14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1912 í B-deild Alþingistíðinda. (1654)

171. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um almannatryggingar, þar sem gert er ráð fyrir að örorka verði metin af örorkumatsnefnd, sem verði skipuð þremur mönnum. Einn skal tilnefndur af tryggingayfirlækni, forstjóri Tryggingastofnunarinnar tilnefni einn og heilbr.- og trmrh. tilnefni einn. Ráðh. setur síðan í reglugerð nánari ákvæði um starfssvið og starfshætti nefndarinnar.

Á undanförnum árum hefur margt verið um þessi mál rætt, m. a. innan Tryggingastofnunar ríkisins, og hafa menn ekki verið á eitt sáttir. Engu að síður hefur það komið fram hvað eftir annað, m. a. af hálfu tryggingayfirlæknis og deildarstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, að það sé eðlilegt við örorkumat að taka tillit til fleiri atriða en læknisfræðilegra þegar örorkustig er ákveðið. Virðast menn almennt vera sammála um að slíkt mat verði að taka mið af a. m. k. þremur ákvarðandi atriðum, þ. e, í fyrsta lagi líkamlegri eða andlegri heilbrigði, í öðru lagi tekjuöflun miðað við óbreytt ástand samkv. tölul. 1 og í þriðja lagi taki þetta mat mið af félagslegum aðstæðum einstaklings, þ. á m. fjárhagslegri þörf miðað við fjölskyldubyrði, heimilisástæður o. fl. Hér er sem sagt gert ráð fyrir að matið verði sett í hendurnar á þriggja manna nefnd sem með þessa þætti fari.

Hér er um að ræða mál sem mikið hefur verið rætt á liðnum árum. Ég er sannfærður um að þessi matsnefnd, ef samþykkt verður, mundi stuðla að breyttu og bættu fyrirkomulagi þessara mála í Tryggingastofnun ríkisins, þó ekki sé nema vegna þess að hér hefur óheyrilega mikið álag verið lagt á einn einstakling, þ. e. tryggingayfirlækni, við úrskurð í þessum efnum.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta litla frv., herra forseti, og legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.