16.02.1983
Efri deild: 45. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 2065 í B-deild Alþingistíðinda. (1779)

198. mál, fjáröflun til vegagerðar

Egill Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. samgrh. komst svo að orði, að ég hefði haft um það hér orð að það væri andstætt byggðastefnunni að byggja upp stofnbrautirnar. Það er ekki furða þótt ýmislegt snúi á haus í þessari vegáætlun ef menn meta staðreyndir með þessum hætti. Það sem ég sagði var það, að það stríddi gegn byggðastefnunni að byggja upp þjóðbrautir í þessu landi á næstu þremur áratugum.

Ráðherrann sagði líka, að hér væri verið að tala um áætlun til 12 ára. Hann sagði líka að það væri sérstakur kafli um þjóðbrautir í þessari vegáætlun. Það er alveg hárrétt. Ef við tökum þetta 12 ára markmið, sem reyndar er orðið 14 ára núna, og ef við tökum svo markmiðið um þjóðbrautirnar, sem er upp á 28 ár, og ef við leggjum þetta saman, þá koma samtals út 40 ár. Ef deilt er í þetta með tveimur fer það ekki mjög langt frá tveimur áratugum. Þá er það nokkuð augljóst, eins og hæstv. ráðh. sagði sjálfur í gær, að það væri raunhæft að vinna þetta verk á tveimur áratugum. Þannig er aðeins eitt í ósamræmi í þessum efnum við hans skoðanir og það er fyrirsögnin á þessari þál. Annað er allt í samræmi við að þetta sé 20 ára áætlun.

Ég tek undir það, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að auðvitað verða þessi mál rædd á Alþingi og í nefndum og ég tek undir það, sem hæstv. ráðh. sagði líka áðan, að óþarfi er að fara að endurtaka umr. frá því í gær. En ég undirstrika það, sem ég hef sagt hér áður, að ýmislegt þarf að gera annað en kalla eftir stuðningi frá okkur sjálfstæðismönnum í sambandi við skatta og það þarf að gera ýmislegt annað en komast að samkomulagi við okkur um afgreiðslu á langtímaáætlun, eins og gert var árið 1981. Það verður að sjálfsögðu að standa sem gert er samkomulag um. Ef svo er ekki getur verið svolítið erfitt að kalla eftir stuðningi við skatta.