15.02.1983
Efri deild: 44. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1952 í B-deild Alþingistíðinda. (1702)

190. mál, orkulög

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig vonum seinna að orkumál beri á góma í þessari hv. deild og þá að sjálfsögðu í ljósi þess sem síðast hefur gerst í þessum efnum. þeirrar miklu raforkuverðshækkunar sem hefur orðið og nú er að sliga heimilin sem við raforkuhúshitun þurfa að búa.

Það var nokkuð athyglisvert að velta fyrir sér málflutningi hæstv. iðnrh. Það fór ekki milli mála að horfinn er mesti glansinn af þeim ráðherradómi, enda verið að tala um það þessa dagana að nú sé Alþb. að taka saman pjönkur sínar og halda burt úr þessari ríkisstj. Það er þess vegna skiljanlegt þótt það séu þung og erfið spor, sem jafnframt liggur fyrir að eru gagnslaus, sem ráðh. er að stíga í sambandi við verðlagningu á orku. Kannske á það að vera eitthvert ofurlítið innlegg inn í næstu kosningabaráttu að um gjaldskrá hafi verið flutt frv. hér á Alþingi.

En einmitt núna við þessa umr. væri fróðlegt að fjalla um það hér sem menn voru að tala um fyrir síðustu alþingiskosningar, þegar fjallað var um hækkun á olíuverði til húshitunar, og fara yfir hvað menn sögðu um þann háska sem þeir stóðu frammi fyrir sem þurftu þá að hita híbýli sín með olíu. Og það er sannarlega athyglisvert að rifja það upp, nú þegar núv. hæstv. ríkisstj. er að skila af sér, að þetta fólk stendur frammi fyrir sama vandanum varðandi upphitun á sínum híbýlum og þó raunar miklu meiri vegna þess að nú er hann orðinn til í okkar eigin landi. Það hefur ekki komið inn í umr. um húshitunarkostnaðinn óhóflegur kostnaður á rafhitun fyrr en á síðasta ári. Og ef litið er á að framkvæmdir í orkumálum hafa á síðustu árum stórlega dregist saman er augljóst að þessi vandi er til orðinn af stjórnarferli núv. hæstv. iðnrh. og stjórnarstefnu núv. ríkisstj.

Þá er að athuga hvað þessi hæstv. ráðh. hefur til málanna að leggja við lok síns embættisferils í iðnrn. Það er sannarlega ákaflega þýðingarmikið að menn leggi það vel niður fyrir sér hvað þessi hæstv. ráðh. hefur þá til málanna að leggja. Ég vil í þessu sambandi aðeins minna á þrjú atriði.

Það er í fyrsta lagi hækkun á raforkuverði til álversins í Straumsvík. Það er að sjálfsögðu margyfirlýst, og um það er ekki ágreiningur hér á hv. Alþingi, að raforkuverðið til álversins í Straumsvík þurfi að hækka. Niðurstaða er hins vegar sú af störfum hæstv. ráðh., að hann hefur komið í veg fyrir að hægt væri að ná fram hækkun á álverðinu í Straumsvík.

En annað mál er það líka sem vert er að leggja áherslu á hér. Það sem skiptir meginmáli í sambandi við orkufrekan iðnað í þessu landi er að þau orkukaup leiði til þess að hægt sé að halda áfram að virkja, að hægt sé að halda áfram að taka ný orkuver í þjónustu fólksins í þessu landi og þannig sé með hagkvæmum rekstri orkufyrirtækja hægt að selja raforku með ódýru verði til húshitunar og þannig verði að það standist samanburð við hliðstæðan kostnað annars staðar á landinu til húsahitunar.

Það er að sjálfsögðu deginum ljósara að þessi mikli vandi, sem nú steðjar að raforkukaupendum til húshitunar, er til kominn vegna þess að reksturinn í þessum orkuiðnaði hefur hækkað svo mikið. Ég get bent á það í þessu sambandi, að þegar fjvn, fjallaði um áformaða taxta Rafmagnsveitna ríkisins núna fyrir jólaleyfi þm. kom það fram að vangoldnir reikningar frá tveim síðustu árum nema 30 millj. kr. Mér hefur nýlega verið tjáð að greiðsla á þeirri skuld sé ekki ennþá gengin inn í núverandi orkutaxta. Ég hef beðið um upplýsingar um þetta frá Rafmagnsveitum ríkisins og mér hefur verið heitið þeim útreikningum. Mér hafa ekki borist þeir og þess vegna hef ég hér vissan fyrirvara á um fullyrðingar, en í áætluðum töxtum Rafmagnsveitna ríkisins var við það miðað hjá fjvn., að þeir yrðu fyrir þetta ár 5% umfram verðbólgustigið í landinu og þau 5% sem þannig áttu að fást var áformað að færu til að greiða þær skuldir sem hafa safnast upp frá síðustu árum, m. a. vegna þess að Rafmagnsveitur ríkisins hafa ekki fengið að hækka gjaldskrárnar eins og þær töldu sér nauðsynlegt. Ástæðan fyrir því er að sjálfsögðu sú stefna, sem hefur verið fylgt í þessu landi í efnahagsmálum, að telja niður verðbólguna. Þar hefur nú komið fram árangurinn af þeirri niðurtalningu.

Þetta er sem sagt meginástæðan fyrir þeim miklu verðhækkunum sem orðið hafa á síðustu dögum og síðustu mánuðum á raforku til húshitunar. Og ég vil leggja á það áherslu að það sem hæstv. ráðh. bregður nú fyrir sig er að ná gjaldi af álverinu í Straumsvík til að greiða niður þá reikninga sem leitt hafa af stjórnarsetu hans og núverandi hæstv. ríkisstj. í stað þess, eins og ég sagði áðan, að það hefur verið meginmarkmið, meira að segja hjá hæstv. iðnrh., að miða orkusölu til stóriðnaðar við það að hægt væri að nýta orkuna í þessu landi meira en verið hefur.

Hæstv. iðnrh. talaði mikið fyrir því í upphafi þessa kjörtímabils og fyrir síðustu alþingiskosningar að það væri þörf á að koma á sérstökum orkujöfnunarskatti til að færa þannig vissan kostnað á milli fólksins í þessu landi. Í því rn. sem hann yfirgaf fyrir síðustu kosningar, hafði hann komið á fót sérstakri nefnd til að gera úttekt á þeim málum og tillögur. Ef ég man rétt var þar lagt til að koma m. a. á sérstökum skatti til orkujöfnunar. Nú er hæstv. ráðh. búinn að vera í rn. í þrjú ár og satt að segja með þeim árangri sem ég hef áður minnst á. Þá er þetta önnur haldbæra leiðin, þ. e. að taka upp skattlagningu á þau fyrirtæki sem eru sæmilega sett og færa það fé yfir til að greiða niður þessa óreiðu.

Þriðja ráðið er svo það, sem hæstv. ráðh. leggur fram í þessu frv., að setja lög um að Landsvirkjun sé ekki heimilt að hækka sínar gjaldskrár nema með leyfi ráðh.

Þetta er meginmálið í þessum efnum. Og ég held að það hafi kannske ekki með berari hætti í annan tíma verið kveðinn upp dómur yfir eigin embættisferli en með þessum tillöguflutningi.

Hæstv. ráðh. sagði frá því að það væri farið að borga niður raforku til húshitunar. Mig minnir að á fjárl. fyrir þetta ár sé sú upphæð, sem áformað er að verja til þess, 35 millj. kr. Það er út af fyrir sig fróðlegt að íhuga hvernig þetta fjármagn, það fjármagn sem hefur verið notað til að greiða niður raforku til húshitunar, hefur komið út þegar menn hafa verið að skoða sína reikninga á milli þess sem þeir hafa verið gefnir út á tveggja mánaða fresti. Ég hef t. d. séð reikninga þar sem kwst. lækkaði um 1 eyri. Niðurgreiðslan fór í að greiða niður verðlagshækkunina á tveggja mánaða tímabili. Þannig hefur nú árangurinn verið í þessum efnum.

Þá er vert að hyggja að því sem Alþingi lagði til varðandi þessi mál á kjörtímabilinu og sæmilegur friður hefur verið um og gott samkomulag. Og þá er vert að minna fyrst á það, sem líklega var gert hér í þessari deild í apríl eða maímánuði árið 1980, þegar voru samþykkt sérstök lög um jöfnun á húshitunarkostnaði. Allir alþm. voru sammála um m. a. það ákvæði að hækka söluskattsstofn um 1.5 stig. Um þetta var ekki ágreiningur á Alþingi og stjórnarandstaðan beitti sér ekki gegn skattlagningu í þessum efnum, heldur studdi stjórnarandstaðan þessa skatta þvert á móti og meðal annarrá við hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson. Nú væri út af fyrir sig fróðlegt að hæstv. iðnrh. segði þá sögu, hvernig hafi verið staðið við þetta samkomulag, það samkomulag sem var gert hér á Alþingi um að hækka söluskatt um 1.5 stig. Fyrir árið 1982 nam þessi tekjuauki að mig minnir 190 millj. kr. Ég hygg að það hafi líklega 1/6 verið skilað af þessu yfir í jöfnun á húsahitun í þessu landi. Og nú hafa fengist svör um að þessi tekjustofn muni skila liðlega 300 millj. kr. Ætli það sé ekki tæpur fimmti partur þess sem tekinn er til jöfnunar á húshitunarkostnaði. Þetta er kannske skýrara dæmi en nokkuð annað um hvaða tilgangi það þjónar fyrir stjórnarandstöðu að komast að samkomulagi við ríkisstj., eins og hér var gert m. a., um allstóra skattahækkun í þessu landi. Efndirnar eru með þessum hætti og svo bætist það við að við lok stjórnarferilsins er vandinn orðinn stærri en í upphafi og að því leyti miklu alvarlegri að hann er núna bundinn við innlenda orkuframleiðslu, en ekki orku sem er flutt um langan veg og kostar að sjálfsögðu mikið fjármagn.

Það er ekki furða þó að hæstv. iðnrh. hafi fremur hægt um sig í máli sem þessu, þegar niðurstaða fæst með þessum hætti. Og þá geta menn nú sannarlega metið hvað mikilvægt þetta frv. er. Auðvitað er hægt að skjóta hér nýrri rakettu á loft og gefa til kynna að Landsvirkjun sé orkustofnun, að Landsvirkjun taki of mikið fjármagn og að ráðh. þurfi að hafa í hendi sinni að stöðva slíkt til þess að orkukostnaðurinn verði ekki óbærilegur í þessu landi. Það getur verið þægilegt að tala þannig, ekki síst í þeim kjördæmum þar sem Landsvirkjun hefur ekki ýkjamiklu hlutverki að þjóna. En það dregur ekki úr orkukostnaðinum í þessu landi.

Ég hef áður minnst á það hér hvaða árangur hefur fengist af því að halda niðri gjaldskrám hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Auðvitað er mikil þörf á að fylgjast með rekstri þeirra fyrirtækja og ekki síst þeirra sem eru ríkiseign og iðnrh. ber ábyrgð á, hver svo sem hann er á hverjum tíma.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Ég fagna því að þessi mál skulu hafa komið hér á dagskrá, og mér finnst það vera gagnlegt fyrir þessa hv. deild að geta nú metið það, þegar þær ánægjulegu fréttir eru að berast út um landsbyggðina að Alþb. sé að yfirgefa sína ráðherrastóla, með hvaða hætti hefur til tekist í ráðherradómi orku- og iðnrh.