14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1938 í B-deild Alþingistíðinda. (1676)

Um þingsköp

Forseti (Sverrir Hermannsson):

Vegna fsp. hv. 1. þm. Reykn. vil ég taka eftirfarandi fram: Í bókinni Stjórnskipun Íslands eftir Ólaf Jóhannesson segir svo, þar sem rætt er um starfshætti Alþingis og undir III. lið þar, þingmál, bls. 259, í 2. mgr.:

„En frumkvæðisréttur [þ. e. frumkvæðisréttur til að bera fram frv.] er eigi aðeins hjá alþm. Samkv. 25. gr. stjórnarskrárinnar getur forseti lýðveldisins látið leggja fyrir Alþingi frv. til laga og annarra samþykkta. Það er ráðherra, sem í reyndinni fer með þennan frumkvæðisrétt forseta, þó svo að fá skal formlegt samþykki forseta til framlagningar frv., sem stjórnin hyggst leggja fyrir Alþingi, sbr. ríkisráðstilskipun nr. 82/1943, 5. gr. Samkv. þessu er þingforseta skylt að taka á dagskrá tillögur þær, sem stjórnin leggur fram, hvort heldur er ríkisstj. öll eða einstakir ráðherrar“ o. s. frv.

Mér hefur borist ljósrit af tillögu til forseta Íslands um að leggja megi fyrir Alþingi frv. til l. um nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun o. fl.

„Samið hefur verið á vegum forsrn. frv. til l. um nýtt viðmiðunarkerfi á laun o. fl. Jafnframt því að láta fylgja hér með eintök af lagafrv. þessu vil ég leyfa mér að leggja til, að yður, forseti Íslands, mætti þóknast að téð frv. til l. um nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun o. fl. verði lagt fyrir Alþingi það sem nú situr.

Forsætisráðuneytið, 14. febr. 1983.

Allra virðingarfyllst.

Gunnar Thoroddsen.

Guðmundur Benediktsson.“

„Fellst á tillöguna.

Bessastöðum, 14. febrúar 1983.

Vigdís Finnbogadóttir.“

Þar með er þetta frv. stjfrv. og allra laga- og formsatriða verið gætt við framlagningu þess í hv. deild.