16.02.1983
Efri deild: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2060 í B-deild Alþingistíðinda. (1775)

198. mál, fjáröflun til vegagerðar

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er alveg rétt, sem kom fram hjá hæstv. fjmrh., að þm. Alþfl. hafa í meginatriðum lýst stuðningi við þetta frv. Þó hygg ég að einstakir þm. hafi áskilið sér rétt til að flytja ef til vill einhverjar brtt., ef því væri að skipta, en í meginatriðum hafa menn lýst stuðningi við þetta mál.

Meginatriði hér er auðvitað það, að hér er verið að tryggja tekjur til vegamála. Það má ef til vill segja sem svo, að lækkun aðflutningsgjaldanna hafi reynst bifreiðaeigendum skammgóður vermir, en á hitt er og að líta að þessi skattur, sem hér er gert ráð fyrir, rennur beint til framkvæmda í vegamálum og þá einkum til bundins slitlags, og ég geri frekar ráð fyrir að ýmsar aðrar kvaðir þyki bifreiðaeigendum lakara að bera en þessa, þó hún valdi ekki neinni sérstakri ánægju.

Ég fagna því, að í þessu frv. skuli vera gert ráð fyrir að leggja svo kallað gúmmígjald niður, og ég vil aðeins geta þess hér, að í þáltill., sem ég hef flutt í Sþ. um að settar verði reglur um þær öryggiskröfur sem gera skuli og gera þarf til hjólbarða, er einnig gert ráð fyrir að aðflutningsgjöld af hjólbörðum skuli lækkuð. Þar er einmitt beitt sömu röksemdafærslu og hér, að ekki sé rétt að leggja háa sérskatta á rekstrarvöru sem hefur mikil áhrif á umferðaröryggi. Hins vegar er það svo, að þetta gúmmígjald er ekki hátt og ekki stór tekjuliður í ríkissjóðinn. En auðvitað ber að fagna því að það skuli lagt niður. Ég held hins vegar að lækka þurfi aðflutningsgjöld af hjólbörðum enn frekar í ljósi þess hve mikilvæg öryggistæki hjólbarðar eru og þá ekki síður að setja reglur um að hingað séu ekki fluttir og settir undir bíla hjólbarðar sem eru þannig merktir að þeir eru eingöngu ætlaðir undir hesta-, uxa- og asnakerrur. En ekki fleiri orð um það.

Eitt efnisatriði í þessu frv. vildi ég gera athugasemd við. Á síðustu árum hefur fjölgað hér mjög svonefndum dráttarbílum, það sem í umferðarlögunum er kallað festivagnar, þ. e. vagnar með hjólum að aftan, en framendi vagnsins leggst niður á sérstakan sleða á dráttarbílnum. Þessir bílar eru notaðir til ýmiss konar þungaflutninga og efnisflutninga og eru sjálfsagt frekar í eigu verktakafyrirtækja og flutningsfyrirtækja. Það er minna um að slíkir bílar séu í eigu einstaklinga, þó að töluvert sé um það. Mér sýnist að þessi skattlagning taki þá aðeins til bílanna, en ekki til festivagnanna, sem þeir draga að jafnaði á eftir sér og notaðir eru til flutninga á vörum, möl, sandi og öllu slíku. Mér sýnist að gagnvart þeim sem eiga vörubíla og reka vörubíla sé þetta ekki alveg sanngjarnt. Ég held að ekki væri óeðlilegt að þetta væri athugað sérstaklega með. Þessir dráttarbílar eru kannske að eigin þyngd svona 8–9 tonn og vagnarnir, sem þeir draga, alla jafna helmingur af þeirri þyngd kannske. Þetta er lauslega ágiskað.

Um áramótin 1981/1982 voru milli 7 og 800 tengi- og festivagnar skráðir hér. Það er ekki gerður munur á því í skráningu Bifreiðaeftirlitsins hvort um er að ræða tengi eða festivagn, en tengivagn er vagn sem tengdur er við bílinn með beisli og er á hjólum bæði að aftan og framan.

Ef til vill mætti leiðrétta þennan mun með því að hafa hér ákvæði um að þessir dráttarbílar skyldu greiða nokkru hærri skatt af hverju kílói. Ég held að það sé í rauninni sanngjarnt, ef litið er til notkunar þessara bíla, og ég óska eftir því, að sú nefnd, sem fær þetta til meðferðar, taki þetta atriði til athugunar. Ég hef e. t. v. í hyggju, ef nefndin ekki tekur þessi sjónarmið til athugunar, að flytja, hugsanlega við síðari umr. málsins, sérstaka brtt. um þetta efni, vegna þess að ég held að þetta sé réttlætismál.