14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1917 í B-deild Alþingistíðinda. (1661)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég er ekki vanur að taka upp mikinn tíma frá hv. Alþingi í þessum ræðustól. En ég sé ástæðu til að gera það nú.

Mál eru hér afgreidd með miklum hraða, nefndarfundir boðaðir áður en mál koma á dagskrá til umr. og upplausn hefur ríkt hér á Alþingi um nokkuð langa hríð. Ríkisstj. hefur átt í innbyrðis vanda. Á Alþingi eru til umr. kjördæmamál, stjórnarskrárbreyting er í vændum, breyting á vísitölumálum nýlega lögð fram, efnahagsmálin til umr. og kannske á afgreiðslustigi nú. Bæði á Alþingi og í ríkisstj. hefur ríkt svokölluð pattstaða. Flest ef ekki öll mál, sem nú hafa verið til umr., eru í sjálfheldu. Utan þingsala sem innan er daglega talað um að yfirvofandi sé fall ríkisstj. og að kosningar muni innan tíðar fara fram. Þrátt fyrir þessa einkennilegu sjálfheldu í íslenskum stjórnmálum er nú í undirbúningi utanför flestra ráðh. og fjölda þm. Ég tel að nú beri að taka þá ákvörðun að enginn þm. fái fjarvistarleyfi til að sækja fundi Norðurlandaráðs, þar sem ástandið í landinu leyfir það ekki og þjóðin hefur ekki efni á að lama störf Alþingis frekar en orðið er, en áfram verði án afláts unnið að lausn vandamála þjóðarinnar. Störf Alþingis hljóta að vera meira áríðandi fyrir íslenska þjóð en ráðstefna Norðurlanda sem fram undan er. Fari svo að fjórðungur þm. hverfi frá störfum um tíma situr Alþingi enn lamaðra, enn máttlausara eftir, óstarfhæft. Því vil ég mótmæla.