15.02.1983
Sameinað þing: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2012 í B-deild Alþingistíðinda. (1744)

192. mál, langtímaáætlun í vegagerð

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég lýsi ánægju minni með það að þessi þáltill. skuli nú fram komin. Hún hefði þó að skaðlausu mátt koma fram fyrr, en vonandi vinnst tími til að afgreiða hana á þessu þingi.

Hér er um afar þýðingarmikið mál að ræða fyrir alla landshluta og alla landsmenn. Auðvitað hefðu margir, eins og fram kom hjá hv. þm. Halldóri Blöndal, viljað fá hraðari úrlausn sinna áhugamála en þáltill. gerir ráð fyrir. Ég býst reyndar við að svo sé um alla þm. Allir hafa sín forgangsmál í huga. Ég gæti auðvitað minnst á mörg slík.

Ég tel að þessi 12 ára áætlun sé raunhæf og legg mikla áherslu á að ekki verði krukkað í fjáröflunaráætlun hennar eins og því miður gerist á mörgum öðrum sviðum. Ég legg áherslu á að alls ekki verði hvikað frá þeirri áætlun að verja 2.2% í ár, 2.3 á næsta ári og síðan 2.4% af vergri þjóðarframleiðslu til vegagerðar. Við drögum nokkuð úr áætluðum framkvæmdahraða nú vegna minnkandi þjóðarframleiðslu, eins og kom fram hjá hæstv. samgrh., en við skulum vona að Eyjólfur hressist, við skulum vona að þjóðartekjur fari vaxandi.

Herra forseti. Ég lýsi fullum stuðningi Alþfl. við þetta mál og vona að það fái fljóta afgreiðslu hér á hinu háa Alþingi. Við munum gera það sem í okkar valdi stendur til þess. Ég vil einnig nota tækifærið til þess að lýsa stuðningi við nýframkomið frv. um veggjald, þó að það sé ekki á dagskrá þessa fundar.