14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1926 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hef ekki tafið mikið þessa margra vikna umr. um brbl., hef einu sinni tekið til máls til þess að spyrja hæstv. sjútvrh. hvort gengismunur sá, sem talað er um, sé yfir höfuð til. Því hefur nú verið svarað hér í dag af skreiðarútflytjandanum Matthíasi Á. Mathiesen. Það er mjög vafasamt að þessi gengismunur sé til.

En það er ekki þess vegna sem ég kom hér í ræðustól. Ég hlýt að lýsa því yfir, að öll þessi umr. er Alþingi til slíkrar skammar að við þetta verður ekki lengur unað. Það eru nokkrar staðreyndir í þessu máli sem ég vil biðja hv. þm. að skilja í eitt skipti fyrir öll. Brbl. eru alltaf vond lög, vegna þess að þau segja ekki nema eitt, að löggjafarsamkunda þjóðarinnar, Alþingi Íslendinga, hefur ekki staðið við það að setja landinu þá löggjöf sem nýtist til þess að þjóðfélagið gangi nokkurn veginn eðlilega. Brbl. eru neyðarlöggjöf, og það er til dæmis um eymd núv. Alþingis að það skuli taka síðan obbann af þingtímanum að þrengja þessum lögum í gegnum Alþingi. Alþingi Íslendinga á nefnilega að vera að gera allt annað. Hér á að vera talað um meginramma, leikreglur þjóðfélagsins, en ekki smámuni eins og hér er verið að tala um.

Hér hafa menn hnotabitist viku eftir viku í klukkutímalanghundum, lesandi vitleysu hver eftir öðrum í dagblöðum bæjarins fyrir fjórum árum, fyrir þremur árum, fyrir fimm árum. Enginn virðist geta tekið á sig þá ábyrgð að þetta þjóðfélag á í erfiðleikum, og það eru þeir erfiðleikar sem við erum kosin hér til þess að leysa. Menn eru að bítast hér um láglaunabætur, hvort þær eigi rétt á sér eða ekki. Auðvitað eiga þær aldrei rétt á sér. Það á ekki að þurfa að veita landsmönnum láglaunabætur. Hér koma fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar hver um annan þveran og tala eins og þeir hafi hreinan skjöld. Ég hef margsinnis oft áður beðið um upplýsingar um laun manna í landinu. Það hafa verið lögð hér fram frumvörp og þáltill. M. a. lagði ég fram eina sjálf í fyrra, sem auðvitað var skotin niður, þar sem ég óskaði eftir að ríkið gengi á undan með góðu fordæmi og fengi eitthvert samræmi í laun ríkisstarfsmanna. Það náði ekki fram að ganga og stjórn BSRB var heldur ekki hlynnt því. Þess vegna verður mér líka svolítið illt þegar ég heyri minn ágæta félaga, Guðmund J. Guðmundsson, tala um lágu launin í þjóðfélaginu, lægstu launin, eins og einhvern stóra sannleika.

Við þekkjum það öll alþm. að við erum yfirlýstir hálaunamenn. Vita menn líka að ráðuneytisstjórarnir eru svona 12–14 þús. kr. launahærri? Vita menn að margir félagar í Dagsbrún hafa laun á borð við alþm.? Það þýðir ekki að reyna að lagfæra launavandann í þessu þjóðfélagi, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, nema segja um þau sannleikann.

Við höfum áður deilt um einmitt þau atriði sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson talaði um hér áðan, alla bónusana, allar uppbæturnar, allt þetta sem á að blekkja fólk, þrautpína fólk til að leggja fram óhóflega vinnu til að geta dregið fram lífið. Það eru þessi verkefni, það eru þessar leiðréttingar, hæstv. forsrh. sem hér hefði átt að ræða allan þennan tíma, en ekki þann hégóma sem menn hafa hér talað um.

Ég hef verið beðin um að stytta mál mitt, herra forseti. En það er ein meginástæða til þess að ég stend hér upp, því að af einhverjum óskiljanlegum ástæðum virðist enginn annar ætla að gera það. Meðan við erum að afgreiða frv. til l. um efnahagsaðgerðir er lagt fram hér nýtt frv. á borð alþm. frá sjálfum hæstv. forsrh. Ekki nóg með það. Þær fréttir berast hér af þessum óendanlega mörgu fundum, sem sumir þm. eiga hér um alla ganga hússins, að formaður fjh.- og viðskn., sem hefur nú ekki verið afkastamikill í að afgreiða mál á þessu þingi, ætli að halda fund í nefnd sinni í fyrramálið (Gripið fram í: Þeim hefur verið vísað til þín.) áður en hæstv. forsrh. hefur mælt fyrir málinu. Mikill fítonskraftur er nú kominn í formann þessarar ágætu nefndar. Hámark hræsninnar er nú þegar hv. þm. Albert Guðmundsson kveður sér hér hljóðs um þingsköp og fer að fárast yfir því að þm. sinni skyldum sínum í samstarfi norrænna þjóða og fari á Norðurlandaráðsþing. Það er ekki endir á hvað hægt er að bjóða fólki upp á hér. Það var fyrir lifandi löngu hægt að afgreiða það sem þetta Alþingi átti að afgreiða svo að menn kæmust með nokkrum sóma á Norðurlandaráðsþing. Það er ekki vandi þjóðfélagsins í dag.

Ég hlýt að óska eftir upplýsingum um hvert þessi þingstörf eru að leiða okkur. Mér er fullvel ljóst að jafnslæm lög og lög um efnahagsaðgerðir, brbl. frægu. eru, er fullkomið ábyrgðarleysi og óvit að afgreiða þau ekki og þarf ekki að útskýra það. Landsmenn eru væntanlega búnir að heyra fyrstu 20 ræðurnar um hvað gerðist í verðlagsmálum þjóðarinnar og efnahagsmálum almennt, verðbólgumálum ef þau næðu ekki fram að ganga. En ég hlýt að spyrja hæstv. forsrh. og minna á lítilfjörlegt plagg, sem hér var gefið út þegar núv. ríkisstj. var sett saman, þar sem skýrt ákvæði er um að ekki skuli leggja slík lög fram nema með samþykki allra aðila ríkisstj. Ég hlýt að spyrja hann hvort þessi hraðafgreiðsla á frv. sem lagt var fram í dag og við almennir þm., sem ekki erum á fundunum út um alla ganga, horn og skúmaskot, sáum fyrst fyrir nokkrum klukkutímum, ég hlýt að óska eftir svari við því áður en annað gerist hér á hinu háa Alþingi hvort það muni rétt vera að til standi að afgreiða eða fjalla um frv. hæstv. forsrh., sem hann einn sýnist vilja gangast við, hvort það eru boð frá honum að formaður fjh.- og viðskn. hv. Nd. keyrði það mál í gegnum nefnd sína með hraði í fyrramálið.

Ég skal ljúka máli mínu. Það mætti benda á ýmislegt sem heldur hefði átt að ræða allan þennan óratíma sem hér hefur verið rætt um hégóma. Á sama tíma og verðbólgan æðir áfram, og hún gerir það. því verður ekki neitað, eru verðlagsmál í landinu svo til eftirlitslaus. Ekkert sýnist mér benda til þess að hæstv. fjmrh. undirbúi staðgreiðslu skatta, sem hvert mannsbarn getur sagt sér að er t. d. merkilegt atriði til að draga úr verðbólgu, vegna þess að það hlýtur að vera ósköp einföld heimilishagfræði að það er betra að vita hvað maður hefur í höndunum þegar máður notar fjármagn sitt. Hæstv. viðskrh. var spurður hér fyrir líklega tveimur árum, og ég bar fram þá fsp. sjálf, hvort kreditkort væru einmitt það sem Íslendinga vantaði nú til þess að eyða meira af þeim peningum sem þeir ekki enn þá ættu. Ég hef áður spurt þess um hina raunverulegu láglaunamenn í þessu landi, sem eru konur þessa þjóðfélags, hvort nokkuð ætti að gera í því að jafna launakjör karla og kvenna í þessu landi. Litlu hefur fengist áorkað í því. (GJG: Það er bónusfólkið sem þú ert að klaga.) (Forseti: Þögn í salnum.) Ég ætla að biðja forseta að fara varlega, maður verður hjartveikur af þessu. (Forseti: Það fer eftir því hvað bjallan þolir.) Það er nú meira atriði hvað hv. þm. þolir.

En ég skal ljúka máli mínu, herra forseti. Ég vil enn einu sinni benda á hv. þm. og hæstv. ráðh., sem eiga að leiða þessar meginumr., en ekki taka þátt í því snakki, sem hér hefur farið fram vikum og mánuðum saman Alþingi til skammar og alþjóð til hneykslunar. Ég vil mælast til þess að menn komi sér í það fljótlega, þegar fundur verður settur aftur, að samþykkja þessi vonlausu lög sem þegar eru orðin fornleif sem kemur að engu gagni og kominn tími til að setja ný lög til að bjarga fjárhagsvanda þjóðarinnar, en áður en við förum til kvöldmatar, og það er mikilvægt atriði hæstv. forsrh., vil ég heyra hverjar eru fyrirætlanir um afgreiðslu á því frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 334, um nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun o. fl.