15.02.1983
Neðri deild: 40. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1963 í B-deild Alþingistíðinda. (1718)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég spurðist fyrir um það tvívegis í gær við 2. umr. þessa máls hvað liði lánsfjáráætlun fyrir yfirstandandi ár og hvenær þess yrði að vænta, að frv. til lánsfjárlaga yrði lagt fram. Nú er það yfirlýst af hæstv. forsrh. í dagblaðinu Vísi í dag, að ríkisstj. hyggist efna til kosninga í maí. Jafnframt kemur þar fram að Alþb. hyggist sitja áfram í ríkisstj., a. m. k. um sinn, hvað sem það nú þýðir. Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh. og skal ekki fara nánar út í það: Hvenær er þess að vænta, að frv. til lánsfjárlaga verði lagt fram og lánsfjáráætlun fyrir yfirstandandi ár?