14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1914 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

171. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins út af aths. sem fram komu hjá hv. 1. þm. Vestf. segja það, að mér er mjög í mun að koma hreyfingu á þessi mál, örorkumatið og vinnslu þess, í Tryggingastofnuninni. Ég tel að þar hafi málum verið hagað með þeim hætti að það sé óhjákvæmilegt að koma þar á nokkurri hreyfingu. Ég tel að reynslan sýni að læknisfræðilegt mat í þessum efnum dugi ekki. Það verður fleira að koma til. En ég vil undirstrika það með einni setningu vegna orða hv. þm. að ég er reiðubúinn að ræða við hann um verksvið og skipan þeirrar nefndar sem þarna er gerð till. um. Þarna er þá að sjálfsögðu ýmislegt til athugunar og ég er ekkert að binda mig fast við nákvæmlega þá till. sem þarna liggur fyrir. Meginatriðið er í mínum huga að það verði komið hreyfingu á málið og reynt að leysa þá hnúta sem þessi mál eru nú í.