14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1919 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af þeim brtt. sem fluttar hafa verið um ráðstöfun á gengismun.

Ég skal út af fyrir sig ekki velta vöngum hér yfir því hvort skreiðin fer úr landi eða ekki. Mér sýnast vera uppi óþarfa hrakspár. Ég vek athygli á því, að skreiðarútflutningur hefur oft átt í erfiðleikum undanfarin 30 ár, en þó ætíð úr ræst, sem betur fer, og ég geri mér vissulega vonir um að svo fari enn.

Hins vegar vil ég vegna erfiðleika skreiðarframleiðenda vekja athygli á upplýsingum sem ég reyndar rakti hér 31. janúar s. l. Ég fékk Þjóðhagsstofnun þá til að athuga fyrir mig afkomu skreiðarframleiðenda, og það gerði Þjóðhagsstofnun. Hún áætlaði að 1000 kr. verðmæti í skreið í upphafi síðasta árs væri orðið í janúar s. l. 2290 kr. Hér er að sjálfsögðu gengisbreyting dollarans að verki. Ef frá þessu eru dregnar 150 kr., sem er 6.5% gengismunur, sem gert er ráð fyrir að taka af skreiðinni, og 115 kr., sem Þjóðhagsstofnun áætlar geymslukostnað, eru eftir 2025 kr, Síðan áætlar Þjóðhagsstofnun vaxtakostnað af afurðalánavöxtum, sem eru 320 kr. Þá kemur í ljós að ávöxtun eigin fjár í skreiðinni á ársgrundvelli er 240%. Þarna er því ekki um lélega afkomu skreiðarframleiðenda að ræða þegar skreiðin fer úr landi.

Hins vegar eru greiðslufjárerfiðleikar skreiðarframleiðenda mjög miklir og þess vegna að mínu áliti mjög nauðsynlegt að greiða úr því núna með því að útvega þessum framleiðendum meiri afurðalán, sem sagt meira rekstrarfé. Þarna eru erfiðleikarnir. Aðstoð sem gert er ráð fyrir bæði í till. hv. þm. Magnúsar H. Magnússonar og í þeirri till. sem~flutt var áðan, kemur, ef ég má orða það svo, of seint. Hún kemur eftir að skreiðin fer úr landi, þegar menn hafa fengið þessa ágætu ávöxtun á eigin fé.

Mér þótti rétt, vegna þess m. a. að ekki voru hér allir viðstaddir þegar ég flutti þessar upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun 31. janúar, að endurtaka þær í stuttu máli.