14.02.1983
Neðri deild: 38. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1939 í B-deild Alþingistíðinda. (1677)

Um þingsköp

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég hef engu við að bæta það, sem hæstv. forseti þessarar deildar hefur nú úrskurðað. Ég vil aðeins til enn frekari skýringar taka það fram, eins og skýrt kom fram í því sem hann mælti hér og las upp úr Stjórnskipun Íslands eftir Ólaf Jóhannesson, að þessi frumkvæðisréttur, sem stjórnarskráin í 25. gr. getur um, að forseta Íslands er fenginn, á bæði við það er ríkisstj. í heild flytur frv. eða ef einstakir ráðherrar flytja frv.

Þetta frv., sem hér er um að ræða, er ekki ríkisstjórnarfrv. í þeim skilningi að öll ríkisstj. standi að því. Það kemur skýrt fram að þetta er frv. sem forsrh. flytur, að sjálfsögðu með undirskrift og eftir ákvörðun forseta. Hins vegar hafa sjö ráðh. í ríkisstj. að mér meðtöldum lýst stuðningi við þetta frv. svo að það má segja að það sé flutt á vegum þeirra og í þeirra umboði.