15.02.1983
Efri deild: 44. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1950 í B-deild Alþingistíðinda. (1701)

190. mál, orkulög

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ræða hv. 4. þm. Vestf. vegna þessa frv. var nokkuð sérkennileg. Ekki verður nú sagt að hann hafi sparað stóru orðin í máli sínu og kemur það út af fyrir sig ekkert á óvart því að hv. þm. er gjarnan á hærri nótunum í málflutningi og auðvelt er að þola það.

Ég vil, eftir að hafa vikið að þeim efnislegu aths. sem hann kom hér að, beina vissum fsp. til hv. 4. þm. Vestf. Hann kom hér fram með ábendingar og aths. sem hann tengdi gagnrýni á þetta frv. og þá fyrst það, að fyrir væru í orkulögum ákvæði um gjaldskrár orkuveitna og þau ákvæði gæfu þó ráðh. ekki að hans mati færi á að setja orkuveitum gjaldskrár, eins og hann túlkaði ákvæði gildandi laga um þetta, en hann virðist ekki hafa áhuga á því að þau ákvæði verði með öðrum hætti en fyrir liggur. Ef ég hef skilið mál hans rétt hefði hann talið eðlilegast að breyting yrði gerð á lögum um Landsvirkjun í sambandi við hennar gjaldskrárákvörðun og heimildir sem hún hefur að gildandi lögum, en í hinu orðinu mátti skilja að hann teldi það með öllu ástæðulaust og aðeins bjóða upp á valdníðslu af hálfu ráðh. að slík ákvæði yrðu sett.

Ég verð að segja að þetta er allt saman harla einkennilegur málabúnaður. Í 25. gr. orkulaga eru ákvæði varðandi héraðsrafmagnsveitur og almenningsrafveitur og í 29. gr., 3.–5. mgr., varðandi hitaveitur. Þar er sem sagt að finna ákvæði um almenningsrafveitur og hitaveitur með því orðalagi sem í lögunum er, en með þeirri breytingu, sem ég mæli hér fyrir, eru tekin af tvímæli um að breytingar á verðákvæðum í gjaldskrám orkufyrirtækja skuli háðar samþykki ráðh. orkumála. Hér er því verið að setja almennt ákvæði um þessi efni, sem tekur til allra orkufyrirtækja, þ. á m. til Landsvirkjunar, og menn verða að sjálfsögðu að meta málið í ljósi þess. Ég tel eðlilegt að þetta ákvæði sé sett inn í orkulög, þar sem fyrir eru ákvæði, eins og ég vék hér að, varðandi gjaldskrár almenningsrafveitna og hitaveitna og menn hafi þá á einum stað og í sömu lögum ákvæði er lúta að verðlagningu orkufyrirtækja.

Hv. 4. þm. Vestf. vildi túlka það svo, að með flutningi þessa frv. væri verið að rifta samkomulagi um frv. til 1. um Landsvirkjun, sem undirbúið hefur verið og væntanlega verður flutt á þessu þingi, — frv. sem undirbúið var af nefndum á vegum eignaraðila. Ég vil taka það skýrt fram, að málið er ekki þannig vaxið eins og hv. 4. þm. Vestf. vildi túlka það. Frv. um orkufyrirtæki eins og Landsvirkjun getur að sjálfsögðu ekki bundið hendur Alþingis varðandi verðlagningu almennt hjá orkufyrirtækjum. Það hlýtur að vera honum sem og öðrum hv. alþm. ljóst. Það var þeim ljóst sem unnu að undirbúningi frv. um Landsvirkjun. Í þessu sambandi nægir að benda á, að í þeim frv. drögum, sem enn hafa ekki verið lögð fram hér á Alþingi. en undirbúin hafa verið, að nýjum lögum um Landsvirkjun er haldið óbreyttum ákvæðum varðandi gjaldskrá fyrirtækisins eins og er í gildandi lögum. en þrátt fyrir þessi ákvæði voru hér í gildi fram að áramótum 1980/81 ákvæði sem takmörkuðu ákvæði landsvirkjunarlaganna og veittu stjórnvöldum heimild til íhlutunar um gjaldskrá Landsvirkjunar eins og annarra orkuveitna. Það var fram tekið af fulltrúum ríkisins, sem áttu hlut að undirbúningi frv. um Landsvirkjun á vegum rn., að gera mætti ráð fyrir að leitað yrði lagaheimildar sem þeirrar sem hér er óskað eftir og ríkisstj. stendur að með flutningi þessa frv.

Hv. 4. þm. Vestf. hafði uppi um það allmörg orð, að ég hefði sem ráðh. níðst á veitufyrirtækjum Reykjavíkur. sérstaklega í sambandi við verðlagningu þeirra á orku, og vildi túlka ákvæði gildandi laga, ákvæði í orkulögum sem hér var til vitnað, á þá leið að ráðh. hefði nánast ekki heimild til annars en segja já eða nei í sambandi við verðákvarðanir þessara veitufyrirtækja. Slík hefur ekki verið reyndin, slík hefur ekki verið málsmeðferðin. Í sambandi við t. d. síðustu gjaldskrárákvörðun var heimiluð hækkun hjá þessum veitufyrirtækjum, en minni en þau höfðu óskað eftir, svo sem lengst af hefur verið um árabil. Ég held að hv. þm. gæti farið aftur í tímann t. d. til ríkisstjórnar sem hann studdi á árunum 1974–1978 og hann ætti að bera það saman hvernig tekið hefur verið á óskum þessara veitufyrirtækja varðandi gjaldskrárbreytingar á þeim tíma annars vegar og síðan á tímabilinu sem síðan er liðið. Ég er ekkert viss um að það komi fram að það hafi verið verr með þessi veitufyrirtæki farið, svo að notuð séu orð sem hann tekur sér í munn og raunar vægari orð en gert var á árum áður. Það er að sjálfsögðu mál þessara veitufyrirtækja og forráðamanna þeirra hvort þau vilja vefengja þær ákvarðanir sem stjórnvöld hafa tekið varðandi gjaldskrá þeirra og hvort þau sjá ástæðu til að leita réttar síns með öðrum hætti. Við það hef ég að sjálfsögðu ekkert að athuga að forráðamenn þessara veitna láti á slíkt reyna, en hitt stendur óhaggað. að stjórnvöld hafa heimild til íhlutunar um gjaldskrá þessara veitufyrirtækja með ákvæðum í gildandi lögum. en hins vegar ekki varðandi Landsvirkjun með sama hætti.

Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson vék hér að jöfnun hitunarkostnaðar og hafði uppi allstór orð í því sambandi. Hv. þm. gerþekkir nú þessi mál, hefur m. a. nýlokið störfum í nefnd á vegum iðnrn. sem hafði það hlutverk að gera tillögur um tekjuöflun til að standa straum af niðurgreiðslu á innlendum orkugjöfum, sérstaklega á rafhitun til húshitunar, og hann vann að ég best veit gott starf innan þeirrar nefndar og stóð að tillögum þar þótt með fyrirvara væri. Megintill. þeirrar nefndar var að vænlegast væri til frambúðar, til þess að tryggja að verð á innlendri orku og þá sérstaklega á raforku þróaðist ekki með þeim hætti sem verið hefur undanfarin ár, að hækkað verði orkuverð til stóriðju í landinu. Hv. þm. hefur orðað það eitthvað á þá leið í sínum fyrirvara í þessu nál., að einskis skuli láta ófreistað til að ná fram leiðréttingu á raforkuverði til Íslenska álfélagsins hf. Ég tók sérstaklega eftir þeirri áherslu í fyrirvara hans í umræddu nál.

Þær aðgerðir, sem gripið hefur verið til af stjórnvalda hálfu til að bregðast við því mikla misræmi sem er á húshitunarkostnaði hjá landsmönnum, eru í samræmi við þá yfirlýsingu sem hér var gefin 5. maí 1982 og í anda þeirra tillagna sem hér höfðu verið fluttar af þm. í formi frumvarpa á árunum 1981 og 1982, þar sem hv. 4. þm. Vestf. átti hlut að máli. Það hafa verið teknir áfangar í niðurgreiðslu raforku skref fyrir skref frá því á síðasta ári. Nemur nú kostnaður við meðaltalsaðstæður við upphitun húsnæðis með raforku um 62% af olíukyndingarkostnaði óniðurgreiddum. Ákveðið er að næsti áfangi þar verði stiginn ekki síðar en við næstu gjaldskrárákvörðun 1. maí n. k. þannig að þá verði náð 60% markinu. Þetta er mikið sanngirnismál og mikið nauðsynjamál og ég veit að okkur hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson greinir ekki á um það, en ég hlýt að undrast það nokkuð að hann skuli haga orðum sínum með þeim hætti sem hann gerði hér áðan vitandi um það sem gert hefur verið í þessum efnum og þá áherslu sem ríkt hefur af minni hálfu til að ná þarna fram nauðsynlegum leiðréttingum.

Hv. 4. þm. Vestf. sagði undir lok máls síns eitthvað á þá leið að athuga þyrfti með hvaða hætti sé unnt að stöðva valdníðslu mína. Það er sjálfsagt að hann athugi það og taki sér tíma í nefnd til að kanna leiðir til þess, ekkert hef ég við það að athuga. En ég vil að lokum beina þeim fsp. til hv. 4. þm. Vestf.: Telur hann ekki ástæðu til þess að stjórnvöld hafi heimild í sínum höndum til íhlutunar um gjaldskrár orkuveitna, orkufyrirtækja, þ. á m. varðandi gjaldskrá Landsvirkjunar? Telur hann rétt að slíkt fyrirtæki, sem nú er að færa út kvíarnar og fá aukið hlutverk í orkuöflun landsmanna. hafi frjálsar hendur um verðlagningu á þeirri orku sem það selur almenningsveitum? Telur hv. þm. að sú verðþróun sem verið hefur undanfarin ár sé þannig að ekki sé ástæða til fyrir stjórnvöld að geta tekið á því með öðrum hætti en stjórn Landsvirkjunar hefur gert og áformar á þessu ári? Mér þætti gott að fá svör við þessu frá hv. þm. og þau lægju hér skýrt fyrir.