15.02.1983
Sameinað þing: 51. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2019 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

192. mál, langtímaáætlun í vegagerð

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Stundum verður að segja hlutina eins og þeir eru. Þegar þessum tveimur till. var blandað saman hygg ég að það hafi verið í því ansi mikil óskhyggja að útbúa langtímaáætlun bæði fyrir stofnbrautir og þjóðbrautir sem staðið yrði við. Staðreyndin er sú, að einmitt sú áætlun sem ég lagði fram, um 20 ár, var raunhæf. En það varð að gera eitthvað fyrir hv. sjálfstæðismenn og þess vegna var hin talan tekin inn. Það sýndi sig þegar farið var að vinna að málinu að það voru hvorki til upplýsingar né fjármagn til að framkvæma þetta á 12 árum. Því varð að gera þetta eins og hér er lagt til, að taka þjóðbrautirnar inn í eingöngu sem eina tölu. Það er ekki búið að framkvæma úttektina á þjóðbrautunum. Þetta lá algjörlega fyrir 1981 og var upplýst í umr. um málið. Ég margbenti á það í umr. við menn sem voru að vinna að því að sameina þessar till. Þegar þingmannanefndin fór að vinna málið sáu náttúrlega menn úr öllum flokkum að þetta var ekki hægt og þá varð samkomulag um það að einbeita sér fyrst og fremst að stofnbrautunum. Ég hlýt að fagna því, að menn hafa komist niður á jörðina og eru með áætlun sem væntanlega verður hægt að standa við. Það er aðalatriðið. Við höfum gert allt of mikið af því hér í þingsölum að samþykkja áætlanir sem alls ekki hefur verið unnt að standa við. Hér erum við með áætlun sem væntanlega er hægt að standa við og við ættum að sameinast um. Og ég endurtek, það er alls ekki á nokkurn máta verið að sniðganga þjóðbrautirnar.