16.02.1983
Sameinað þing: 52. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2027 í B-deild Alþingistíðinda. (1763)

Umræður utan dagskrár

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Á föstudaginn var óskaði þingflokkur sjálfstæðismanna eftir umr. utan dagskrár, en tilefnið var að þeir hæstv. fjmrh. og iðnrh. höfðu haldið þá fyrr um daginn blaðamannafund og tilkynnt þar um mikilvægar ákvarðanir í þeirri deilu sem að undanförnu hefur staðið milli hæstv. ríkisstj. og Alusuisse. Þessari umr. var hafnað og urðu um það hér allharðar deilur, eins og mönnum er e. t. v. í minni og ég skal ekki rifja upp hér.

Þá neitaði hæstv. iðnrh. að skýra Alþingi efnislega frá ákvörðunum sínum og hæstv. fjmrh. um einhliða skattlagningu á ÍSAl.. Þm. hafa nú átt þess kost að kynna sér efnislega það sem í þessum ákvörðunum fólst. Við höfum átt þess kost að lesa um það í blöðum og hlýða á það í fjölmiðlum. Hæstv. ráðh. kusu þann kost að skýra Alþingi frá þessu í blöðum og öðrum fjölmiðlum. Það er reyndar sérstaklega háttur hæstv. iðnrh. að nota fjölmiðla í þessu skyni og ekki eingöngu til að ræða við hv. Alþingi, heldur einnig til að semja í álmálinu.

Vegna þess að við höfum átt kost á að athuga á þeim dögum sem liðnir eru hvað efnislega fólst í þessum ákvörðunum er möguleiki nú að fjalla nokkuð efnislega um ákvarðanir hæstv. ráðh. Þessi ákvörðun felur í sér að endurreiknað er einhliða framleiðslugjald á ÍSAL fyrir árin 1976–1980, en í upphafi fréttatilkynningar fjmrn. um þetta mál segir svo, með leyfi forseta:

„Fjmrn. hefur skuldfært Íslenska álfélagið hf., ÍSAl., um samtals 6 millj. 660 þús. Bandaríkjadali eða 127 millj. ísl. kr. vegna endurákvörðunar á framleiðslugjaldi félagsins 1976–1980. Að þessari skuldfærslu lokinni er skattinneign ÍSALs hjá ríkissjóði ekki lengur til staðar. Þess í stað á ríkissjóður inneign hjá ÍSAL sem nemur 1 827 853 Bandaríkjadölum miðað við árslok 1980, og jafngildir þessi upphæð 35 millj. ísl. kr. á núverandi gengi. Ekki eru þá meðtaldir vextir af inneigninni frá upphafi árs 1981.“

Þetta var upphaf fréttatilkynningar fjmrn. um þær aðgerðir sem fjmrn., og væntanlega með stuðningi iðnrn., hefur gripið til. Með þessu er augsýnilega hafinn nýr kafli í deilunum við Alusuisse í því stríði, sem hófst í des. 1980, þegar hæstv. iðnrh. hóf miklar árásir á Alusuisse vegna vangreidds framleiðslugjalds.

Nú vil ég leggja sérstaka áherslu á það, sem reyndar bæði ég og aðrir talsmenn Sjálfstfl. í þessu máli hafa haldið fram frá upphafi, að auðvitað ber ÍSAL eða Íslenska álfélaginu að greiða rétta skatta og auðvitað ber þeim að skila réttum skýrslum um sínar tekjur og gjöld. Um þetta er enginn ágreiningur. Þetta er alveg ágreiningslaust hér á hv. Alþingi. Allir eru sammála um það og hljóta allir að vera sammála um það, að þessu fyrirtæki ber að greiða skatta í samræmi við samninga. Þannig ber á þessu máli að halda.

Gagnrýni okkar á hæstv. iðnrh. hefur hins vegar beinst að því, að hann hefur ávallt kosið að gera þetta atriði, deiluna um skattamálin, að aðalatriði málsins í þeim deilum sem við höfum staðið í við Alusuisse. Að okkar mati hafa þetta verið rangar áherslur og þær hafa spillt fyrir að við næðum árangri í því máli sem mest er um vert, þ. e. deilunni um rafmagnsverðið.

Nú er enn einn kafli þessarar deilu að hefjast og enn með skattamálin sem aðalatriði. Meðferð hæstv. iðnrh. á þessu máli hefur að mínu mati stórspillt fyrir samningum um aðalatriði málsins, þ. e. hækkað rafmagnsverð. Við getum aðeins nefnt dæmi um tölulegt hagsmunamat í þessum efnum. Sú skuldfærsla, sem hér er um að ræða, er um 6.6 millj. dollara, en hækkun rafmagnsverðs um helming mundi á einu ári færa okkur í tekjur 7.2 millj. dollara og síðan að sjálfsögðu á ári hverju. Aðeins með því að líta á þessar tölur er hægt að sjá hvar okkar stóru hagsmunir liggja í þessu máli. Þess vegna hefur það verið ákaflega ámælisvert að halda þannig á þessari deilu frá upphafi að gera þessi skattamál að aðalmálinu og nota þau til að spilla fyrir öllu andrúmslofti í okkar samningaviðræðum um þetta mál.

Þann 20. okt. fór fram hér á hv. Alþingi umr. um álmálið. Ég mælti þá fyrir till., sem þingflokkur sjálfstæðismanna stóð að, um sérstaka viðræðunefnd Alþingis við Alusuisse um lausn á þessu máli. Ég rakti þá ítarlega gang málsins alveg til þess tíma og skal ekki endurtaka neitt af því hér, en mér þykir nauðsynlegt að rifja aðeins upp nokkur atriði úr þessu máli, sem gerst hafa síðan.

Þann 10. nóv. s. l. ritaði Alusuisse bréf til iðnrn. með ósk um að opna viðræður að nýju. Hæstv. iðnrh. hafði siglt umræðunum í strand, sem fram fóru í maí, og hafði síðan ekki haft neitt frumkvæði að því að taka málið upp að nýju. Það er ekki fyrr en Alusuisse sendi bréf þann 10. nóv. að einhver vonarglæta virtist um að hægt væri að ganga til samninga um þetta mál af heilum hug af beggja hálfu.

Helstu atriðin í bréfi Alusuisse voru tvíþætt: Í fyrsta lagi um lausn á ágreiningi sem uppi hefur verið um skattamálin, um fortíðina, og hins vegar hvernig ganga ætti til samninga um framtíðina.

Varðandi skattamálin lögðu þeir til að aðilar kæmu sér saman um tvo gerðardóma. Annars vegar skyldu aðilar skipa gerðardóm þriggja lögfræðinga, sem létu í ljós álit sitt á því, hvernig túlka bæri ákvæði aðalsamnings um verð á milli óskyldra aðila með sérstöku tilliti til ákvæða aðstoðarsamnings um að Alusuisse beiti sér fyrir því að ÍSAL njóti bestu kjara í kaupum á hráefnum. Þetta er grundvallaratriði í skattadeilunni. Um þetta er lögfræðilegur ágreiningu:. Um þetta hafa komið fram mismunandi álit hinna færustu lögfræðinga. Auðvitað stöndum við á okkar fyllsta rétti í þessu máli og túlkum þessa samninga okkur í hag í öllum þeim málatilbúnaði sem við komum til með að hafa á hendur Alusuisse. Og á okkar hagstæðustu túlkun er niðurstaða Coopers & Lybrand byggð. Hins vegar komumst við ekki fram hjá því, að um þetta er efnislegur ágreiningur sem einhverja lausn verður að fá á. Alusuisse á samkv. samningum rétt á gerðardómsmeðferð varðandi þennan ágreining og á það atriði verðum við að líta af fullu raunsæi.

Annað atriði, sem þessi gerðardómur átti að fjalla um, var réttur íslenskra stjórnvalda til að leggja á skatta fyrir árið 1980. Ástæðan fyrir því að um þetta er ágreiningur er sú, að hæstv. iðnrh., og reyndar forveri hans í ráðherrastól, lét undir höfuð leggjast að nota rétt okkar til árlegrar endurskoðunar á framleiðslugjaldi ÍSALs, þannig að við erum nú komin í þá stöðu að þurfa að leggja á eða endurreikna mörg ár aftur í tímann. Það liggur fyrir álit íslenskra lögfræðinga, að íslenskum yfirvöldum sé þetta heimilt. Auðvitað höldum við okkur við þá túlkun hinna íslensku lögfræðinga, sem látið hafa í ljós álit sitt á þessu. Um þetta kann hins vegar einnig að vera lögfræðilegur ágreiningur.

Í öðru lagi lagði Alusuisse til að skipaður yrði gerðardómur íslenskra lögfræðinga til að fjalla um afskriftarreglur þær sem ÍSAL hefur notað. Allt ofangreindra gerðardóma átti að vera bindandi og á grundvelli þessara lögfræðiálita var lagt til að alþjóðlegu endurskoðunarfyrirtæki yrði falið að meta skattálagninguna og að hin tölulega niðurstaða yrði ekki vefengd.

Hinn aðalþátturinn í bréfi Alusuisse frá 10. nóv. var að fjalla um framtíðarsamskiptin. Þar segir að þegar aðilar hafi komið sér saman um málsmeðferð sé Alusuisse reiðubúið að taka þegar í stað upp viðræður um fjögur meginatriði: Í fyrsta lagi endurskoðun rafmagnssamnings, þar sem tekið verði til hliðsjónar orkuverð áliðnaðar í Evrópu og Bandaríkjunum og að auki samkeppnisaðstaða Íslands á þessu sviði. Í öðru lagi endurskoðun skattareglna. Í þriðja lagi stækkun álversins, hugsanlega með þátttöku þriðja aðila. Og í fjórða lagi heimild ríkisstj. til að gerast eignaraðili. Síðan var upp á því stungið að samningum um málsmeðferð yrði lokið fyrir lok desember, en samningnum um efnisatriði fyrir 1. apríl.

Það vakti að sjálfsögðu athygli þegar slíkt skeyti kom frá Alusuisse og vissulega var nokkur nýr tónn í þessu bréfi. Ég er alveg sannfærður um að þennan nýja tón og þetta nýja viðhorf hefðum við átt að nota okkur út í ystu æsar. Hins vegar voru eftir það haldnir tveir fundir sem voru árangurslausir. Hæstv. iðnrh. setti fram gagntillögur sem gerðu að verkum að efnislegar umr. um þetta mál fóru aldrei í gang. Þetta vakti mikla óánægju í álviðræðunefndinni, sem skipuð var bæði aðilum stjórnar og stjórnarandstöðu, og mönnum er í fersku minni að einn aðili úr álviðræðunefndinni, hv. 12. þm. Reykv., Guðmundur G. Þórarinsson, sá ástæðu til að segja sig úr nefndinni til að mótmæla vinnubrögðum hæstv. ráðh. í þessu efni. Hæstv. ráðh. kaus hvað eftir annað að sniðganga átviðræðunefndina. Hann kaus hvað eftir annað að slá á útrétta hönd stjórnarandstöðu, sem hefur oft boðið samvinnu í þessu máli í því skyni að Íslendingar gætu samstíga gengið fram í baráttunni fyrir hagsmunum okkar í álmálinu. Hæstv. ráðh. hefur hins vegar kosið að einangra sig í þessu máli í þröngum hópi vina og flokksbræðra.

Það er einnig athyglisvert, að þrátt fyrir að Landsvirkjun, sem er formlegur aðili að rafmagnssamningnum við ÍSAL, — það er ekki ríkisstj. eða Alþingi, heldur er Landsvirkjun formlegur aðili að þessum samningum, — hafi hvað eftir annað óskað að mega taka þátt í undirbúningi þessara samningaviðræðna og í viðræðunum sjálfum hefur hæstv. ráðh. jafnoft hafnað því. Hæstv. ráðh. hefur hafnað því að Landsvirkjun, sem selur ÍSAL rafmagnið, fái að taka þátt í þessum samningum.

Það hefur að vísu verið látið að því liggja að hæstv. ráðh. hafi verið reiðubúinn að kveðja einstaka starfsmenn Landsvirkjunar til faglegs ráðuneytis þegar honum hefur dottið í hug, en það er auðvitað ekki það sama og að verða við margítrekuðum óskum stjórnar Landsvirkjunar um að mega taka þátt í þessum viðræðum. Það ber því allt að sama brunni um þetta efni. Hæstv. ráðh. kaus að einangra sig í fámennum hópi vina og flokksbræðra í þessu mikilvæga máli. Og það er alvarleg staðreynd. Það er málsmeðferð sem er gerólík þeirri sem áður hefur verið viðhöfð í sambandi við samninga okkar um stóriðju, þegar allir flokkar stjórnar og stjórnarandstöðu hafa verið með frá upphafi og tekið þátt í undirbúningi og samningaviðræðum um þessi mál.

Raunverulegar samningaviðræður hafa aldrei farið í gang. Hæstv. ráðh. hefur ekki verið tilbúinn að láta reyna á samninga hvað þá meir. Hann hefur alltaf sett ný og ný skilyrði fyrir því að samningaviðræður gætu hafist. Það kann vel að vera að ráðh. hafi í upphafi talið að með þeim aðferðum sem hann beitti, þ. e. þegar hann hóf sína sókn í des. 1980, væri hann að sýna snjalla samningaaðferð. En hafi hann haldið það hlýtur hann að hafa orðið fyrir jafnmiklum vonbrigðum því að meiri klaufaskap en hæstv. ráðh. hefur sýnt í þessu máli er ekki hægt að hugsa sér.

Það kann vel að vera, eins og ég segi, að hæstv. ráðh. hafi í upphafi viljað semja og talið sig geta sýnt af sér snjalla samningsaðferð, en ég er hins vegar jafnsannfærður um það núna upp á síðkastið að hæstv. ráðh. vill ekki semja í þessu máli. Hverjum eru allar tafir í þessu máli í hag? Auðvitað Alusuisse sem hefur áfram sama rafmagnsverðið og var. Öflugasti bandamaður Alusuisse í þessu máli er hæstv. iðnrh., sem hefur ekki viljað ganga til neinna samninga við Alusuisse um þetta mál. Og hvers vegna skyldi það vera? Ástæðan er einfaldlega sú, og hún liggur æ meir og meir í augum uppi, að Alþb. hefur hugsað sér að nota þetta sem kosningamál, hefur hugsað sér að nota þetta mikla lífshagsmunamál þjóðarinnar sem flokkshagsmunamál. Hæstv. ráðh. er hræddur um að ef honum tækist að gera samninga um þetta mál hefði hann misst glæpinn. Þá væri ekki heldur hægt að halda uppi árásum hér innanlands á þá sem á sínum tíma stóðu fyrir þessum samningum og þá væri ekki hægt að efna til stöðugs ófriðar innanlands um þetta mál, eins og hæstv. ráðh. hefur beitt sér fyrir frá upphafi. Þetta er ljót saga, en því miður hefur reynslan sýnt og það sem gerst hefur í þessu máli síðustu vikur og mánuði að þetta er sönn saga. Þannig horfir þetta mál einfaldlega við.

En hvað þýða í raun þær aðgerðir sem nú hafa verið samþykktar, þ. e. þær aðgerðir sem hæstv. fjmrh. og iðnrh. hafa samþykkt varðandi einhliða skattlagningu?

Í fyrsta lagi er rétt að hafa í huga að þessar aðgerðir hafa enga þýðingu um endanlega lausn deilunnar um skattana. Það var enginn réttur af okkar hálfu í hættu. Fyrir lágu skýrslur Coopers & Lybrand byggðar á því lögfræðiáliti, sem ég gat hér um áðan, og það var engin sú tímasetning eða dagsetning nú á ferðinni, sem setti okkar rétt á neinn hátt í hættu. Þessi aðgerð er því fyrst og fremst gerð í áróðursskyni. Þessi aðgerð er liður í þeirri kosningabaráttu sem Alþb. er nú að hefja. Þessi aðgerð minnir óneitanlega á aðgerð hæstv. iðnrh. þegar hann fór út úr ríkisstjórn þeirri sem hæstv. utanrrh. Ólafur Jóhannesson veitti forsæti á sínum tíma, þegar hann daginn sem hann fór út úr rn. skrifaði undir bréf þess efnis að hefja ætti framkvæmdir við Bessastaðaárvirkjun. Það var hans síðasta aðgerð áður en hann fór úr rn. þá. Það var ósköp saklaus aðgerð í sjálfu sér miðað við þá sem nú er verið að fremja, en maður sér óneitanlega að hér er sami hugsunarhátturinn að baki, það er sama handbragðið á þeim aðgerðum sem nú eru á ferðinni í Alusuissemálinu og þeirri sem var á ferðinni daginn sem hæstv. iðnrh. fór út úr rn. í sinni fyrri iðnrh.-tíð.

En í öðru lagi, ef við hugum að þýðingu þessara aðgerða, og það er að sjálfsögðu ennþá verra, þá spillir þetta enn fyrir samkomulagi okkar um aðalmálið. Enn er skattadeilan notuð til að spilla málstað okkar í aðalkröfunni, þ. e. um hækkað rafmagnsverð.

Í þriðja lagi skulum við átta okkur á því, hvaða afleiðingar þessi aðgerð hefur og það er enn alvarlegri afleiðing. Við áttum kost á að leysa a. m. k. hluta þessarar deilu samkv. beinu tilboði frá Alusuisse með íslenskum gerðardóm, með því að leggja hluta af þessari deilu í alíslenskan gerðardóm. Ég sé ekki annað en nú hafi þeim dyrum verið skellt og aðgerð hæstv. ráðh. þröngvi þessari deilu inn í alþjóðlegan gerðardóm. Ég sé ekki annað en þessi aðgerð hafi þessi áhrif og það er að sjálfsögðu alvarlegt og með því er íslenskum málstað enn stórspillt.

Ég vil rifja það upp, að hér liggur fyrir Alþingi till. frá þingflokki sjálfstæðismanna um sérstaka álviðræðunefnd, um að Alþingi kjósi sérstaka viðræðunefnd til að fara með þetta mál. Sú till. liggur fyrir hv. atvmn. Sþ. og ég vonast til þess að nefndin fjalli um þá deilu, því að ég sé ekki betur en nú beri brýna nauðsyn til að tak:a þetta mál úr höndunum á hæstv. iðnrh., og því fyrr sem þetta mál fer úr höndum þessa klaufalega ráðh., því betra.

Ég vil líka rifja upp að fyrir ríkisstj. liggur till. frá hæstv. sjútvrh. Steingrími Hermannssyni, sem hann skýrði frá í mjög ítarlegu viðtali við dagblaðið Tímann þann 5. febr. 1983. Þar gerir hann grein fyrir þeim tillögum og hugmyndum sem hann hafi um lausn þessa máls. Ég vil aðeins leyfa mér að vitna í þetta viðtal í grófum dráttum.

Fyrsti liðurinn í till. hæstv. ráðh. er að sett verði á fót ráðherranefnd, sem komi sér saman um meðferð málsins. Hann vitnar í að slíkar ráðherranefndir hafi gefist vel við lausn á fjölmörgum vandasömum málum innan hæstv. ríkisstj.

Í öðru lagi leggur hann til að ný álviðræðunefnd verði skipuð og hver stjórnmálaflokkanna fjögurra eigi einn fulltrúa, forsrh. eigi einn fulltrúa og Landsvirkjun eigi einn fulltrúa. Þessi till. liggur fyrir hjá ríkisstj., eftir því sem fjölmiðlar hafa fullyrt, og við vitum ekki hvaða afgreiðslu hún hefur fengið. Ég hefði satt að segja haft áhuga á að spyrja hæstv. sjútvrh., sem ekki er hér í salnum nú, hvað líði afgreiðslu þessarar till. og hvaða líkur hann telji á því að hún fáist afgreidd. Um eldri deilumálin segir svo, með leyfi hæstv. forseta, í þessu blaðaviðtali: „Ég legg til að deilumál um verð á súráli og rafskautum og um skatta verði með samkomulagi sett í gerðardóm. Ég tel vel koma til greina að bakfæra þessa skatta einhliða og þá eiga Svisslendingar leikinn og geta vísað þessu í þennan alþjóðlega gerðardóm, sem samningurinn gerir ráð fyrir. Hins vegar í tilboði þeirra frá 10. nóv. s. l. felst það, að þeir eru tilbúnir að leggja þessi deilumál í íslenskan gerðardóm, og það tel ég vera miklu betra fyrir okkur og okkar hag á allan hátt. Það yrðu þá tveir gerðardómar sem mundu fjalla um mismunandi þætti málsins, annar með íslenskum lögfræðingum eingöngu og hinn yrði með manni tilnefndum af okkur, manni tilnefndum af þeim og síðan yrði formaðurinn tilnefndur sameiginlega, en eflaust yrði hann Íslendingur. Að koma þessum málum inn í slíkan gerðardóm væri okkur mjög í hag, og ég tel það alrangt að vera að hnýta þessi deilumál saman við hið langtum mikilvægara mál, sem er hækkun raforkuverðsins. Ég gerði aths. við tilboð iðnrh. til Alusuisse frá 21. des., en þar var þetta allt hnýtt saman og gert að kröfu að samið yrði um allt í einu. Það held ég að hafi alltaf verið vonlaust frá upphafi að slíkt tækist.“

Þetta kom fram í viðtalinu við hæstv. sjútvrh. 5. febr. 1983.

Hann segir ennfremur í þessu viðtali:

„Ég harma það mjög að svona hefur farið, og því miður tel ég að svona hafi farið fyrir klaufaskap. Ég er alveg sammála kröfum iðnrh. um hækkun raforkuverðs og leiðréttingu á sköttum, verði á súráli og rafskautum og ég vil láta endurskoða skattaákvæði samningsins, þannig að málefnalega er ekki ágreiningur hjá okkur. Hins vegar verð ég því miður að segja, að ég hef sjaldan séð haldið á málum á jafnvafasaman og vonlausan hátt og iðnrh. hefur gert á þessu máli.

Þetta er álit samráðh. hæstv. iðnrh., þ. e. Steingríms Hermannssonar hæstv. sjútvrh., á vinnubrögðum iðnrh. í þessu máli.

Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. og iðnrh. hvernig þessi ákvörðun hafi verið tekin, hvort þetta sé ákvörðun ríkisstj. allrar og jafnframt hvort einhver viðbrögð hafi borist frá Alusuisse við þessari ákvörðun og þá ennfremur hvert sé framhald á meðferð þessa máls á næstunni. Ég vil jafnframt spyrja hæstv. sjútvrh. að því, hvernig hann hafi átt aðild að þessari ákvörðun, hvort hæstv. ráðh, hafi vitað af henni fyrir fram og hvort hann sé sammála þeirri ákvörðun sem tilkynnt var fréttamönnum um hádegi s. l. föstudag.