01.11.1982
Sameinað þing: 10. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen beindi til mín tveimur fsp. og skal þeim svarað.

Það er rétt til getið, sem hv. þm. gaf í skyn með fyrri spurningu sinni, að ég var ekki og er ekki sáttur við vaxtaákvarðanir Seðlabankans, sem teknar voru nú fyrir seinustu helgi, hvorki að efni né að formi til. Ég get líka bætt því við og staðfest það, sem ég hef áður látið koma fram, að mér komu þessar ákvarðanir á óvart þar sem ráðherranefnd, sem ríkisstj. hafði tilnefnt til að fjalla um málið, hafði þá ekki lokið störfum.

Hins vegar vefengi ég að sjálfsögðu ekki lagalegan rétt bankastjórnar Seðlabankans til að taka ákvörðun um vaxtahækkanir, og vissulega má til sanns vegar færa að samráð hafi verið höfð við ríkisstj., þótt augljóst sé að ríkisstj. hafði ekki sagt sitt seinasta orð um þetta efni þegar ákvörðun var tekin.

Hvað afurðalánin snertir og þá spurningu hv. þm. hvort ég sé því samþykkur, að afurðalán verði verulega hækkuð í samræmi við tillögur bankastjórnar Seðlabankans, vil ég svara því þannig að ég er ekki reiðubúinn til að taka afstöðu til þeirrar spurningar á þessu stigi málsins og tel óhjákvæmilegt að menn geri sér fulla grein fyrir hver sé kostnaðarauki atvinnuveganna af þeirri hækkun afurðalánavaxta og hvernig ætlunin sé að mæta þeim kostnaðarauka.

Ég vil vekja athygli á því, að við Alþb.-menn höfum gert aðra hlið vaxtamálanna en þá sem ég hef nú vikið að að umræðuefni. Við höfum vakið athygli á því, að um næstu mánaðamót verður um að ræða hugsanlega verulegt misræmi, annars vegar milli lánskjaravísitölu og hins vegar þeirra launahækkana sem verða af völdum hækkana á verðbótavísitölu. Þessar vísitölur hafa ekki verið reiknaðar út enn og er því ekki hægt að segja með neinni nákvæmni hver þessi munur verður, en mér þykir ekki ólíklegt að hann geti orðið upp undir 10%.

Við Alþb.-menn höfum satt að segja mestar áhyggjur af þessu vandamáli og höfum vakið athygli á því, bæði í ríkisstj., hér í þinginu og í viðræðum við Seðlabankann, að koma verði í veg fyrir þennan mikla mismun, þá væntanlega með því að lánskjaravísitala sé miðuð við einhvers konar kaupgjaldsvísitölu, þ.e. samanlagða hækkun grunnkaups og verðbóta á laun, þannig að lán, sem bundin eru verðtryggingu, hækki ekki meira en nemur hækkun kaups.

Við höfum orðið varir við það að mjög margir þm. eru okkur sammála um þetta efni. Má nefna að svipaðar raddir hafa heyrst úr herbúðum Alþfl.-manna. (Gripið fram í.) Jú, meira en það raunar. Alþfl.-menn munu hafa flutt tillögu sem gengur í þessa áttina. Einnig hef ég orðið var við þessi sjónarmið hjá talsmönnum beggja hinna flokkanna, sem þá eru ónefndir, þannig að ljóst er að þessi sjónarmið njóta verulegs stuðnings hér í þinginu.

En því miður er þetta mál alveg jafn óljóst áfram og verið hefur. Ég sé ekki betur en það horfi til nokkurra vandræða ef farið verður að reikna út lánskjaravísitölu með hinum eldri hætti, og þá væntanlega reikna upp lán í samræmi við það, án þess að nokkur breyting sé gerð. En þetta getur gerst innan tíðar, enda þegar kominn nóvembermánuður.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á ályktun þingflokks Alþb., sem þingflokkurinn samþykkti s.l. fimmtudag. Ályktunin var birt í helgarblaði Þjóðviljans. Þar er þessi þáttur vaxtamálanna einmitt gerður að helsta áhersluatriði. Ályktunin er eins og hér segir, með leyfi forseta:

„Þingflokkur Alþb. ályktar að í umræðum um hugsanlegar vaxtabreytingar beri að leggja megináherslu á að verðbótaþáttur verðtryggðra lána hækki ekki meira en nemur almennra launa, þar sem fyrirsjáanlegur er verulegur munur á lánskjaravísitölu og verðbótum á laun 1. des. n.k. Þingflokkurinn telur aðstæður ekki fyrir hendi til að auka rekstrarkostnað framleiðsluatvinnuvega og framfærslukostnað skuldugra heimila með verulegri vaxtahækkun. Hins vegar telur þingflokkurinn eðlilegt að vaxtaprósentur inn- og útlána verði meira samræmdar, þannig að minni munur verði á hæstu og lægstu útlánsvöxtum.

Þingflokkurinn varar við aðgerðum í bankakerfinu sem valdið gætu meiri samdrætti í atvinnulífi en nú er fyrirsjáanlegur og þannig stuðlað að atvinnuleysi. Jafnframt telur þingflokkurinn óhjákvæmilegt að dregið verði úr lánveitingum sem gera verslunum kleift að selja vörur með afborgunum og örva því innflutning og auka viðskiptahalla.“

Hér koma viðhorf okkar Alþb.-manna nokkuð skýrt fram. Ég vil sérstaklega vekja til viðbótar athygli á þeirri afstöðu okkar að hægt sé að stuðla að bættum viðskiptajöfnuði og minni viðskiptahalla með fleiru en aðhaldi í bankakerfinu eða vaxtahækkunum. Það er einnig hægt að gera með því að draga úr þeim afborganaviðskiptum sem tíðkast úr hófi fram í þjóðfélagi okkar og eiga auðvitað sinn þátt í því að viðskiptahallinn og innflutningurinn er svo mikill sem raun ber vitni.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að svara þessum spurningum hv. þm. öllu frekar. En vegna þess að spurningum var varpað til mín, sem hef ekki með vaxtamál að gera í ríkisstj. og því augljóst að þessum spurningum er ekki beint til mín sérstaklega sem þess ráðh. sem fer með þessi mál, þá væri kannske ekki úr vegi að ég mætti spyrja hv. fyrirspyrjanda tveggja spurninga og vænta svara við þeim hér á eftir.

Ég vil spyrja hv. þm. hvort þingflokkur Sjálfstfl. hafi mótað afstöðu sina til þessara mála. Mér er forvitni á að vita hvort þingflokkur Sjálfstfl. telur skynsamlegt og nauðsynlegt að hækka vextina um þessar mundir og hvort skilja átti orð hv. þm. hér áðan á þann veg, að hann væri nú að hvetja mjög eindregið til þess að afurðalán atvinnuveganna yrðu hækkuð.