15.02.1983
Neðri deild: 40. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1971 í B-deild Alþingistíðinda. (1727)

195. mál, viðmiðunarkerfi fyrir laun

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni stjfrv. í skilningi laga, eins og hæstv. forsrh. og forseti

Nd. hafa skilmerkilega gert grein fyrir, og þýðir í raun að Alþb. — einn stjórnarflokkanna — ber pólitíska ábyrgð á þessu frv. Þótt yfirlýsingar um fyrirvara vegna efnis frv. hafi komið fram úr þessum ræðustól, bæði frá einstökum hv. þm. Alþb. og hæstv. ráðh., hlýtur Alþb. að bera sína ábyrgð á meðan Alþb. er yfirlýstur stuðningsflokkur ríkisstj. og meiri hl. á Alþingi byggist á þátttöku Alþb. í hæstv. ríkisstj.

Það er ljóst að fulltrúi Alþb. starfaði með þeirri nefnd sem kölluð hefur verið vísitölunefndin eða viðmiðunarnefndin. Á bls. 3 í grg. frv. er sagt í stuttu máli frá því hver séu sjónarmið Þrastar Ólafssonar aðstoðarmanns fjmrh., sem skilaði séráliti. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi taldi Þröstur að fresta bæri að koma á fjögurra mánaða kerfi um einn mánuð, þannig að verðbætur greiddust næst 1. mars samkv. gamla kerfinu, en síðan yrði fjögurra mánaða kerfið tekið upp.“

Ég skýt því hér inn í að ágreiningur Alþb. við frv. byggist þess vegna ekki á lengingu verðbótatímabilsins, heldur hvenær slík lenging eigi að taka gildi. Nú vitna ég orðrétt til þess sem segir í grg. með þessu stjfrv.:

„Í öðru lagi lagði hann til, að í stað tilgreindra frádráttarliða kæmi fastur hlutfallslegur frádráttur. Um önnur atriði var í meginatriðum samkomulag í nefndinni.“

Það er ekki heldur ágreiningur um það á milli Alþb. og annarra stjórnaraðila að það skuli vera frádráttarliðir sem gera vísitölukerfið lekt, ef svo má að orði komast. Það er aðeins spurning um hvers konar frádráttarliði þar eigi að vera um að ræða. Þeir sem lýst hafa yfir fylgi við frv. telja að það eigi að samþykkja með þessum frádráttarliðum sem lýst er í sjálfu frv., en fulltrúi Alþb. leggur til að það komi fastur hlutfallslegur frádráttur. Til þess að lýsa einhverju sem er hliðstætt má ímynda sér að ágreiningurinn sé ekki meiri en sá sem er á milli þeirra sem vilja að frádráttarliðir séu í tekjuskattslögum og hinna sem vilja hafa fastan hlutfallslegan frádrátt, eins og er nú hægt að velja um í sambandi við framtöl, svo að ég taki dæmi sem er ákaflega nýlegt.

Þetta frv., sem hér er til umr., er mjög frægt. Það hefur verið milli tanna á mönnum alllengi. Það var sagt strax í haust að beðið væri eftir þessu frv. og þess vegna væri ekki hægt að leggja fram brbl. til staðfestingar, enda dróst það úr hömlu því að hér er á ferðinni eitt af fylgifrv. brbl. Í 1. lið yfirlýsingarinnar sem fylgdi brbl. kemur fram mjög greinilega að gert var ráð fyrir að nýtt viðmiðunarkerfi tæki gildi eftir 1. des. s. l. Það er þess vegna ljóst að Alþb. tók þátt í því samkomulagi í sumar, í ágúst, að samþykkja nýtt viðmiðunarkerfi, þ. á m. að lenging verðbótatímabils tæki gildi eftir 1. des. Svo mega menn hafa mismunandi skoðanir á því, hvað „eftir 1. des.“ þýðir í mæltu íslensku máli.

Efni frv. er í fyrsta lagi nýr vísitölugrundvöllur í stað þess gamla, sem er löngu úreltur orðinn, í öðru lagi lenging verðbótatímabila, í þriðja lagi meiri frádráttur vegna orkukostnaðar og í fjórða lagi það að óbeinir skattar og niðurgreiðslur fari út úr vísitölunni.

Við 1. umr. málsins er ekki eðlilegt að fram fari ítarlegar efnislegar umr. um frv. Málið verður að sjálfsögðu skoðað með eðlilegum hætti í hv. fjh.- og viðskn. Nd., en á það verður að benda, að sá árangur í baráttunni við verðbólguna, sem á að nást með því að tengja þetta nýja vísitölukerfi, er sá, að hún er talin verða a. m. k. 5–6% lægri en óbreytt vísitölukerfi mundi skila. Sjá menn þá árangurinn þegar til þess er litið að gert er ráð fyrir því samkv. spám Seðlabanka að verðbólga á yfirstandandi ári verði 75% mælt í framfærsluvísitölu frá áramótum til áramóta.

Frv. þetta er byggt á gamalli yfirlýsingu í stjórnarsáttmála ríkisstj., en nú eru liðin rúm þrjú ár frá því að sú ágæta bók var gefin út og gerist nú æ fátíðara að vitnað sé til hennar, enda virðist enginn vilja kannast við það sem í þeirri bók stendur. Samkv. stjórnarsáttmálanum átti þó að vera fullt samkomulag á milli stjórnaraðilanna, beggja stjórnarflokkanna og þeirra sjálfstæðismanna sem sitja í ríkisstj., um það sem varðaði kjaramál og sérstaklega ef um kjaraskerðingar væri að ræða. Slíkt samkomulag hefur verið með miklum ágætum í núv. hæstv. ríkisstj., enda hafa allir aðilar ekki vílað fyrir sér að efna til kjaraskerðingar með lögum, bæði með áframhaldandi beitingu svokallaðra Ólafslaga og með sérstökum skerðingum, sem áttu sér stað fyrst að verulegu leyti snemma á árinu 1981, nánar tiltekið frá 1. mars með brbl. þá og svo síðan með brbl., sem sett voru í sumar, en sú skerðing skilaði 7.7% launaskerðingu launafólks í landinu. Um þessa launaskerðingu og aðrar slíkar hefur ríkt fullt samkomulag innan hæstv. ríkisstj., þótt ekki sé um slíkt að ræða við þá viðbót sem kemur með þessu frv.

Fyrir rúmu ári, þegar hæstv. ríkisstj. gafst upp við að stjórna efnahagsmálum þjóðarinnar og ákvað að fresta öllum aðgerðum til lausnar efnahagsvandanum og dró það úr hömlu-reyndar allt árið fram til ágústmánaðar — að hefjast handa í lausn aðsteðjandi vandamála, gaf hæstv. ríkisstj. út efnahagsskýrslu og í henni segir, með leyfi forseta, um nýtt viðmiðunarkerfi:

Ríkisstj. mun nú þegar stofna til viðræðna við samtök launafólks og aðra hagsmunaaðila atvinnulífsins um viðmiðunarkerfi, sem gæti komið í stað núverandi vísitölukerfis og tryggt kaupmátt og jöfnun lífskjara, en væri laust við höfuðókosti þess kerfis sem nú gildir. M. a. verður reynt að finna leið til þess að ráðstafanir til að jafna orkukostnað landsmanna valdi ekki aukinni verðbólgu. Þá mun ríkisstj. hefja viðræður við aðila að verðmyndunarkerfi sjávarútvegs og landbúnaðar um breytingar á skipan þeirra mála, sem stuðlað gætu að hjöðnun verðbólgu, en tryggt um leið afkomu í greinum þessum.“

Hér lýkur tilvitnun í efnahagsskýrslu hæstv. ríkisstj., sem var lögð fram á Alþingi seint í janúarmánuði 1982. Það er full ástæða til að spyrja hæstv. ríkisstj. og talsmenn hennar, hvort eitthvað hafi verið unnið að síðari liðnum, viðræðum við aðila að verðmyndunarkerfi sjávarútvegs og landbúnaðar, og hvernig þeim viðræðum hafi lyktað, hafi þær einhvern tíma hafist. Það er ljóst, að þegar gerðar eru breytingar á borð við þær sem gerðar eru í viðkomandi frv. hlýtur slíkt að hanga saman við hugsanlegar breytingar á verðmyndunarkerfi sjávarútvegsins og landbúnaðarins.

Í 1. umr. er full ástæða til að gagnrýna hvernig að þessu frv. er staðið. Í fyrsta lagi ber að nefna það, að ekkert samráð hefur verið haft við stjórnarandstöðuna í þessu máli. Að vísu er sagt að haft hafi verið samráð við verkalýðshreyfinguna og atvinnurekendur, en sé grg. lesin kemur ekkert fram sem bendir til þess að þar liggi fyrir hugmyndir annars vegar verkalýðshreyfingarinnar og hins vegar atvinnurekenda um þessi mál. En það er ljóst að ekkert samráð hefur verið haft við stjórnarandstöðuna í þessu máli og það þrátt fyrir að hæstv. ríkisstj. væri kunnugt um að hún hefði ekki lengur starfhæfan meiri hl. á hv. Alþingi. Nú má spyrja á móti: Er það eðlilegt að haft sé samráð við stjórnarandstöðuna í máli eins og þessu? — Það kunna að vera ýmsar skoðanir uppi um það, en ég vil minna á að þegar ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar skoðaði verðbólgumálin á sínum tíma var ekki einungis haft samráð við stjórnarandstöðuna, heldur tók stjórnarandstaðan fullan þátt í því starfi sem þá var unnið.

Í öðru lagi ber að gagnrýna hve seint þetta frv. kemur fram á þinginu. Það er ljóst samkv. yfirlýsingum hv. stjórnarsinna á Alþingi að ætlunin var að leggja frv. miklu fyrr fram á þinginu. Nú eru aðeins fáeinir dagar til 1. mars og það er ljóst að ef þetta frv. á að verða að lögum og taka gildi 1. mars verður samþykkt þess að liggja fyrir um miðja næstu viku. Og ég spyr: Er trúverðugt að leggja fram frv. í gær, fylgja því úr hlaði í dag, þegar ljóst er að bullandi ágreiningur er í hæstv. ríkisstj. um málið, og búast við því að fá hraða afgreiðslu á Alþingi, þegar ljóst er að ráðherrar, þ. á m. hæstv. forsrh., eru á leið úr landi? Ég spyr: Er þetta trúverðugt? Það er fyllilega réttmætt að gagnrýna hve frv. kemur seint fram og það seinlæti skrifast auðvitað á ábyrgð hæstv. ríkisstj.

Herra forseti. Við sjálfstæðismenn viljum að sjálfsögðu að þetta mál fái eðlilega meðferð í þinginu. Þetta er viðkvæmt mál, sem þarf að skoðast vandlega af hv. nefnd. Að slíkri eðlilegri skoðun munum við standa.