15.02.1983
Neðri deild: 40. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1995 í B-deild Alþingistíðinda. (1731)

195. mál, viðmiðunarkerfi fyrir laun

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh., sem nú var rétt að ljúka máli sínu, endaði mál sitt á að geta þess, að hann væri sannfærður um það að næsta ríkisstj. yrði að draga úr verðbólgunni. Fyrir tæpum fjórum árum var hann næsta ríkisstj., hafði unnið kosningasigur með þeirri áætlun að ætla sér að draga úr eða banna verðbólgu með lögum. Árangurinn þekkja nú allir því að hann blasir við í dag. Þessi áætlun, sem þá var kölluð niðurtalning og var auðvitað réttnefni fyrir þá áætlun sem gerð var, byggð á þeirri hugsun að telja verðbólguna niður þrep af þrepi með lögum. Niðurstaðan er sú sem við blasir. Nú kemur hæstv. sjútvrh. enn, hann virðist vera þeirrar skoðunar að kosningar séu að koma fyrr en síðar, og segir: Að næstu kosningum liðnum þarf að koma ný ríkisstj. sem bannar verðbólguna með lögum. Það frv. sem hér er til umr. og hæstv. forsrh. hefur mælt fyrir er einmitt frv. af þessari tegundinni, þar sem þess er freistað að banna verðbólguna með lögum eða draga úr henni með lögum.

En kjarni málsins er held ég sá, og fulltrúar þessara fjögurra stjórnmálaflokka svokallaðra eiga það allir sameiginlegt að þeirra brautir eru rangar að því leytinu til, að það er ekki hægt að ráða niðurlögum þessa fyrirbrigðis með því að lögbanna það. Reynsla undanfarinna ára ætti að hafa kennt okkur að menn eru á rangri leið. Það sem menn verða að fara að gera er að skoða undirstöðurnar sjálfar og það sem þar er augljóslega úr jafnvægi og veldur fyrir vikið jafnvægisleysi. Ég mun koma að því nokkuð síðar.

Áður en lengra er haldið vil ég rifja það upp að þegar hæstv. forsrh. mælti hér fyrir þessu frv. í dag hóf hann ræðu sína á því að tilkynna Alþingi að ákveðið hefði verið að alþingiskosningar færu fram eigi síðar en 23. apríl. Þetta er auðvitað mikil yfirlýsing ef nokkuð er að marka hana. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ég er sannfærður um að svona yfirlýsingu gefur hæstv. forsrh. ekki nema hann sé knúinn til þess. Það getur ekki verið vilji þess sem á að standa í fyrirrúmi í þjóðarskútunni að varpa fram svona vitlausri hugmynd og kenningu. Og af hverju er kenningin bæði vitlaus og ábyrgðarlaus? Vegna þess að á þessari stundu höfum við ekki hugmynd um hvernig okkur miðar áleiðis í því að gera breytingar á öðrum þáttum þessa kerfis, nefnilega í stjórnarfarslegum efnum og í skyldum málum, þ. e. kosningamálum.

Að ákveða þessa hluti áður en Alþingi hefur séð eitthvert samkomulagsfrv., sem okkur skilst aðallega í gegnum fjölmiðla að verið sé að vinna að og sé á döfinni og enginn veit hvort er satt eða logið, það er náttúrlega alveg forkastanlegt. Ef frv. kæmi fram og hv. Alþingi sæi að það gæfist hálfur mánuður til viðbótar, þá væri hægt að ganga frá slíku máli. Vitaskuld eiga málin að koma fyrst og ákvörðun um kosningar svo, nema eitthvað annað hangi á spýtunni, nefnilega það að flokkarnir fjórir ætli að hlaupa frá öllu saman, efnahagsmálum annars vegar og stjórnkerfismálum hinsvegar, með allt niður um sig og biðja fólkið um að kjósa sig aftur. Er það furða þó að sá grunur hvarfli að mér og einhverjum fleirum, sem eru þó fyrir utan þetta hús og ekki inni í því, að það sé nákvæmlega þetta sem stendur til?

Ég trúi því ekki að hæstv. forsrh., dr. Gunnar Thoroddsen, flytji þinginu erindi af þessu tagi nema einhverjir, sem hugsa á lægri nótum, hafi lagt að honum að gera svo. Vitaskuld hlýtur röðin að vera sú að tillögurnar, sem fyrir þinginu liggja, komi fyrst og ákvörðun um kosningar svo. Því að um eitthvað ætla menn að kjósa væntanlega, nema menn ætli eftir sem áður að kjósa um ekki neitt? En ætli menn um eitthvað að kjósa, þurfa menn þá ekki að vita hvað það er sem hver og einn er að leggja til? En það er eins og hér sitji fulltrúar fjögurra stjórnmálaflokka, fjórflokkanna, og þeir vilji að slík ákvörðun sé ekki tekin, þeir vilji hlaupa frá öllu saman.

Menn verða að huga að því að 23. apríl er ekki ýkjalangt undan. Eigum við ekki að segja að tveir mánuðir séu eðlilegur tími frá þingslitum til kosninga? Það er vika í 23. febr. Á sama tíma er verið að tala um það að formenn fjórflokkanna sitji við og séu að ná allsherjar samkomulagi um eitthvert mál, sem enginn veit hvað er og enginn veit hvort satt er eða logið. Þetta lyktar meira en lítið af pólitísku braski, af pólitískum „spekulationum“ eða hvað það er sem hentar þessu sitjandi valdakerfi. Er það furða þó að sá grunur læðist að manni að það sé það og það eitt sem þessu valdi? Því það hlýtur að vera skylda þjóðþingsins í landinu að afgreiða þau mál sem fyrir því liggja fyrst og efna til kosninga svo, nema fjögurra ára tíminn sé liðinn, en hann er ekki liðinn fyrr en í haust eins og menn vita.

Sú yfirlýsing sem hæstv. forsrh. gefur í upphafi síns máls um kjördag byggist m. ö. o. ekki á hagsmunum þjóðarinnar og er væntanlega ekki til þess hugsuð. Hún byggist á hagsmunum einhverra annarra og þeir sitja sennilega flestir hér og ekki annars staðar. Þetta er náttúrlega óhugnanleg ástandslýsing á þjóðkjörinni samkomu sem hér er um að ræða. Ég endurtek það að úr því að hæstv. forsrh. flutti þinginu þessi skilaboð trúi ég því að það geri hann gegn vilja sínum og fyrir orð einhverra annarra, sem hugsa á lægri nótum en hann gerir sjálfur í þessum málum, þó ekki væri nema vegna þess að hann hefur einnig verið formaður stjórnarskrárnefndar.

En engu að síður, þessi boðskapur er fluttur og ég trúi því að þjóðin muni meta hann að verðleikum og eins og til er stofnað. En því skiptir þetta máli að menn verða að fara að átta sig á því, að annars vegar er augljóst misvægi í efnahagsmálum. Þessi mikla verðbólga, þessar miklu skuldir erlendis, hinar stöðugu fjármunatilfærslur, mest bak við byrgða glugga, er auðvitað jafnvægisleysi, þær eru misvægi. Við erum matvælaframleiðendur í hungruðum heimi og við gætum búið við bæði jafnvægi og réttlæti. Við eigum ekki að bera okkur saman við stórar iðnaðarþjóðir sem eiga við annars konar vanda að etja. Engu að síður höfum við þetta gegndarlausa jafnvægisleysi.

Það sem við verðum að fara að skynja er það, að frv. eins og það sem ráðh. mælti fyrir hér í dag, frv. eins og það að fyrirskipa lækkun verðbólgu á þriggja mánaða fresti eða telja hana niður, slík frumvörp eru tómt rugl ef menn eru ekki á undan búnir að leiðrétta skekkjurnar í stjórnkerfinu sjálfu. Og hverjar eru þessar skekkjur? Í fyrsta lagi auðvitað misjafn atkvæðisréttur, þegar atkvæði eru jafnframt ávísanir á peningastofnanir þjóðfélagsins, þ. e. Framkvæmastofnun, bankaráðin og allar þessar lokuðu stofnanir par sem fjármagn streymir út fyrir atkvæði á móti. Misjafn og misdreifður atkvæðisréttur verður svo ranglátur sem raun ber vitni þegar menn kaupa sig inn á þing og þaðan inn í sjóðina og greiða til baka með sama hætti. Það er þarna sem skekkjurnar í þjóðfélaginu liggja. Menn þurfa ekki annað en horfa á prófkjörin út um allt land og sjá um hvað þeir eru að berjast innan flokkanna. Ég nefni til hv. þm. Eggert Haukdal, sem hér segir og hefur gert lýðræðinu í landinu þann greiða að gera það opinbert sem aðrir blygðast sín fremur fyrir. Þetta veit auðvitað bæði þingið og þjóðin.

Við horfum á aðrar skekkjur í stjórnkerfinu. Ein er útgáfa brbl., 100 ára gamalt ákvæði, sem vitaskuld er orðið úrelt, þar sem stjórnkerfið misfer með vald í því skyni að skekkja efnahagskerfið. Þriðja er þingrofsrétturinn, sem menn vita að hefur verið sveiflað yfir þinginu núna sem svipu, 100 ára garnalt ákvæði, úrelt fyrir löngu sem gerir það að verkum að hv. Alþingi verður að standa frammi fyrir því annaðhvort að samþykkja frumvörp gegn vilja sinum raunverulega eða fá þingrof yfir sig með dags fyrirvara. Dæmi um úrelt og ónýt ákvæði.

En menn þurfa að ganga lengra. Menn þurfa að jafna atkvæðisréttinn með öðrum hætti. Um það eru uppi tillögur. Menn þurfa að koma í veg fyrir að þeir sem hér eiga að sitja og setja almennar leikreglur séu alla morgna og öll kvöld í peningastofnunum að útvega vinum sínum fríðindi á vildarkjörum, auðvitað pólitískum vinum því að það leitar í þann farveg, manneðlið er alltaf eins að því leytinu til.

Það eru þessi lykilatriði í stjórnkerfinu sem við verðum að leiðrétta. Við getum ekki búið til leiðréttingar í efnahagskerfinu sjálfu fyrr en við erum búnir að átta okkur á þessum lykilatriðum. En vitaskuld vill flokkakerfið ekki láta klippa á sín ósmekklegu völd með þessum hætti. Því vilja þeir láta allt húrra niður um sig og vaða út í kosningar sem allra fyrst, svo að engar breytingar verði. Og raunar alveg sama hverjir þeirra mynda stjórn að kosningum loknum, ef þeir aðeins fá að gera það með óbreyttum hætti, t. d. að fjármagna dagblöðin sín í gegnum þetta sama lokaða kerfi, til að nefna fjögur hallærisfyrirtæki í Reykjavík. Það er þetta sem skiptir máli. Það skiptir máli að menn átti sig á samhengi, á nauðsyn stjórnkerfisbreytinga annars vegar til þess að hægt sé að koma efnahagsfleyinu á réttan kjöl. Það er þetta sem er kjarni málsins. Því eru þeir til, þó fleiri séu þeir væntanlega enn utan þessa húss en innan þess, sem hafa áhyggjur af því að verði stjórnkerfið sjálft ekki lagfært, sem er auðveli og ætti að taka skamman tíma, þá verða í kjölfarið engar lagfæringar á efnahagsstefnunni. Þegar svo hæstv. sjútvrh. endar mál sitt á sama tuðinu og fyrir fjórum árum, að næsta ríkisstj. þurfi að setjast niður og lögbinda minni verðbólgu, sem er misheppnuð efnahagsaðgerð í 10 ár, þá er sannarlega engin furða þó að mönnum bregði.

Efnislega er hér verið að flytja eitt frv. enn í þessa veru. Ég vil segja það strax að ég er andstæður þessu frv. Ég er ekki andstæður því vegna þess að aðferðin, sem verið er að leggja til, geti ekki verið skynsamleg. Það getur verið skynsamlegt að reikningstímabil verðbóta sé fjórir mánuðir í staðinn fyrir þrjá. En málið er það að slíkt á ekki að lögbinda á Alþingi. Sé slíkt skynsamlegt og hagkvæmt launafólki og fyrirtækjunum, þá eiga auðvitað launamennirnir annars vegar og fyrirtækin hins vegar að semja um það sem frjálsir menn í frjálsum samningum.

Nú er þetta frv. eflaust ekki flutt af illum hvötum hjá hæstv. forsrh. eða öðrum ráðh. í ríkisstj. Þeir segja væntanlega að launþegakerfið annars vegar og fyrirtækjakerfið hins vegar sé ófært um að taka þessa ákvörðun sjálft. Þá verða menn að viðurkenna það og ræða að þar er eitthvað að. Ef þetta eru hagsmunir heildarinnar, eins og sagt er og ég út af fyrir sig dreg ekki í efa að sé, þá verður þessi ákvörðun engu að síður að koma úr frjálsum samningum frjálsra manna, því að með öðrum hætti ráðast ekki þessi mál til lykta þegar til lengri tíma er litið. Þá bara lætur kerfið undan einhvers staðar annars staðar.

Kjarni málsins er sá, grundvallarhugsun um frjálsa samninga í fyrsta lagi um fiskverð, sem er auðvitað grundvallarstærð efnahagslífsins vegna þess að mikið af okkar útflutningi er sú afurð, er sú að þeir fari fram með frjálsum hætti milli þeirra annars vegar sem draga fisk úr sjó og hins vegar vinnslunnar og þeir beri fulla ábyrgð á niðurstöðum samninga. Og á hinn bóginn að samningar um kaup og kjör fari einnig fram með þessum sama hætti.

Ef það er í þágu þjóðfélagsins og þar með launafólksins, sem telur auðvitað langflesta, að verðbólgan verði lækkuð og ef aðferð til þess er að lengja reikningstímabil verðbótanna, þá auðvitað gera launþegarnir það. En það á ekki að fyrirskipa það með lagaboði frá Alþingi, vegna þess að sú leið kemur alltaf ekki bara í bakið á þjóðþinginu heldur á þjóðinni allri og hennar hag. Þetta er svo margsannað að það er auðvitað fáránlegt að vera enn árið 1983 að flytja hugmyndir af þessu tagi. Við getum ekki farið aðra leið en að gera samfélagsgerðina þannig úr garði, að um þessar grundvallarstærðir, verðið á afla sem dreginn er úr sjó, kaup og kjör launþega og verð á landbúnaðarafurðum, sé samið og það verðlagt með frjálsum hætti, það er eina leiðin. Hún tekur auðvitað lengri tíma, hún er meira þolinmæðisverk og oft þurfa menn að fara sér hægar, en menn lögbinda ekki betri lífskjör en samansöfnuð verðmæti bjóða upp á. Það er ekki hægt.

Öll þessi saga, um lögbindingu á niðurtalningu, núna lögbindingu á annars konar vísitölu, sýnir sig að koma í bakið á þeim sem lögin settu. Þetta er kjarni málsins. Af þessari ástæðu er ég andvígur þessu frv. en ekki af hinu, að ég sé þeirrar skoðunar að það þurfi að vera óskynsamlegt. Það er bara ekki málið hvert mitt mat er á því eða annarra þeirra sem löggjafarsamkomuna skipa. Það á að ráðast í frjálsum samningum einstaklinga og samtaka þeirra.

Hér er verið að leggja til í 2. gr. þessa frv., með því að verðbætur komi ekki til útreiknings fyrr en 1. apríl, þær eiga að koma til samkv. núgildandi samningum 1. mars, flutning á verðmætum hjá launafólki til fyrirtækja. Það er auðvitað alveg augljóst og sér hvert óarn. Með þessum hætti á löggjafinn ekki að grípa inn í samninga. Ef samtök fyrirtækja eru þeirrar skoðunar að skynsamlegra sé að borga verðbætur á fjögurra mánaða fresti eða sex mánaða fresti, þá semja þau um það. Þann samningsrétt hafa þau. Þann samningsrétt hefur launafólkið líka. Það verður að skipa sínum málum með þeim hætti sem eðlilegastur er.

Prinsippið um frjálsa samninga og ábyrgð þeirra sem samningana gera verður að vera svarið við þessu ríkisinngripakerfi, sem nánast ævinlega er í þágu þeirra fyrirtækja sem verst eru rekin og þeirra einstaklinga sem ættu að vera að gera eitthvað allt annað en sinna atvinnurekstri. Það er þar sem við þurfum að snúa við blaðinu. Það eru þær undirstöður þessa efnahagskerfis sem við þurfum að styrkja. Þetta er hægt. Útfærslan er í raun og veru sáraeinföld, aðeins ef menn viðurkenna það. En það þýðir auðvitað það, að hv. alþm. eiga ekki að vera í skömmtunarsætunum í Framkvæmdastofnun eða niðri í Útvegsbanka eða í Fiskveiðasjóði eða hvar þeir eru. Það á heldur ekki að vera þeirra hlutverk að vera þar. Þetta er kjarni málsins. Þetta er hægt að laga með þessum hætti.

Herra forseti. Ég hóf mál mitt á því að nefna það, að hæstv. forsrh. hefur framsöguræðu sína fyrir frv. til l. um nýtt viðmiðunarkerfi fyrir laun o. fl. á því að lýsa kosningadegi. Hér í bakherbergjum er einhvers staðar verið að semja frv. að nýrri stjórnarskrá. Þorri þm. veit sennilega ekkert um það nema það sem þeir lesa í blöðum. Svona á þetta ekki að vera. Að lýsa yfir kjördegi áður en menn vita hvaða frv. þetta er og hvernig það er hugsað er auðvitað furðuleg yfirlýsing og furðulegur dónaskapur við þjóðina sem í hlut á. Setjum svo, sem er að vísu ekki mjög líklegt, að formenn fjórflokkanna búi til nokkuð gott frv. Setjum svo, að þjóðin vilji þetta og a. m. k. einhverjir þm. mætu það svo. Með hvaða rétti eru menn þá að dagsetja kosningar áður en þetta liggur fyrir? Það er ekki í þágu þeirra sem fyrir utan þetta hús eru. Það er í þágu einhverra þröngra hagsmuna hér inni. Það er það sem auðvitað er alvörumál sem þjóðin þarf að fá um að vita. Þannig hóf hæstv. forsrh. þessa ræðu sína. Hann tengdi þessi tvö mál saman. Ég vil þá gera það einnig, því að augljóslega eru þau tengd.

Herra forseti. Að því er efni þessa frv. varðar er ég þeirrar skoðunar að samningar milli einstaklinga eigi að vera frjálsir. Þeir eigi sjálfir að bera ábyrgð á því hvað þeir semja um og með hvaða hætti. Af þeim ástæðum er ég andvígur þessu frv.