15.02.1983
Neðri deild: 40. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1965 í B-deild Alþingistíðinda. (1722)

85. mál, efnahagsaðgerðir

Frsm. 3. minni hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Svo sem sjútvrh. sagði hér áðan, þá er enginn vafi á því að hér er um að ræða tvö atriði, sem fjallað er um, annars vegar hvernig ráðstafa eigi gengishagnaði og hins vegar hvort taka eigi gengismun af þeim birgðum skreiðar sem í landinu eru nú, þegar þá eru fluttar út.

Við 2. umr. vék ég sérstaklega að því að hér væri verið að fara inn á nýjar leiðir að taka gengismun út úr greininni, út úr sjávarútveginum. Hingað til hefur gengismun verið ráðstafað innan sjávarútvegsins til sjóða og stofnana hans. En með till. sjútvrh., þ. e. síðari till., er gert ráð fyrir því að hann hafi heimild til, í samráði við sjávarútvegsnefndir Alþingis, að ráðstafa eftirstöðvunum þegar búið er að ákvarða hvað Stofnfjársjóður skuli fá. En um leið og þessi till. var flutt var því lýst yfir að ríkisstj. hefði þá þegar ákvarðað með hvaða hætti þetta skyldi gert, það skyldi ekki fara til stofnana eða sjóða sjávarútvegsins. Ég lýsti þvi yfir að við værum andvígir þessu og á fundum fjh.- og viðskn. kom fram að hér væri um einsdæmi að ræða, þetta hefði aldrei áður gerst.

En hvers vegna eru menn að tala um fjármagn til ráðstöfunar? Það er vegna þess að sá gengismunur, sem áætlaður var í ágústmánuði á s. l. ári, mun reynast nokkuð meiri en þá var gert ráð fyrir, eða sem nemur um 60 millj. kr. Það er nákvæmlega sú tala sem talað er um að gengismunur skreiðar muni nema. Ég benti á það við þá umr. hvort ekki væri skynsamlegra að fella þetta ákvæði niður, þ. e. breyta greininni þannig, að gengismunur af skreiðarbirgðum yrði ekki tekinn. Við hv. 1. þm. Vestf. fluttum síðan till. þar að lútandi við 2. umr. sem var samþykki. Það er þess vegna nægjanlegt fjármagn af þeim gengismun sem inn er kominn og eftir er að koma inn af öðrum birgðum en skreið, svo að við allt það sem brbl. gera ráð fyrir er hægt að standa. Og þá er komið inn á það, sem við bentum á að eðlilegast væri, að þegar þær birgðir verða fluttar út yrðu þær afreiknaðar á því gengi sem þá yrði og skreiðarframleiðendur nytu þess að fullu.