15.02.1983
Neðri deild: 40. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1964 í B-deild Alþingistíðinda. (1720)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vona að mér leyfist að koma aftur að málinu sem er á dagskrá. Rætt var um skreið og gengismun af skreið. Ég treysti því að hv. fjh.- og viðsknm. hafi fengið áætlun frá Þjóðhagsstofnun dags. 28. jan. um ávöxtun þess fjármagns sem bundið er í skreiðarbirgðum og ekki er fengið að láni með afurðalánavöxtum. Ég hef lýst því hér í tvígang áður og skal ekki fara um það mörgum orðum.

Þó að eflaust megi deila um það hver þessi ávöxtun er, þá held ég að það sé tvímælalaust að hún er góð, og þótt töluvert af þeim vaxtatekjum, sem menn hafa af því fjármagni sem ekki er með afurðalánavöxtum, renni að sjálfsögðu til að greiða ýmis lán önnur, sem á þessu hvíla, þá er þarna mikið borð fyrir báru. Enda hef ég ekki heyrt því mótmælt eða talið að afkoma skreiðarframleiðenda sé svo slök þegar skreiðin fer úr landi, þegar hún selst. Ég skal ekkert um það ræða hvort það verður fljótlega eða ekki, en vek athygli á því sem ég hef áður sagt, að sem betur fer hefur alltaf ræst úr um síðir þegar svo hefur staðið á sem nú. Og ég endurtek að það er alls ekki verið að skattleggja skreiðarframleiðendur á þessari stundu, ekki fyrr en skreiðin fer úr landi. Ég vek einnig athygli á því, að í þeirri gengislækkun sem ákveðin var í ágúst í framhaldi af efnahagsaðgerðum, þá var vitanlega tekið tillit til þessa útflutningsgjalds.

Ég hef einnig komið til fjh.- og viðskn. síðustu upplýsingum um gengismun af skreið. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. frsm. hér áðan, að þar er um nímar 60 millj. kr. að ræða samkv. síðustu upplýsingum. Hins vegar áætlar Seðlabankinn þetta vera 81 millj. í des. og það var það sem ég var með í huga þegar ég ræddi málið í gær. Bankinn hefur dregið dálítið úr þessu og við því er ekkert að segja, það er varlegri áætlun.

Ég vek athygli á því að við erum að tala sýnist mér um tvennt: annars vegar hvort taka á gengismun af skreið og hins vegar hvernig á að ráðstafa þeim gengismun.

Brtt. mín var um það að hluta af þeim gengismun yrði ráðstafað til útlána til fyrirtækja sem eiga í erfiðleikum. Þetta hefur verið gagnrýnt. Að öðrum kosti gerði frv. ráð fyrir að þetta rynni allt í Stofnfjársjóð fiskiskipa. Ég hef ekki heyrt það gagnrýnt út af fyrir sig og mér finnst að menn verði að greina þar á milli. Ef menn ætla að taka gengismun af skreið, þá þarf síðan að ákveða hvernig honum er ráðstafað. Mér heyrðist hv. frsm. gagnrýna það áðan að þessum gengismun ætti að ráðstafa í gegnum Byggðasjóð. Því bið ég menn að athuga í fyrsta lagi: Á að taka gengismun af skreiðinni? Og síðan þá sérstaklega: Hvernig á að ráðstafa honum. Þær tvær brtt. sem ég hef hér flutt fjalla um þessi tvö atriði sitt í hvoru lagi.