14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1911 í B-deild Alþingistíðinda. (1650)

89. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á síðasta Alþingi var samþykkt frv. til l. um grásleppuveiðar, þar sem m. a. var gert ráð fyrir því, og það varð reyndar að lögum, að grásleppuveiðimenn fái aðgang að Aflatryggingasjóði sjávarútvegsins. Í 1. mgr. 2. gr. laganna er ákvæði sem segir að ekki skuli þó greiða bætur nema afli hafi orðið yfir 10 tunnur. Í ljós kom við þann aflabrest sem varð í sumar, að þetta ákvæði stenst varla. Þess eru mörg dæmi að grásleppuveiðimenn reru reglulega og fengu svo að segja engan afla, t. d. í Húnaflóa. Sagt er að þar hafi einn róið 29 róðra og fengið 29 grásleppur, þannig að sannað er að sá maður stundaði allvel grásleppuveiðar þó hann fengi hvergi nærri þann afla sem settur er sem lágmark fyrir bótum. Menn hafa því orðið ásáttir um að fella þetta ákvæði úr lögum. Með því fellur ákvörðun um bætur undir hin almennu ákvæði laga um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins. Verður því matsatriði hverju sinni hvort bætur skuli greiða og byggir það á því að stundaðar hafi verið grásleppuveiðar sem aðalatvinna á vertíðartímanum.

Ég vil taka það fram, að það er tillaga stjórnar Aflatryggingasjóðs að lögunum verði þannig breytt og sömuleiðis í fullu samkomulagi við samtök grásleppuveiðimanna.

Herra forseti. Ég legg svo til að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.