16.02.1983
Sameinað þing: 52. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2047 í B-deild Alþingistíðinda. (1768)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. iðnrh. fyrir þær upplýsingar sem hann hefur hér gefið um hver hafi orðið útkoman úr endurskoðun samningsákvæðanna árið 1975. Útkoman samkv. því sem hann hefur hér upplýst er sú, að samanlagður ávinningur af hækkun raforku og breytingu á framleiðslugjaldi sé negatívur um 1.7 millj. dollara. Ég held að það hafi legið ljóst fyrir, þegar þessir samningar voru gerðir á sínum tíma, að í þeim fólst hækkun raforkuverðs, en það væri á kostnað skattlagningar. Ég var á þessum tíma fulltrúi ríkisstjórnarinnar í stjórn ÍSALs og ég sendi fjmrn, einmitt greinargerð um þetta atriði og benti á hversu mjög skatttekjur mundu skerðast við þann samning sem þá var verið að gera. Inntakið í því sem ég sendi fjmrn. þá birtist síðar í grein árið 1980. Og ég minni á að við 1. umr. um það mál. sem hér er nú til umfjöllunar, fyrir tveimur árum stóð hæstv. forsrh. upp og talaði mjög mikið um þann ávinning sem við hefðum haft af samningsbreytingunni árið 1975 í hækkun raforkuverðs, en þá lét ég einnig þetta viðhorf koma fram, að það væru tvær hliðar á því máli, nefnilega að skatttekjur hefðu skerst. Auðvitað var ekki hægt að gera þetta dæmi endanlega upp fyrir fram. Það var ekki vitað hvernig afkoma fyrirtækisins yrði og þar fram eftir götunum. En nú liggur reynslan fyrir og ég held að það hafi verið hollt og gott að fá þessar upplýsingar. Hitt fer ekki milli mála, að málflutningur hæstv. iðnrh. að því er þetta varðar er æðiharður dómur yfir þáv. hæstv. iðnrh., sem stóð fyrir þeim samningum, en nú er hæstv. forsrh.

Hæstv. iðnrh. talaði um það áðan að það væri mikið mál og meginatriði að menn áttuðu sig á aðalatriðum þessa máls og stilltu saman strengina. Ég held að það sé alveg rétt. En það sem hefur verið að er að þeir tónar, sem hæstv. iðnrh. hefur slegið, hafa verið heldur falskir og hafa ekki skilað neinum árangri. Ég tel að það stafi af því, að hæstv. ráðh. hafi ekki áttað sig nógu vel á einmitt því sem hann er að biðja menn um að átta sig á, — nefnilega aðalatriðum þessa máls.

Hæstv. iðnrh. ber sig upp undan því, að því sé haldið fram að það sé vegna þess að hann hafi ekki haldið nægilega vel á þessu máli sem ekki hafi náðst árangur. Mér finnst ákaflega auðvelt að segja ævinlega: Ef það næst ekki árangur er það bara einhverjum öðrum að kenna. — Ég held að það dugi ekki sem skýring, en það er í rauninni inntakið í því sem hæstv. iðnrh. er að segja. Auðvitað eigum við allt undir okkur sjálfum komið í þessu máli. Það fer eftir því hvernig við höldum á málinu hvort við náum árangri, og hafi ekki náðst árangur er það vegna þess að ekki hefur verið haldið nægilega vel á málinu, ekki nægilega vel til þess að árangur næðist. Þetta er vitaskuld sannleikurinn í þessu máli.

Í ræðu sinni áðan talaði hæstv. iðnrh. mjög illa um þann samning sem var gerður við Alusuisse á sínum tíma um rekstur bræðslunnar ÍSAL, taldi honum allt til foráttu og sagði að hann væri ómögulegur. Ég hef áður látið það koma fram að ég tel ákvæðin um rafmagnsverð ákaflega misheppnuð. En þessi samningur er nú ekki verri en það, að það er á einni setningu í honum sem öll sú skattakrafa byggist sem hæstv. iðnrh. stendur nú að að gerð verði skuldfærsla fyrir og hæstv. fjmrh. hefur gert. Í skýrslu Coopers og Lybrand kemur fram, að verð á t. d. súráli hjá ÍSAL sé mjög hliðstætt við það sem er í Vestur-Evrópu. En samningurinn er svo strangur að það er gerð krafa til þess að súrálið sé útvegað á bestu mögulegu kjörum, sem er þá lægra verð en það verð, sem viðgekkst í Vestur-Evrópu á þessu tímabili, og á því byggist skattakrafan. Ég held að það sé ákaflega varasamt að fleygja þessum samningi fyrir róða. Ég held að það hafi einmitt sannast í þessu máli að í öllum greinum nema einni er samningurinn mjög sterkur og vandaður. Og einmitt um þessar mundir, þegar hæstv. ráðh. iðnaðar- og fjármála hafa ákveðið þessa skuldfærslu, væri síst ástæða til þess að ráðast að þessum samningi, sem er þó grundvöllur þeirrar skuldfærslu sem þeir hafa ákveðið.

Það kom líka fram í máli hæstv. fjmrh., að svokölluð álviðræðunefnd hefði komist að þeirri niðurstöðu að það væri heimilt að leggja á skatta samkv. niðurstöðum Coopers & Lybrand þetta mörg ár aftur í tímann. Þetta er heldur stuttaralegur útdráttur úr niðurstöðu álviðræðunefndar. Það væri ástæða til að dreifa áliti álviðræðunefndar í sambandi við þessar umr. svo að það þurfi ekki að fara að hártoga neitt hvað þar var samþykkt. Álviðræðunefnd sagði sem svo:

„Við höfum fengið lögfræðinga til þess að líta á lögfræðilega hlið þessa máls. Samkv. áliti þeirra eru lagalegar heimildir til þess að fara svona að, og við teljum að haldbærasta matið sem fyrir hendi er sé sú niðurstaða sem Coopers & Lybrand hefur fengið.“ En hún bætti við: „Nefndin telur hins vegar að rétt sé að haga meðferð þessa máls í ljósi bréfs frá Alusuisse 10. nóv. til ríkisstj. og nefndin telur því ekki rétt að grípa til aðgerða í skattamálum við núverandi aðstæður.“

Þetta var álit álviðræðunefndar. Þó lagalegar forsendur væru fyrir hendi, reikningsleg niðurstaða væri fengin, taldi nefndin ekki rétt við þessar aðstæður og í ljósi þess tilboðs sem kom frá Alusuisse að grípa til aðgerða í skattamálum. Þetta finnst mér nauðsynlegt að komi hér fram, svo oft sem hæstv. ráðherrar hafa vitnað í álit þessarar álviðræðunefndar, því að þessi hlið málsins, sem var niðurstaða nefndarinnar varðandi þetta hefur ekki verið upplýst af þeirra hálfu og ég sé ekki annað en að sú upplýsing eigi a. m. k. jafnmikinn rétt á sér í þeirri umr. sem nú fer fram og aðrar upplýsingar úr áliti þessarar nefndar.

Ég hef orðið var við að sumir eiga erfitt með að átta sig á því, hvernig þessi skattinneign hjá Alusuisse hafi orðið til. Og það er kannske rétt að skjóta því þá aðeins inn, svo að menn velkist ekki í neinum vafa um það, með hvaða hætti skattinneign verður til hjá Alusuisse. Eins og kunnugt er greiðir Alusuisse framleiðslugjald sem er eiginlega óháð afkomu fyrirtækisins. Það er staðgreiðsla á skattinum. Ef það kemur í ljós við ársuppgjör eftir á að of mikið hafi verið greitt er ekki endurgreitt til ÍSALs, heldur leggst það sem umfram er inn á skattinneignarreikning. Ef of mikið hefur verið staðgreitt safnast fé á þennan skattinneignarreikning. Þannig hefur skattinneignin orðið til. En þetta þýðir það vitaskuld líka, að sú skuldfærsla, sem nú hefur verið ákveðið að gera, skilar ekki krónu í ríkissjóð, heldur er einungis bókhaldsaðgerð. ÍSAL er þegar búið að greiða þessa skatta. Það kemur engin króna á þessu ári út úr því að flytja til tölur í bókhaldi.

Annað, sem vekur athygli í sambandi við þá skuldfærslu sem nú er gerð, er það, að samkv. hinu lögfræðilega áliti lögfræðinganna Benedikts Sigurjónssonar og Ragnars Aðalsteinssonar er leyfilegt að leggja á skatta af þessu tagi eða skuldfæra fyrir þeim sjö ár aftur í tímann, ef ég man rétt. (Gripið fram í: Sex ár.) Sex ár aftur í tímann, fyrnist á sjöunda ári, það er rétt. — Það þýðir að það er ekkert sem knýr á einmitt núna að gera þessa skuldfærslu. Rétturinn tapast eitt ár í einu um hver áramót, en það eru ekki áramót núna. Ef brýnt var og rétt að grípa til aðgerða hefði átt að gera það um s. l. áramót og þá var reyndar álviðræðunefnd búin að skila áliti sínu og allar þessar niðurstöður lágu fyrir. Ef ekki var ástæða til þess þá er ekki ástæða til þess núna og ekki fyrr en um næstu áramót. Það glatast enginn réttur núna þó að menn láti málið kyrrt liggja. — Og þetta vekur vitaskuld spurninguna um hvað það sé sem hafi knúið á um að gera þessa bókhaldsfærslu einmitt núna. Það þarf þá aðrar skýringar en þær, að við höfum verið á leiðinni að glata einhverjum rétti. Ég skal víkja að því síðar hverjar kunni að vera skýringarnar á því.

Ég sagði áðan að málsmeðferð iðnrh. á þessu hefði ekki skilað neinum árangri. Það muna allir að þetta mál hófst með háum hvelli. Þegar við þá umr. fyrir tveimur árum vöruðum við talsmenn Alþfl. við vindhöggum, að hér yrði að halda vandlega á málum og mætti ekki greiða vindhögg því að þau gætu komið okkur illa síðar. En ég fæ ekki annað séð en nú sé verið að greiða hvert vindhöggið á fætur öðru, því miður, einmitt í þessu máli. Í tvö ár hefur sem sagt enginn árangur náðst.

Ég held að allt frá upphafi þessa máls hafi verið ljóst hver markmiðin væru. Það var annars vegar að fá hærra raforkuverð og í öðru lagi að sjá til þess að skattar væru rétt greiddir. Ég tel að við Alþfl.-menn höfum stutt iðnrh. í viðleitni til að ná fram þessum markmiðum, og við höfum leitast við að benda honum á hverju sinni hvernig við teldum skynsamlegast að halda á málum. Það er meira en ár síðan það kom fram í ræðum hjá okkur Alþfl.-mönnum hér á Alþingi hversu miklu mikilvægara væri að fá hækkun á raforkuverðinu en standa í stappinu um skattana. Þá þegar bentum við á að menn væru ekki nema 4–6 mánuði að vinna upp hugsanlega skattinneign, miðað við þá hækkun á raforkuverði sem telja mætti eðlilega og gögn lágu fyrir um að eðlilega ætti að gera kröfu til. Tíminn hefur verið okkur mjög dýr í þessu máli. Við höfum eiginlega á þessu tveggja ára tímabili tapað ferfaldri þeirri upphæð — eða meira — sem hér er verið að tala um að hafi svo djarflega verið færð til í bókun hjá fjmrn. Þetta er auðvitað eitt af aðalatriðum þessa máls.

En þegar litið er til baka og málatilbúnaðurinn skoðaður verður ekki komist hjá því að veita því athygli hversu kúnstugur hann hefur verið á köflum. Fyrir um það bil ári fór hæstv. iðnrh. á flot með að við yrðum bara að þjóðnýta álverið í Straumi úr því að þetta gengi ekki neitt. Við bentum á það þá, að það væri einkennileg aðferð við að hegna mönnum sem ekki hefðu staðið í skilum með skattana sína eða fengjust ekki til að greiða eðlilegt verð fyrir raforku að kaupa bara af þeim eignina. Sem betur fór áttaði hæstv. iðnrh. sig á því að þetta var ekki mjög snjallt og hefur ekki haft það mjög í flimtingum hina seinni mánuði. En það sem var kannske enn merkilegra var það, að eitt af því sem hæstv. iðnrh. taldi mjög óaðgengilegt í hugmyndum Alusuisse frá 10. nóv. var að þeir höfðu áhuga á að selja hluta af eign sinni þarna. Þá var það orðið óaðgengilegt sem átti að vera bjargráð í þessu máli fyrir ári. Þetta verður að teljast einkennilegur málatilbúnaður og ekki traustvekjandi.

Ég skal rekja annað dæmi. Í desembermánuði s. l. stóðu yfir samningafundir milli hæstv. iðnrh. og forstjóra Alusuisse. Þegar þeim fundum lauk tók hæstv. iðnrh. það mjög skýrt fram í viðtölum í fjölmiðlum, bæði ríkisfjölmiðlunum og eins í blöðum, að það hefði alls ekki slitnað upp úr samningum, þeim yrði auðvitað haldið áfram. Ég held að það hafi verið daginn eftir sem fulltrúi Framsfl. í álviðræðunefnd sagði af sér störfum á þeim vettvangi með miklu braki og hávaða. Það var ekki liðinn nema rumur sólarhringur, fáeinir dagar, tveir eða þrír trúi ég að þeir hafi verið, frá því að ráðh. sagði: Það hefur alls ekki slitnað upp úr samningaumleitunum, þangað til hann, eftir útgöngu fulltrúa Framsfl., sagði: Ég er að undirbúa einhliða aðgerðir. Hvernig lítur þetta út, hv. alþm.? Jú, forsendan fyrir því að undirbúa einhliða aðgerðir er sú, að fulltrúi Framsfl. sagði sig úr nefnd uppi á Íslandi. Ég er hræddur um að þetta sé lélegur undirbúningur mála í svo stóru máli sem einhliða aðgerðir eru, að það skuli verða forsenda fyrir undirbúningi einhliða aðgerða að einhver maður segi sig úr nefnd á Íslandi. Þetta líka verður að teljast heldur kúnstugt.

Svo hófust miklar skeytasendingar frá ráðh. til Alusuisse og frá Alusuisse til ráðh. og þegar þær voru búnar að standa nægilega lengi var farinn að harðna í þeim tónninn og ráðh. farinn að gefa yfirlýsingar um að ekki væri til neins að standa í þessu. Manni sýnist allur aðdragandi þessara seinustu aðgerða ákaflega einkennilegur. Þetta ber keim af því, að það sé ástandið í innanlandsmálum sem ráði gerðum iðnrh., en ekki málefnið sjálft. Upphlaupið með undirbúning aðgerða eftir að samningaumleitanir höfðu ekki slitnað var vegna þess að eitthvað gerðist á stjórnarheimilinu, að einhver fór úr álviðræðunefnd. Það er innanlandspólitíkin sem ræður gerðum ráðh., en ekki hin málefnalega staða. Og þetta virðist enn vera að endurtaka sig. Þá kem ég að síðustu aðgerð ráðherrans, sem ég spurði um áðan hvert tilefni gæti verið til úr því að það var ekki spurningin um að halda rétti sínum.

Jú, þá hafði það aftur gerst að það hafði orðið árekstur á stjórnarheimilinu. Framsóknarmenn undir forustu hæstv. sjútvrh. höfðu leyft sér að hafa aðra skoðun á því hvernig halda ætti á þessu máli en hæstv. iðnrh. og höfðu gert um það tillögu að sérstök nefnd yrði skipuð í málið. Síðan varð ágreiningur í ríkisstj. um vísitölumál, sem var heldur harðvítugur. Þá kemur það allt í einu eins og skrattinn úr sauðarleggnum að nú megi til að grípa til þeirrar aðgerðar að skuldfara fyrirtækið um skattinneign. Líka á þessum punkti virðist forsendan fyrir hverju skrefi ráðh. vera ástand í innanlandspólitík, einhvers konar innanlandsskák, ástandið á stjórnarheimilinu, en alls ekki málatilbúnaðurinn.

Með þessu er ég alls ekki að afneita því að Íslendingar kunna að þurfa að grípa til einhliða aðgerða, hvort heldur er í skattamálum eða að því er varðar rafmagnsverð, en aðdragandi málsins verður að vera með eðlilegum hætti og undirbúningur málsins verður að vera með eðlilegum hætti. Í rauninni eigum við aðeins tvær mögulegar leiðir að því er varðar hækkun á raforkuverði. Önnur er samningaleiðin og hin er einhliða hækkun. Og menn hljóta að spyrja sig fyrir hvert skref sem stigið er: Mun það sem gert er spilla fyrir árangri, hvora leiðina sem við veljum, hvora leiðina sem við verðum að fara? Mér sýnist að ýmislegt í þessum málatilbúnaði gefi einmitt tilefni til að ætla að það sé verið að spilla fyrir, hvor leiðin sem væri heldur farin. Það sé sífellt verið að gera erfiðara að vinna að samningaleiðinni og það sé verið að veikja undirstöðurnar undir því að grípa til einhliða aðgerða. Það er þetta sem er alvarlegt, en það er þetta, hæstv. iðnrh., sem ég tel að sé aðalatriði málsins.

Ég sagði áðan að við Alþfl.-menn hefðu leitast við að styðja iðnrh. í þeirri viðleitni að ná fram tveimur meginmarkmiðum: annars vegar hækkun á raforkuverði og hins vegar innheimtu á sköttum. Við höfum ítrekað ályktað um þetta efni. Það var ályktað um þetta í fyrra í flokksstjórn Alþfl., þar sem línurnar voru dregnar. Það var ályktað um þetta í desembermánuði í þingflokki Alþfl., þar sem línurnar voru dregnar og m. a. gerð till. um að sérstök nefnd flæki málið að sér og þá undir forustu aðila sem ríkisstj. öll treysti fyrir málinu. Ef þá hefði verið farið að þeirri till. stæðum við ekki í þeim sporum nú, að ráðherrarnir stæðu í spjótalögum og hnútukasti, eins og raun ber vitni. Ef menn hefðu borið gæfu til að fara eftir þessum tillögum okkar í desembermánuði væru kannske allir flokkar sameinaðir í því hvernig ætti að halda á þessu máli og hefðu náð niðurstöðu um skref fyrir skref og kannske væri kominn einhver árangur. En enn rennur tíminn án þess að árangur hefði náðst.

Menn hljóta að spyrja sig, eftir þessa aðgerð iðnrh. og fjmrh.: Hvert á næsta skrefið að vera? Er næsta skrefið, eins og iðnrh. hefur boðað að hann sé að undirbúa, einhliða hækkun á raforkuverði? Hvernig er það mál undirbúið? Hvernig erum við undir slíkt búin, ekki bara samkv. einhverju lögfræðiáliti heldur miðað við hugsanleg viðbrögð af hálfu gagnaðilans, því að einhliða aðgerð þýðir í raun að þeim samningi, sem kröfugerð okkar byggist á, t. d. í skattamálunum, er sagt upp? Við göngum á ákvæði hans í einni grein og þá verður því varla haldið fram að hann sé bindandi í öðrum greinum fyrir gagnaðilann. Ef viðbrögð ÍSALs eða eigandans, Alusuisse, verða sú að hætta að kaupa raforku, ætlum við þá að yfirtaka fyrirtækið? Hvernig erum við í stakk búin til þess? Hefur það mál verið undirbúið? Hvaða sambönd höfum við til að koma þá framleiðslunni hugsanlega á markað og hversu gott svigrúm höfum við í peningamálum til að yfirtaka þetta fyrirtæki — eða munum við láta okkur lynda að 700 manns verði bara send heim og standi hér atvinnulaus til viðbótar við alla þá sem nú þegar hafa misst atvinnuna? Ég held að það væri nær að hyggja betur að því, áður en hvert skref er stigið, hvert það leiðir og hver hin næstu skref kunna að þurfa að verða.

Ég ítreka að það hlýtur að vera markmið okkar að ná árangri í hækkun raforkuverðs og sjá til þess að réttir skattar séu greiddir. Og ég ítreka að það þarf að halda á þessu máli af festu. Ég get ekki séð að sú málsmeðferð, sem hér hefur verið tíðkuð af hæstv. iðnrh. og sem ekki verður annað séð en stjórnist fyrst og fremst af innanlandspólitík, sé líkleg til að skila okkur árangri í þessum efnum. En ég ætla að vona að enn sé ekki búið að eyðileggja málatilbúnað okkar í þessu máli.