir sérstaklega á að Hrafnista í Hafnarfirði hefur fengið 4 millj.,— hefur reyndar fengið meira, eins og heimilið í Kópavogi, sem er þó byggt eingöngu fyrir íbúa Kópavogs, — að heimilið í Hafnarfirði er ekki ætlað neinu einu sveitarfélagi, eins og fjöldi Vestfirðinga sem þar dvelur ber gleggstan vott um. Þar utan geri ég ráð fyrir að þegar upp verði staðið muni styrkurinn úr Framkvæmdasjóði til Hrafnistubyggingarinnar í Hafnarfirði rétt duga fyrir þeim aukna kostnaði sem hefur eingöngu orðið af nýjum reglugerðum og reglugerðarbreytingum á byggingartímanum frá hæstv. núv. ráðh.