14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1920 í B-deild Alþingistíðinda. (1666)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég verð að lýsa því yfir að mér finnast útreikningar Þjóðhagsstofnunar dálítið skrýtnir, sérstaklega þeir vextir sem er talað um, og virðist sem hún telji að þessir menn geti allir staðið í skilum, þó þeir hafi ekki fengið greitt fyrir þær afurðir sem þeir hafa verið að framleiða, og má það furðulegt heita. Hitt er staðreynd, að í maí í vor var seld skreið út á innheimtu, en ekki ábyrgð. Hún hefur ekki fengist greidd enn. Ég tel að það þyrfti að gera á því úttekt mjög fljótlega í hvernig ástandi sú skreið er sem er í landinu og er veðsett og einnig að það verði metið hvort útlit sé fyrir að Nígeríustjórn sé fær um greiða fyrir skreið, jafnvel þó hún yrði send út. Og ég tel að fráleitt sé að líða þá viðskiptahætti að hún sé seld út á innheimtu, en ekki ábyrgð.